Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= NORNAHAMARINN =

5. DESEMBER 1484 gefur Innocentius páfi 8. út bréf (búllu) og leggur þar galdur að jöfnu við villutrú. Hvort tveggja skyldi sæta sömu refsingu, og var það venjulegast dauðarefsing. Bréf þetta dregur nafn af upphafi þess, eins og önnur páfabréf, og er nefnt Summis desiderantis affectibus.

Í bókinni Galdur og galdramál á Íslandi eftir Ólaf Davíðsson, sem Sögufélagið gaf út (Reykjavík 1940-'43) er rakin hin hryllilega saga galdrafársins, sem kirkjuleg yfirvöld stóðu fyrir, og hvernig þessi óhugnaður teygði anga sinn hingað til Íslands.


Þar er talinn upp ýmiss konar galdur, sem dauðasök sé, og ekki allur sem stórvægilegastur. Skömmu seinna, 1489, sömdu þrír þýzkir munkar: Heinrich Krämer eða Institoris, Jakob Sprenger og Johann Gremper bók eina, er þeir nefndu Malleus malificarum, sem þýðir galdranornahamarinn. Þar voru reglur um það, hvernig fara skyldi með galdramál og þá, sem bornir væru galdri. Páfinn samþykkti bókina og Maximilian keisari. Þeir Hinrik og Jakob voru skipaðir galdradómarar, og skyldu hafa alveg ótakmarkað vald yfir lífi og dauða sakamannanna. Það mátti jafnvel ekki vísa dómum þeirra til annarra dómstóla, ekki einu sinni til páfans sjálfs. Sama voðavald höfðu galdradómarar eftir þá um langan aldur.

Nornahamarinn er voðaleg bók og vottur um það, hvert grimdaræði getur gagntekið mennina, þegar vanþekking er á aðra hönd, en trúarofsi á hina. Hann kennir, að öllum brögðum megi beita til að fá galdramenn til þess að játa sök sína, falsi og fláræði, lygum og svikum ekki síður en kvölum og pyndingum. Dómendur máttu t.d. lofa galdrahyskinu að hlífa því, ef það játaði sakir sínar fljótt og fúslega, en þurftu ekki að efna orð sín. Nornahamarinn er lögbók sú, sem galdramenn voru dæmdir eftir víðast hvar allt fram á 18. öld, og þótt ekki væri beinlínis dæmt eftir honum sumsstaðar, t.d. í Danmörku og á Íslandi, þá hafði hann samt mjög mikil áhrif á galdralöggjöfina um alla Norðurálfu.

Svo er sagt í galdrahamrinum, að djöfullinn hafi að vísu ekki vald til að breyta náttúrulögunum, en að guð hafi þó fengið honum mjög mikið vald yfir jarðneskum hlutum. Þetta þykjast þeir Sprenger sanna með sögunum um Job og freistingu Krists. Nú er djöfullinn andleg vera, og getur því ekki beinlínis framkvæmt neitt líkamlegt. Hann verður að hafa einhver verkfæri til þess, og þessi verkfæri eru einmitt galdramenn og galdrakonur. Djöfullinn og árar hans voru þó að minnsta kosti svo líkamlegir, að þeir gátu birst mönnum, enda spöruðu þeir það ekki. Þeir voru að vísu andlegar verur og ósýnilegar, eins og aðrir englar í upphafi, en þegar þeim var steypt til helvítis, þéttust líkamir þeirra svo mjög við fallið, að þeir gátu orðið sýnilegir dauðlegum mönnum. Heilagur Augustinus bjó til þessa skarplegu skýringu. Ástæðan til þess, að guð leyfir galdur, er sú, að hann vill, að trú hinna réttlátu verði þeim mun augljósari, alveg eins og hann leyfði ofsóknir gegn kristnum mönnum, svo að píslarvottarnir yrðu þeim mun dýrlegri af trúarþreki sínu. Í raun réttri var djöfullinn alveg af baki dottinn, en það hafði hann líka verið á dögum Jobs, og vissu þó allir, hve hann hafði fengið leyfi til þess að kvelja hann sárt.

Galdur er meiri glæpur en allar aðrar syndir. Galdramennirnir eru jafnvel verri en djöfullinn sjálfur, eftir því sem nornahamarinn segir, því djöfullinn er fallinn í eitt skipti fyrir öll, og Kristur hefur ekki kvalist fyrir hann á krossinum. Djöfullinn syndgar því að eins gegn skaparanum, en galdramaðurinn bæði gegn skaparanum og frelsaranum. Þetta og því um líkt er í fyrsta hluta galdrahamarsins.

