Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= NORNAHAMARINN 2 =


Fyrir siðbótina hafði verið hin mesta deyfð og doði yfir trúarlífi manna. Menn höfðu trúað páfanum eins og nýju neti, en hirt fremur lítið um guð sjálfan. Við siðbótina komst mjög mikil breyting á þetta, en hún var misjöfn, eftir því hvort þjóðirnar voru Lúterstrúar eða páfatrúar. Lúterstrúarmenn sáu, í hverri villu þeir höfðu vaðið, svo öldum skipti, og ofbauð þeim sjálfum, hve þeir hefðu getað farið villir vega. Þeir gátu ekki hugsað sér annað, en að guð væri reiður við þá fyrir afglöp þeirra, en enn reiðari hlaut hann þó að vera við páfatrúarmennina, sem ekki vildu hverfa frá páfavillunni, þótt augun á þeim hefðu verið opnuð. Páfatrúarmönnunum blöskraði aftur fráhvarf Lúterstrúarmanna, og lá beint fyrir þeim að trúa því, að guð væri bálreiður yfir því. Þeir hugsuðu sér, að guð væri einkum reiður við Lúterstrúarmenn, þessa frávillinga og villutrúarmenn. Svona stóð á því, að fyrstu aldirnar eftir siðabótina hugsuðu menn sér almennt, að guð væri reiður við mannkynið, eins og á tímum Gamlatestamentisins að sínu leyti, en af þessari reiðitrú leiddi, að menn fundu mjög til synda sinna.

Reiði guðs kom líka berlega fram á ýmsan hátt. Hann lét halastjörnur og ýmsar aðrar nýstárlegar loftsjónir sjást á himinhvolfinu. Hann breytti sjónum sumsstaðar í blóð, og ekki vantaði ýmsa fyrirburði á jörðinni, svo sem vanskapnaði og ýmiss önnur undur. Allt þetta birti guð til þess að sýna mönnunum, að hann væri reiður við þá vegna synda þeirra, og að hann mundi refsa þeim mjög harðlega, ef þeir bættu ekki ráð sitt, og iðruðust synda sinna.

Menn gerðu allt, sem þeim gat komið til hugar til þess að blíðka reiði guðs. Prestarnir þrumuðu af predikurnarstólunum hvern helgan dag um syndafarg það, sem lægi á sálum manna. Flestar skemmtanir voru bannaðar, þótt þær væru alveg saklausar. Öll sundurgerð var bönnuð í klæðaburði og hárskurði o. s. frv., en allt kom í sama stað niður; guð lét ekki blíðkast. Djöfullinn var líka í vondu skapi um þessar mundir eða svo trúðu menn almennt. Siðabótin kom honum mjög við, því hann hafði misst fjölda af þegnum sínum, hvoru megin sem litið var á málið. Lúterstrúarmenn töldu páfatrúarmenn börn djöfulsins, en þeir völdu Lúterstrúarmönnum engu veglegri nöfn. Menn trúðu því, að djöfullinn hefði orðið reiður yfir missi sínum, og það var svo sem eðlilegt, að hann leitaðist við að hefna sína.

Djöfullinn gat reyndar ekkert gert gegn vilja guðs, en af því að guð var reiður sjálfur, leyfði hann djöflinum að ná sér niðri á mannkyninu, eins og á Job forðum. Nú fór djöfullinn af stað, og þá versnaði sagan, því hver ósköpin dundu yfir eftir önnur. Drepsóttir geisuðu yfir löndin, hallæri sugu merg og blóð úr þjóðum, stríð og styrjaldir kipptu á burt öllum fjöldanum af ungum mönnum og upp vaxandi og allt eftir þessu. Nú varð við ramman reip að draga, því ekki var hægt fyrir mennska menn að klekkja á djöflinum sjálfum. Þó reyndu menn til þess me ýmsu móti, svo sem með því að banna harðlega blót og ýmislegt annað athæfi, sem menn héldu, að djöfullinum væri ánægja að. Aðalvopnið á móti djöflinum var þó að ofsækja af fremsta megni alla þá, sem menn héldu, að væru sérstakir vinir hans og þegnar, verkfæri og máttarstólpar, en það voru einmitt galdramenn og galdrakonur. Menn trúðu, að þessir galdrahundar létu miklu meira til sín taka nú en áður hafði tíðkazt, eins og eðlilegt var, þar sem menn trúðu, að djöfullinn legði fram á að hefna sín á mönnum. Ekkert var of vont handa þessum "djöfuls kroppum", engar pyntingar voru nógu sárar handa þeim og engin refsing nógu hörð. Nú þótti það einna beizkastur dauðdagi að vera brendur lifandi, og þess vegna voru galdramenn líflátnir með þessu móti.

