Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Galdrafárið á Íslandi =


Það voru ekki aðeins loftsjónir, sem menn töldu vísan vott um reiði guðs, heldur líka allir óvenjulegir náttúruviðburðir. "Óvenjuleg stórviðri, sjávarólga, vatnagangur og sá ógnarlegi elds ógangur, sem verið hefur á þessum vetri [þ.e. 1693] í Heklufjalli, og allvíða stóran skaða gert, allt þetta bendir til iðrunnar og afturhvarfs frá syndum," segir Þórður biskup Þorláksson í formála fyrir "Einn lítill sermón um helvíti", Skálholti 1693. 1633 "sást sjórinn sem blóð við Vestmannaeyjar, sem fyrr hafði skeð fyrir austan, áður en Tyrkir komu, og rændu þar." [Ann. Björns á Skarðsá II, bls. 180] Ef þytur heyrðist milli fjalla (1545), var það talinn sóttarboði. [Árb. J. Esp. IV. bls. 21] Ef kviknaði í sinu eða skógum venju fremur (1632), var það talinn undanfari harðinda og fjárfellis. [Ann. Björns á Skarðsá II bls. 172] 1485 "höfðu krákur og krummar og aðrir fuglar ógnarlegan rifrildisgang í loftinu. Eftir það kom mikið stríð milli engelskra og franskra." [Sama rit I bls. 58] Ekki mátti grafa brennistein úr jörðu, því það átti að vita á hallæri og mannfelli, [Homilia de Cometa] og allt eftir þessu.

Í annan stað lét guð engla sína birtast ýmsum mönnum ýmist í vöku eða svefni og boða þeim reiði sína og jafnvel heimsendi innan skamms, ef þeir sæju ekki að sér, og bættu ráð sitt. Ég skal taka hér upp eina af vitrunum þessum, því hún sýnir ágætlega hugsunarhátt tímans, innilega meðvitund um syndir þjóðrinnar að öðru leytinu, en hræðslu við hefnarreiði guðs að hinu leytinu.

"Vitran séra Magnúsar Péturssonar á Hörgslandi 1628. (dó 1686 að Kirkjubæ á Síðu og var þá prófastur.)

Föstudaginn næstan fyrir jól, sem var sá 19. desember, opinberaðist mér Magnúsi Péturssyni, óverðugum Jesú Krists þénara, svoddan persónuleg og vakandi sjón og síðan draumur, sem hér eftir fylgir, en upp á það menn orsökina að nokkru leyti vita megi, hvar fyrir ég hefi þetta svo lengi hulið, hverja ég meðkenni fyrir mínum guði, þá er það skeð míns breiskleika vegna. Þó hefi ég formerkt, oftar en ég hefi þar um talað, að guð vill ekki, að þetta sé leynt; vil ég því þetta með fám orðum á vísa, viðjandi góða menn það ekki að misvirða.

Um kvöldið þessa sama dags var mikið regnviðri; gekk ég þá aftur út úr bænum, eftir að ég var fyrir skömmu heim kominn af lítilli reisu í ljósaskiptunum um kvöldið; féll þá í minn þanka hastarlega svo sem óforvarandi bræði og þungir geðsmunir, hvað sannarlega hefir verið innblástur og freisting eður eldleg píla og umsátur þess vonda anda, að ég með reiðulegu bragði gramdist veðráttunni, hvar um ég get ei fleira skrifað. Aví! Þú banvæna náttúra. Ó, guð! Ég meðkenni mína synd. Þú veizt allra manna vegu, þú hjartnanna og nýrnanna rannsakari. Láttu mig finna náð fyrir þér, og gakk ekki í dóm við mig. Líttu ekki á minn saurugleika, heldur á þíns sonar hreinsunarblóð, Jesú Krists, og ger mig eilíflega sáluhólpinn.