Annar kaflinn er um ýmsar tegundir galdurs, og hvernig fari fram við galdramessur, því galdramessur og gandreiðir voru mjög tíðar um þessar mundir eða trúin á þær, réttara sagt. Nornirnar riðu öllu því, sem hönd festi á, en til þess að lífga reiðskjótana, ef þeir voru annars líflausir hlutir, þurftu þær smyrsl nokkur, sem þær fengu með því að grafa upp barnalík og sjóða þau. Þegar nornirnar voru komnar þangað, sem ferðinni var heitið, voru nöfn þeirra skrifuð með blóði í stóra bók, og því næst færðu þær djöflinum ýmislegt, sem þær höfðu meðferðis handa honum. Í staðinn fékk hann hverri norn fyrir sig púka, og skyldi hún hafa full ráð yfir honum. Djöfullinn var ekki púkalaus, enda hentaði það bezt, því nornirnar voru margar. Háskólakennari einn í Basel (+1564) hafði talið þá, og komist að þeirri niðurstöðu, að þeir væru 2665886746664 að tölu. Pétur biskup Plade (Palladius) getur þess líka, að Kristur hafi rekið 6666 djöfla út úr einum manni, og eftir honum hefur séra Guðmundur Einarsson það (bls. 26). Púkarnir fengust einkum við að gera náunganum eitthvert mein eftir undirlagi nornanna, og voru þá oftast í líki ýmissa dýra.

Í stuttu máli er það inntakið í öðrum hluta galdrahamarsins, að galdranornirnar geti gert allt illt, og jafnvel drepið menn með augnaráðinu einu. Mesta yndi þeirra sé þó að eta barnaket. Þær eti venjulega aðeins óskírð börn. Þó leggi þær sér einstöku sinnum til munns skírð börn, en til þess þurfi sérstaklega leyfi guðs. Oftast drepi nornirnar börnin með augaráði sínu eða þá dufti nokkru, sem djöfullinn hafi fengið þeim, þar sem þau sofi í vöggunni eða séu hjá mæðrum sínum, og haldi þá oft einfaldir menn, að þau hafi dáið af eðlilegum orsökum. Þegar þau hafi verið grafin, steli nornirnar þeim úr gröfunum. Það hafi komið fyrir, að þegar galdranornir hafi játað, að þær hafi stolið barnalíkum, þá hafi dómararnir látið rannsaka grafirnar, og hafi líkin þá fundist þar, en þegar svona standi á, verði dómendurnir að gæta þess, að djöfullinn hafi ráð undir rifi hverju. Hann hafi gert dómurunum sjónhverfingar til þess að bjarga þegnum sínum, og játun nornanna eigi sannarlega að mega sín meira en veik sjón vesælla manna. Hér ber að gæta þess, að galdranornirnar voru oftast kvaldar og pyntaðar til þess að játa sig sannar að sök, og getur því kenning þessi verið sýnishorn af hinni djöfullegu villu, sem skín gegnum nornahamarinn nálega á hverri einustu síðu.

Ekki telur galdrahamarinn það holt fyrir dómarana að líta framan í galdrakonur þær, sem þeir eru að fást við, því djöfullinn hafi veitt sumum þeirra slíkt vald, að þeir geti ekki fengið af sér að dæma .þær, þegar þær hafi átt kost á að líta framan í þá. Hér á eflaust að slá varnaglann við því, að dómarinn felli ástarhug til sakakvennanna, því margar þeirra voru ungar og fríðar, en þó öllu fremur við því, að þeir kenni í brjósti um þær kvaldar og grátnar, fullar harms og örvæntingar.

Við galdraundrunum telur galdrahamarinn ýmis ráð, svo sem vígt vatn og klukknahringingar, en þó einkum að klekkja á djöflinum með því að ofsækja þegna hans og verkfæri, galdrakonurnar og galdramennina, enda er þriðji kaflinn af galdrahamrinum skýrsla um það, hvernig fara eigi með galdramál, svo löglegt sé.