Á miðöldum höfðu galdrabrennur verið fremur fátíðar, að minnsta kosti á Þýzkalandi og á Norðurlöndum. Í Danmörku þekkja menn t.d. enga galdrabrennu frá miðöldunum. Á Þýzkalandi voru galdranornir fyrst brendar í Trier um miðja 13. öld, en þar voru þó engar ofsóknir fyrir galdur, fyrr en þær gusu upp í Heidelberg 1446. Ofsóknir þessar og æsingar voru þó ekkert gagnvart því, sem seinna varð, því skarið tók fyrst af með siðbótinni. Þá hófst þegar hin mesta galdrabrennuöld í Danmörku, og var brendur þar fjöldi af fólki eftir undirlagi Péturs biskups Plades og annarra kennimanna. Sama máli var að gegna um alla Norðurálfuna. Galdratrú breiddist þar út eins og eldur í sinu bæði um lönd þau, sem Lúterstrúarmenn bjuggu í og páfatrúarmenn, og galdrabrennurnar urðu henni ávallt samfara.

Galdratrúin var eins og sóttkveikja, sem breiddi dauða og hrellingu út um löndin. Varla var talað um annað en galdur og galdrabrennur. Allir voru dauðhræddir, og þar koma að lokum, að fjöldi manna trúði því, að þeir væru rammgöldróttir, og stæðu í nánu sambandi við djöfulinn, en þeir voru þó enn fleiri, sem héldu, að allt mótdrægt, sem þeim bar að höndum, stafaði frá galdri óvina þeirra. Það var líka ekki við öðru að búast, því hinir andlegu leiðtogar lýðsins, prestarnir, hömuðust á móti galdri af alefli, og stuðluðu mjög mikið með því til þess að auka galdratrúna og breiða hana út.

Lúter trúði sjálfur á galdur og galdrafólk, og að djöfullinn gerði mönnum ýmsar líkamlegar glennur. Allir þekkja söguna um það, þegar hann henti blekbyttunni í djöfulinn í Wartburg. Hann trúði því líka, eftir því, sem stendur í borðræðum hans (Tischreden), að djöfullinn og árar hans gætu átt afkvæmi með mennskum konum, og lengra verður ekki komist í hjátrúnni.

Ekki vita menn með vissu, hve margir menn hafa verið brenndir fyrir galdur, en það vita menn, að það var ótrúlega mikill fjöldi manna. Almennt telja menn, að hálf fjórða milljón manna hafi verið brennd, og mun ekki of mikið í lagt, þegar þess er gætt, að í sumum héruðum á Þýzkalandi og Frakklandi var hver einasta kona brennd á tiltölulega fáum árum. Í einni sveit í Elsass voru brennd 5000 manna á árunum 1615-35, og í litlum kaupstað þar voru brenndir 136 menn á árunum 1672-1620. Benedict Carpzov í Leipzig (1595-1666) var einna voðalegastur galdradómari á Þýskalandi. Hann dæmdi 20000 galdramenn til dauða. Að öðru leyti var hann vandaður maður og trúaður mjög. Hann las biblíuna 53 sinnum spjaldanna á milli, og var til altaris í hverjum mánuði.

 

Ógnir þær, sem galdrabrennurnar höfðu í för með sér, keyrðu svo úr hófi, að ýmsir skynsamir menn reyndu til þess að stemma stigu fyrir þeim, en það tjáði lítið. Ulrich nokkur Molitor í Konstanz barðist fyrstur manna á móti galdrabrennum nálægt 1500, en þar næst Cornelíus Agrippa von Nettesheims frá Metz (1486-1535). Lærisveinn hans Johann Weyer (Wierus) frá Brabant (lézt 1588) samdi líka latneskt rit á móti galdratrú 1563, og mæltu ýmsir vitrir menn fram með því, en þeir voru ofsóttir og jafnvel teknir af lífi. Auk þess ritaði fjöldi manna á móti riti Weyers, svo sem Jakob fyrsti Englandskonungur, og kom það því að litlu haldi.

