Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Galdrafárið á Íslandi =


Galdur og fjölkynngi hefir tíðkazt á Íslandi með ýmsu móti þegar á landnámstíð og ávallt síðan að minnsta kosti fram undir þennan dag. Finnur Jónsson háskólakennari hefir ritað allýtarlega um galdur á Íslandi í heiðni og er því ekki þörf að minnast á hann hér og það því síður sem aðalverkefni ritgjörðar þessarar er galdur og galdramál á Íslandi eftir siðbótina. Þó má geta þess, að í heiðni var tíðast að lemja galdranornir grjóti í hel, en stundum voru þær þó teknar af lífi á annan hátt.

Eftir að kristni var lögtekin, var galdrinum háttað eins og í heiðni fyrst framan af. Galdramennirnir fengust einkum við forneskju á næturþeli, því þeir urðu að fara leynt með töfra sína. Þeir þóttust þá eiga orðastað við anda og ára og fá ráð hjá þeim, oftast til þess að gera öðrum illt. Forneskja þessi var kölluð útisetur, og lá jöfn refsing við þeim og seiði, fordæðuskap og að vekja upp tröll þ.e. vekja upp drauga. Á 11. og 12. öld er þó sjaldan eða aldrei getið um líflát fyrir galdur, enda voru lögin þá betri og siðir manna mildari en í heiðni.

Eftir því sem er að ráða af Jónsbók, hefir allur galdur verið með sama blæ og áður á 13. öld, og hefir það eflaust haldizt, þangað til klerkaveldið var orðið rótgróið og trúarlegar hégiljur, svo sem hindurvitni með vígðu vatni, krossmörkum o. s. frv., komu í staðinn, en þau voru alls ekki talin til hjátrúar eða fjölkynngi. Þetta helgikukl, ef svo má segja, sat í hásæti frá hér um bil 1300 og fram að siðbót.

Á þessu tímabili er mjög sjaldan getið um refsingar fyrir galdur og að eins eina galdrabrennu. 1343 lét Jón biskup Sigurðsson brenna systur eins í Kirkjubæjarklaustri, Katrínu að nafni, og var henni gefið það að sök meðal annars, að hún hefði bréflega veðdregið sig djöflinum. Á Grænlandi er líka getið um galdrabrennu liðugri hálfri öld seinna. 1406 eða 1407 var brendur þar maður einn, er Kollgrímur hét "fyrir þá sök, að hann lá eina manns kvinnu, er Steinunn hét, dóttur Hrafns lögmanns, er lézt í skriðunni norður í Lönguhlíð; átti hana þá Þorgrímur Sölvason; fékk Kollgrímur hennar vilja með svarta kvonstur; var hann síðan brendur eftir dómi; var kvinnan og síðan aldrei með jafnri sinnu og áður, og deyði þar litlu síðar".

Eftir siðabótina voru allar kreddur og hégiljur, sem páfatrúin hafði haft í för með sér, strengilega bannaðar, og dró það mjög úr þeim, en þó lifði lengi í kolunum. Jafnframt kom upp annars konar hjátrú og annars konar hindurvitni, sem höfðu talsverðan keim af galdri í heiðni. Nú var aftur farið að tíðka rúnir og galdrastafi og fremja fjölkynngi í nafni Þórs og Óðins o. s. frv. Yfir höfuð að tala fóru hindurvitni mjög vaxandi með Lúterstrú svo á Íslandi sem annars staðar, og alltur aldarháttur á 16. og 17. öld er gagntekinn af hinni römmustu hjátrú. Ég skal nú fara um hana nokkrum orðum, áður en ég minnist á sjálfa galdrana.

Menn trúðu því á Íslandi ekki síður en í öðrum löndum, að guð væri reiður mjög við mannkynið, einkum Íslendinga sjálfa, og hefir þessi reiðitrú eflaust flutzt til Íslands frá útlöndum, eins og Jón Espólín segir: "Í þann tíma (1590) gerðist ærin trú á sjónum og fyrirburðum, því að svo var þá á Þýzkalandi og Danmörku; trúðu menn, að hvað eina mundi merkja heimsendi eður sérlegar hegningar". Guð lét reiði sína í ljósi á ýmsan hátt, og þar kom, að menn töldu alla nýstárlega viðburði vott um heift guðs og yfirvofandi hegningu. Menn höfðu lengi haft hjátrú á halastjörnum, og svo segir í Rímbeyglu: "Cometæ merkja jafnan ríkjaskipti eða drepsótt eða bardaga eða önnur stórtíðindi". En nú fara menn fyrst að óttast þær fyrir alvöru. Menn trúa því fastlega, að þær hafi fjárfelli og grasleysi í för með sér. Halastjarna sást veturinn 1664. Það hræddust þá allir menn og hvern hlut annan, sem var óvenjulegur".

Einna mest óttuðust menn þó halastjörnuna, sem sást 1680. Séra Jón Guðmundsson kvað um hana langan sálm, bænarbelti. Og séra Páll Björnsson í Selárdal tók saman um hana langa predikun: Homilia de cometa, qui anno 1680 toto decembri visus fuit. Þar segir séra Páll meðal annars: "Guð skapar kómeturnar af því blóði og blóðugum syndum, sem á jörðina út hellast, og á jörðinni drýgjast, hvað allt upp stígur í hæðirnar. Þessi illska er sá suddi og brennisteinn, sem bálast í þessum kómetueldi, svo sem Esajas segir (9. kap.): Ranglætið brennir sem eldur".

Menn lögðu líka hinn mesta trúnað á sólmyrkva og tunglmyrkva. 12. nóvember 1574 var tunglmyrkvi í 4 klukkustundir. Þá gekk bóla um Ísland. 1601 "skeði hræðileg formyrkvun á sólinni á Magnúsmessu fyrir jól; stóð yfir lengi dags eður mest allan daginn, svo sólin varð öll svört, sem boðaði eftir komandi óáran og harðindi, og strax með þeim degi skiptist um til harðinda." 9. og 10. nóvember 1630 varð tunglmyrkvi á næturþeli. Hann var talinn áreiðanlegt sóttarmerki. Allar loftsjónir, sem ekki sáust svo að segja daglega, voru annars taldar fyrirburðir. 1594 var fellivetur mikill norðan lands. "Einn maður sá svoddan sýn. Hann reið frá Odda suður. Hann sá fljúga einn dreka neðarlega í lofti, álíka sem lindormur er upp kastaður; var allt í rauðum loga; fór vestur og þráðbeint austur; varð maðurinn aftur að snúa, því hesturinn vildi hvergi ganga, en hvorki sakaði hestinn né manninn. Sumardaginn fyrsta 1627 "heyrðist mikið hljóð, og í því sást einn glóandi hnöttur fljúga, hver sér í sjóinn niður kastaði með ógnarlegum hljóðum. Þann dag var maður réttaður á Heynesi á Akranesi."

 

Nornahamarinn 4


Aftur í yfirlit