Galdradómendur eiga að taka galdramál fyrir, þótt enginn kæri, ef þeir fá aðeins pata af því, að einhver sé galdramaður. Hvar, sem þeir koma, eiga þeir að festa auglýsingu á kirkjur og ráðhús og skora þar á menn að kæra þá, sem þeir hafi grunaða um galdur, en hóta þeim banni og hörðum refsingum að öðrum kosti. Ákærendur geta fengið að launum fé og blessan kirkjunnar, ef henta þykir. Ef sakargiftarmennirnir vilja ekki gefa sig í ljós, geta þeir smeygt ákærunum niður í stokk í kirkjunni, sem gerður er til þess og einskis annars. Tvö eða þrjú vitni eru nóg til þess að fella. Öll varmenni eru vitnisbær í galdramálum, bannfærðir menn og sakarfélagar þess, sem kærður er, æruleysingjar og lauslætismenn, strokumenn og stórglæpamenn allir.

Galdramaður getur borið vitni á móti galdramanni, óvinur gegn óvini sínum, maður gegn konu sinni, kona gegn manni sínum, börn gegn foreldrum sínum o. s. frv., en þegar sakarfélagar eða ættingjar bera þeim í vil, sem ákærður er, eða grunur leikur á, þá hefur slíkur vitnisburður ekkert að þýða, því blóðið rennur til skyldunnar. Varnarmann mátti sá fá sér, sem borinn var galdri, en hann mátti aðeins verja manninn sjálfan, en ekki verk þau, sem honum voru gefin að sök, því ef hann lagði kapp á að verja galdramanninn, var hann jafnvel talinn miklu skæðari en hann og oft brenndur fyrir bragðið um leið og sá, sem hann hafði varið.

Eins og lætur að líkindum, eru kvalir og pyndingar ekki einungis leyfðar, heldur einnig boðnar í galdrahamrinum. Veraldlegu lögin bönnuðu að endurtaka pyndingar, ef ekki hefðu komið fram ný gögn í málinu, en því gátu þeir ekki unað Sprenger og hans líkar. Þeir kvöldu fólk dag eftir dag, en þóttust þó ekki ítreka pyndingarnar eða endurtaka, heldur halda þeim áfram. Þeim hélst þetta uppi, og þótti mjög gáfuleg skýring. Oftast voru sakamennirnir þó aðeins kvaldir þrjá daga samfleytt, ef þeir höfðu ekki meðkennt áður, og ef þeir dóu ekki, meðan stóð á pyndingunum. Svo voru látnir líða þrír dagar, og þá tekið til að nýju.

Ef galdrafólkið vildi ekki játa sig satt að sök þegar í stað, var oftast tekið til pyndinga, en þó ekki ávallt. Stundum var vatnsraunin höfð til þess að komast að raun um, hvort galdramenn væru sannir að sök. Hægri handleggur á þeim, sem grunaður var, var bundinn saman við vinstra fót, en vinstri fótur við hægri handlegg. Þá var honum sökkt niður í vatn neðan í bandi. Ef hann sökk ekki, þá var hann sannur að sök, því það var talið svo til, að þegar Kristur var skírður í Jórdan, þá hefði vatnið helgast, og tæki því ekki við neinum afbrotamanni, meðan hann væri ekki sannur að sök. Stundum voru líka sakamennirnir vegnir, og urðu þeir þá að reynast þyngri en ætlað var. Að öðrum kosti voru þeir taldir sannir galdrahundar. Langoftast var þó tekið til pyndinga, því það þótti ávallt myndarlegra að fá játningu sakamannanna, áður en þeir voru brenndir, og dómararnir komust fljótt að raun um það, að pyndingar voru þrautseigastar til þess að komast að þessu takmarki.

Kvalirnar voru mjög margvíslegar og engu fábreytilegri en á dögum Nerós, þegar menn voru pyntaðir fyrir kristna trú, en nú var ölin önnur. Nú var kristnin orðin lærisveinn Nerós keisara og böðla hans. Stundum voru sakamennirnir lagðir á stiga, var svo bundið bönum bæði um hendur og fætur, og tekið frá báðum endum. Stundum slitnuðu limirnir af við þessa meðferð. 1631 var ólétt kona pínd á Þýskalandi. Meðal margs annars var hún þanin á stiga. Hárið var rakað af henni. Því næst var brennivíni helt á höfuð henni, og kveikt í. Brennisteinn var brenndur í handkrikunum og á hálsinum á henni. Hún var lögð á grúfu. Því næst voru mikil þyngsl lögð á bakið á henni, og henni svo lyft upp. Henni var lyft upp á óhefluðu borði alsettu hvössum göddum. Fæturnir á henni voru klemmdir, þangað til blóð spratt undan nöglunum. Enn var hún húðstrýkt. Sumar af þessum pyndingum voru margteknar, og auk þess var konu auminginn kvalinn á margan annan hátt, allt sama daginn. Næsta dag var pyndingunum haldið áfram.

