Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Vakandi sjón og vitran séra Jóns Eyjólfssonar yngra =


Þá er vitran Jóns Eyjólfssonar að Hvammi í Norðurárdal (1695-1715), og skal ég færa hana hér til orðrétta, því hún segir frá hinni mestu og fjölbreyttustu loftsljón, sem sézt hefir á Íslandi, svo að mér sé kunnugt, en mun á hinn bóginn vera fáum kunn.

"Vakandi sjón og vitran séra Jón Eyjólfssonar yngra, en hann sá með öðrum manni á sinni reisu þann 24. júní 1684.

Ég, Jón Eyjólfsson yngri, Jesú Krists þénari, ferðaðist eitt sinn heimleiðis undan Snæfellsjökli. Með mér var fullorðinn maður frómur og ráðvandur, Árni Guðmundsson, og piltur einn. En sem ég var kominn á fjörurnar fyrir framan Straumfjarðará, sá ég um kvöldið þess sama dags, um sólsetursbil, sjón þá eður sýn, sem hér greinir:

Fyrst sá ég, að einhverju brá fyrir mig á loftinu, en sem ég hugði að því gjör, þá var það skip undir seglum, og hélt til norðurs. Það sýndist mér vera langt í skýjunum, en ei sá ég það nema um lítinn tíma. Þar eftir sé ég að lítilli stundu liðinni á norðurloftinu álíka stórt skip og venjulegt kaupfar. Það var þrímastrað. Jafnframt sá ég annað skip nokkru minna ofar á loftinu tvímastrað. Bæði þessi skip voru undir seglum, og sigldu sem hægan byr vestur eftir loftinu, og þá ég hafði horft á þau góða stund, sá ég einn mann við það stærra skipið. Bæði sýndust mér vera í skýjunum eða bak við skýin, því þar sem skýjin voru þykk, sá ég þau ei, en þar sem þau greiddust í sundur, sá ég þau. Síðar sá ég tvo menn á norðurloftinu á heiðríkum himni hvorn hjá öðrum. Báðir voru þeir á síðkjólum, og horfðu hvor til annars. Svo sá ég nokkra menn, hér um bil átta, tíu eða tólf, einn, sem var mitt á milli þeirra, og var mjög ypparlegur ásýndum. Hann var í stærra lagi, og horfði til suðurs. Hér eftir sá ég tvo menn. Báðir voru þeir á kápu spássérandi, og gengu sem um gólf á norðurloftinu. Undireins sá ég tvo menn á vesturloftinu, sem riðu til suðurs, og einn mann á útnorðurloftinu hálfboginn með hár á höfði, og var í stígvélum með bagga á bakinu, undir hverjum mér virðist hann ei geta upp risið, og þar eptir var upp af bagganum sem hrauktjald, en þá hann hvarf mér, varð í sama stað á loftinu, hvar hann hefði áður verið eður hans mynd, óttaleg og forljót skepnulíking, hverri ég kann við engan hlut að líkja, sem ég séð hefi. Frá þessum manni hugði ég áður greinda tvo menn, er spásseruðu, líka svo hina, er riðu til, en jafnframt þessu sá ég ótölulegan mannfjölda, ýmislega klædda, á norðurloftinu standa. Síðar sá ég mann mjög stórvaxinn, höfðinglegan og svipmikinn á landsnorðurloftinu. Hann hafði hatt á höfði, og horfði til vesturs. Undir vinstri hendi hélt hann á poka stórum, sem var saman dreginn á báðum endum. Í hægri hendi hélt hann á vendi, hverjum hann bandaði að mönnum nokkrum, er þar voru nálægir, og breiddu við bakið, en ei sá ég vöndinn við þá koma. Eftir þetta sá ég mikinn mannfjölda nær því um allt loftið til austurs, norðurs, vesturs, og suðurs og það góða stund. Svo gerði mikla skúr. Ég var þá líka kominn í áfangastaðinn í Núpunes. Á meðan hún stóð yfir, sá ég hvergi beran himin, en að henni endaðri, sá ég mannfjöldann sem fyrr. Nokkra sá ég halda á bók, suma á bréfum, nokkra á klútum sínum. Sumir voru á prestabúningi, þótt hinir væru fleiri. Einn var á hvítum sloppi, einn hélt á bók, frammi fyrir hverjum að stóð maður á knjánum, sem undir aflausn væri. Einn mann sá ég setja kníf fyrir brjóst öðrum, en ei sá ég hann fá skaða af knífnum, en þó féll hann á bak aftur. Einn mann sá ég ganga svo sem í kring fiskahlaða, einn klappa hundi, einn strjúka nauti, einn leiða sauð. Nokkra menn sá ég líka á reið á suðurloftinu, nokkra hesta lausa, eitt naut og eitt ferfætt dýr, ei ólíkt leóni. En er leið á nóttina var allt fólkið stærra og mikið fyrirmannlegra en áður sá. Hvot heldur ég sá tvo eður þrjá kvennmenn, man ég ógjörla, en við eina þeirra var mest haft. Þrjú skip sá ég um sólaruppkomuna. Þau héldu af vestri, og héldu sömu leið sem hin fyrri, en hvort þau voru hin sömu, vissa ég ei, því eftir að hin skipin voru komin í miðmorgunstað, að ég meinti, sá ég þau ei og engin skip fleiri, en þau komu af vestri. Þetta sá ég alla nóttina og fram yfir sólaruppkomu. Þá lagði ég mig til svefns, en sem ég vaknaði, sá ég á skýjunum menn fara flokkum saman, flesta ríðandi og stærri en um nóttina. Þá voru kvennmenn nær í hverjum flokki, einn, tveir og þrír og sumsstaðar fleiri, og það sá ég allan daginn oftast nær.

[Hér greinda sjón eður sýn sá ég fyrr greindur Árni Guðmundsson, sem á ferð var með presti.]

Gæti hver sín, en guð vor allra í Jesú nafi. Amen."

 

 

Sjón þessi er að vísu ekki sett í samband við neinn sérstakan atburð, en það er þó auðséð á niðurlagi hennar, að hún er sett í samband við syndir þjóðarinnar.  

Nornahamarinn 5


Aftur í yfirlit