Það var ekki heldur að búast við því. Galdratrúin stóð í svo nánu sambandi við hjátrú þá, sem drottnaði um heim allan um þessar mundir, að hún hlaut að vera við lýði, þangað til náttúruvísindin tóku að ryðja sér til rúms, en það varð ekki fyrr en síðar. Friedrich von Spee jesúiti (1592-1635) barðist á móti galdrabrennum af alefli, og samdi á móti þeim rit 1631, sem heitir Cautio criminalis. Bók þessi kvað vera mjög merkileg og segir Henne am Rhijn, að hún sé eitt af þeim ritum, sem séu marksteinar í sögu mannkynsins og allrar mannlegrar menningar.

Þegar komið var fram undir lok 17. aldar, fór mjög að draga úr gladramálum og galdrabrennum. Í Danmörku var t.d. gefið út um það konungsbréf 1686, að ekki mætti taka neinn af lífi fyrir galdur, fyrr en hæstiréttur hefði rannsakað málið, og dæmt það, og ekki þekkjast dæmi til þess, að menn hafi verið brendir fyrir galdur í Danmörku eftir 1700. Rénan galdrabrennanna er einum að þakka tveimur mönnum, Balhasar Bekker, presti í Amsterdam, og Christian Thomasius (1655-1728), háskólakennara í Halle. Bekker gat út rit 1691, sem hét Bezauberte Welt, og Thomasius gaf út rit á móti galdratrú og galdrabrennum 1703. Í báðum ritunum er sýnt framá, hve hræðileg og skaðleg galdratrúin sé. Bekkert sannar mál sitt mað alvarlegum og röksamlegum ástæðum, en Thomasius dregur galdratrúna sundur í logandi háði.

Bæði ritin mættu mikilli mótspyrnu fyrst í stað, en svo fór, að menn sannfærðust um, að þau höfðu rétt að mæla, og þegar menn voru komnir að þeirri niðurstöðu, þá höfðu galdrabrennur lifað sitt fegursta. Eftir miðja 18. öld komu út lög á móti galdrabrennum í Þýzkalandi og Austurríki. Seinasta galdrabrenna, sem menn hafa sögur af, fór fram á Þýzkalandi 1775, en seinasta líflát fyrir galdur gerðist í Glarus á Svissaralandi 1783. Þar var þá hálshöggvin kona fyrir fjölkynngi. Reyndar eimdi lengur eftir af galdratrúnni á Þýskalandi, og réðst skríllinn stundum á kerlingar, sem hann hugði að færu með galdur, og drap þær. Þetta kemur jafnvel fyrir í afskektum sveitum á Rússlandi enn í dag.

– – –

Ég hefi stutt mig hér við ýmis útlend rit, einkum "Hexe og Hexeprocesser í Danmark" eftir Verner Dahlerup, Kmh. 1888; "Medeltidens Magi" eftir Victor Rydberg, Stockh. 1865; "Overtro og Trolddom fra de ældste Tider til vore Dage" eftir Alfred Lehmann, Kmh. 1893, 1894; "Kulturgeschichte des deutschen Volkes" eftir Otto Henne am Rhijn, Berllin 1892 og "Udsigt over Hexeprocesserne i Norden" eftir Rasmus Nyerup í "Det skandinaviske Litteraturselskabs Skrifter xix og xx Kmh. 1823 og 1824. Í kaflanum af ritgjörð Nyerups er svo lítill kafli um galdramál á Íslandi (bls. 391-94), en á honum er alls ekkert að græða, því Nyerup fer þar einungis eftir Ferðabók Eggerts Ólafssonar I, bls. 465-81, Jus criminale eftir Svein lögmann Sölvason 1776, bls. 28-36 og Kirkjusögu Finns biskups III, bls. 517-20.

 

Nornahamarinn 3


Aftur í yfirlit