Einstöku menn voru svo harðvítugir, að þeir játuðu ekki að heldur, en flestir guggnuðu, eins og von var, og játuðu öllu, sem dómararnir vildu, en þá var ekki að sökum að spyrja, því þá var dauðinn vís. Þeir voru litlu betur staddir, sem þoldu píslirnar, því dómararnir höfðu komist að þeirri niðurstöðu með lofsverðri skarpskyggni, að djöfullinn sjálfur hefði stælt þá í kvölunum, svo að menn voru oft brenndir, þótt böðlarnir hefðu ekki getað fengið neitt upp úr þeim. Margir báru galdur á óvini sína, þegar farið var að kvelja þá. Þeir vissu, sem var, að lítil líkindi voru til þess, að þeir kæmust lífs af, þegar svona var komið fyrir þeim, og unnu þá óvinum sínum sömu kvala og sama dauðdaga. Sumir báru galdra á þá, sem höfðu borið þá galdri, ef þeir þekktu á annars, og höfðu þá oft þá ánægju á dauðastundinni að verða þeim samferða út úr lífinu, sem valdir voru að dauða þeirra.

Þegar galdramenn höfðu verið dæmdir til dauða, hvort sem þeir höfðu játað sig sanna að sök eða ekki, voru þeir fengnir í hendur veraldlegu yfirvaldi, og átti það að sjá um líflátið. Stundum voru sakamennirnir hálshöggnir fyrst, og líkið svo brennt, en öskunni þeytt úr í buskann. Oftast voru þeir þó bendir lifandi. Þeir voru venjulega bundnir á stiga, og svo var öllu saman varpað á viðarköstinn, sem kveikt var í um leið. Stundum voru púðurbögglar eða tjöruleppar hengdir um hálsinn á þeim til þess að stytta kvölina, en stundum var aftur brennt blautum við, sem brann hægt og seint til þess að auka píslirnar. Stundum var líka refsingin hert með því að klípa sakamennina með glóandi töngum eða handhöggva þá og limlesta á ýmsan hátt, áður en þeir voru brenndir.

Oft voru galdramenn og galdrakonur brennd hópum saman, og flykktist þá múgur og margmenni til þess að horfa á dýrðina. Það má jafnvel telja víst, að fólk hafi þyrpst að, þótt ekki væri brenndur nema einn sakamaður eða að minnsta kosti tíðkaðist slíkt við aftökur manna um þessar mundir, og liggur í augum uppi, hvílíka spillingu þessi tíðu og hryllilegu líflát hafi haft í för með sér. Bálkestir voru oft geysistórir, einkum þegar margir voru brenndir í einu, en þess þurfti ekki til. Það voru 22 vagnfarmar af við í bálkesti þeim, sem norn ein var bend á í Ribe í Danmörku, og hefir hlotið að lifa í honum í marga daga.

Það var í raun réttri aðeins hending, hvort galdraorð fór af mönnum á 16. og 17. öld eða ekki, því menn voru bornir galdri fyrir allt, sem nöfnum tjáir að nefna eða því sem næst. Ef illt orð lék á mönnum, ef menn áttu óvini, ef menn voru í ætt við galdramenn, ef menn áttu óvini, ef menn voru í ætt við galdramenn eða galdrakonur, sem brennd höfðu verið, þá áttu þeir á hættu, að bera bornir galdri. Sama átti sér stað, ef menn voru óvenjulega lærðir, ef menn auðguðust fljótt, eða ef menn voru heppnir með lækningar, og enn voru ótal ástæður til galdraryktis, eins og stendur svo víða í alþingisbókum. Ef menn sóttu sjaldan tíðir, þá var það stundum talinn vottur um galdrakunnáttu, en þegar menn á hinn bóginn þóttust vera trúaðir mjög, var það stundum lagt svo úr, að menn vildu firra sig galdragrun með því. Ef menn voru mjög óttaslegnir, þegar þeir voru teknir fastir, þá þótti það benda á vonda samvisku. Aftur var talið, að djöfullinn hefði forhert þá, sem létu engan bilbug á sér finna.

Miklu hefir verið brennt fleira af konum en körlum, og hafa brennurnar einkum komið niður á öldruðu kvenfólki. Þetta virðist vera kynlegt í fljótu bragði, en er þó eðlilegt, þegar betur er að gætt. Konur eru að öllum jafnaði hneigðari til hjátrúar en karlmenn. Þær hafa venjulega fjörugra ímyndunarafl og ofsalegri geðshræringar. Auk þess fást konur miklu meira við að bera út sögur hver um aðra en karlar, og sögurnar eru ekki ævinlega eins góðgirnislegar eða sannar og vera skyldi, en á galdraöldinni var sjaldnast löng leið til bálsins fyrir þann, sem borinn var galdri. Það má telja það alveg víst, að þvaður og mælgi málugra kerlinga hafi átt mjög mikinn þátt í galdrabrennum. Í annan stað voru gamlar konur varnarlausar fyrir, og það var hægast að fá þær til þess að játa sig sannar að sök, en annars voru bæði karlar og konur, lærðir og leikir, bæði gamlir menn og ungir, bornir galdri og brenndir.

Það eru jafnvel dæmi til þess, að fjögurra ára gömul börn hafi verið brennd fyrir galdur. Allar taugaveiklaðar konur áttu á hættu að verða brenndar. Sama máli var að gegna um alla þá, sem vitskertir voru, einkum ef þeir höfðu trúaræði, en þeir voru margir um þessar mundir. Það var ekki nóg, að allir tryðu því, að þessir vesalingar væru galdramenn. Þeir trúðu því sjálfir, og er hryllilegt að hugsa til þess, en þetta var eðlilegt, því sjúkdómurinn knúði þá til þess, og auk þess var megn hjátrú samfara sjúkdómnum.

Sumir af þeim, sem brenndir voru, hafa eflaust verið misindismenn, en flestir hafa þó verið saklausir, enda könnuðust fæstir þeirra við, að þeir hefðu haft um hönd verulegan galdur, fyrr en skrúfur og hjól, gaddar og klemmur kenndu þeim það.

Stundum komst það upp eftir á, að menn höfðu verið brenndir saklausir fyrir galdur, en það varð ekki aftur tekið. Konungar og ríkisráð lýstu yfir sakleysinu, en þeir, sem um var að ræða, höfðu þá verið brenndir stundum fyrir löngu, og höfðu oft orðið að sæta sárum kvölum, áður en þeir voru líflátnir. Stundum varð það jafnvel uppvíst, að svik voru í tafli með galdramálin. Seint á 17. öld var t.d. ákaflegt galdrastapp í Thisted í Danmörku. Presturinn þar, magister Oluf Björn, hafði fengið 14 konur eldri og yngri til þess að látast vera djöfulóðar og bera hefðarfrú eina galdri, af því að hún vildi ekki gefa honum dóttur sína. Allt komst upp. 1698 dæmdi hæstiréttur prestinn frá kjóli og kalli og í ævilangt fangelsi. Hann var þó náðaður næsta ár, en rekinn úr landinu.

Enn þá stórkostlegri er glæpur sá, sem skoskur maður, Hopkins nokkur, gerði sig sekan í. Hann varð ber að morði, og var hengdur fyrir það. Áður en hann var festur upp, játaði hann, að hann hefði borið galdrasakir á 200 konur, og hefðu þær allar verið brenndar. Hann kvaðst hafa fengið 20 shillinga fyrir hverja þeirra hjá dómaranum. Á Þýzkalandi fengu líka galdradómararnir vissa upphæð fyrir hvern dóm og hvern galdramann, sem brenndur var, nálægt 20 krónum, og auk þess eignir þeirra, sem af voru teknar, en böðullinn og sveinar hans fengu göt þeirra og annað smávegis. Ef öll kurl kæmu til grafar, mundi það koma upp úr kafinu, að eigingjarnar hvatir hafi verið orsakir til fleiri galdramála en þeirra, sem um hefur verið getið og, ef til vill, fjöldans af þeim.

Ég hef nú skýrt nokkuð frá því, hvernig galdramál fóru fram almennt, meðan þau voru í blóma sínum, og er auðséð að melleus malificarum hefir haft mjög mikil áhrif á alla meðferð á þeim. Það er heldur ekki furða, þar sem hann átti að nokkru leyti rót sína að rekja til páfans, sem var konungur konunganna um þær mundir. Hitt er merkilegra, að siðabótin skyldi styðja að hinu sama: eflingu galdratrúarinnar og fjölgan galdramálanna, og skal ég nú leitast við að skýra það með nokkrum orðum.

 

Nornahamarinn 2


Aftur í yfirlit