Sjónin sjálf

Svo sem ég nú vestur fyrir bæinn gekk með áður sögðu þungu geði, varð mér litið upp í loftið til austurs; brá þá fyrir mig miklum ljóma, og í þessari ofurbirtu sýndist mér einn stór maður skínandi eður mannsmynd miklu bjartari en sú mikla birta var og eins að sjá, sem geislaði af henni allt um kring. Andlit hans var mikillegt og reiðulegt tilsýndar. Hans hár og skegg var ljósgult eður rauðhvítt og svo sem með aldurdómslit, svo sem annað brunit(!) með nistum eður skildum(!), og það var allt glóandi að sjá, sem klúkti ofan á hvirflinum, álíka og væri kóróna. Hann var um girtur eður skrýddur síðri skikkju, eins og tignarlegur konungabúnaður er upp málaður, og með þessu móti sýndist mér hann á stóli sitja með gulllegum farva. Sverð þrílitt var í hans hægri hendi, rautt, blátt og svart. Í hans vinstir hendi var upp spentur bogi bleikur að lit og örin rauð, sem lá á strengnum, en strengurinn ígulur. Barn nakið í hans faðmi sýndist mér á knjánum standandi með út breiddum og upp réttum nöndum mjög lystilegt í allri ásýnd til að sjá, en þess andlitsmynd kunni ég ei sjá, því það horfði frá mér, og ég átti á bak því að líta. Sítt hár var á barnsins höfði harla fagurt, og liðaðist ofan á hálsinn, en hrökk þó upp aftur að neðanverðu. Þetta barn hélt annarri hendinni um sverðsoddinn, en annarri um orina, sem lá á boganum, þeirri hægri, fyrir strengnum. Það var að sjá, sem blóð rynni ofan eftir báðum handleggjum barnsins, eins og það hefði særzt bæði af sverðinu og örinni, sem sú dýrðlega mynd sér í hendi hafði. Þetta sá ég um stundarsakir, svo lengi sem ég mátti lesa hálfa Pater noster, og svo hvarf það mér skyndilega. Ekki heyrði ég eitt orð talað með mínum líkamlegum eyrum, en hvað sálunni skynjaðist, greini ég ei að sinni. Ég kann og ei sjálfur að segja, þó man ég alla aðferðina, og hvernig fyrir mínum hjartans eyrum var prédikað og hugvitinu á vísað um marga hluti, hvað mér ætti og skal með guðs fulltingi minnisstætt vera. Ó, guð! Vertu mér syndugum líknsamur. Þér höfðingjar, bæði andlegir og veraldlegir, ásamt allir aðrir útífrá, gerið guðs vegna og yðvarrar sálar, rísið upp af yðar syndasvefni. Látið ei svívirðingar, ranglætið og athugaleysið draga yður frá guði og til helvítis, því ei er gaman á ferðum, bræður mínir, vilji guð upp halda réttinum og honum fram fylgja, og er þetta stuttlega sjónin.

Draumurinn

Síðan varð ég óttasleginn og magnlaus; harkaði ég þó af mér, það ég gat, og gekk svo inn í það hús, sem næst mér var, og mitt hjarta, því miður, viknaði hér ekki við. Ó, guð! Hrær mitt hjarta, sem er steini harðara. Mýk það, og klökkt ger með þínum anda.

Og sem ég hugði um þetta eftirleiðis, angraðist ég með gráti og kveini, sem þeim er ljósast, sem til vissu í þann tíma, og hjá mér voru, og litlu eftir háttaði ég, og dottaði, en þá liðið var á nótt, þótti mér maður nokkur klæddur hvítri slyppu að mér koma með sorglegt og andríkt yfirbragð, ungur að ásýndum og skegglaus. Höfuðbúning hans kann ég varla að greina. Þó var það álíka að sjá á myndinni sem biskupsmítur opið ofan, að mig minnir. Staf hafði hann í hendi sér bleikan að lit og um girtur með belti, hvar með slyppan var nokkuð upp stytt. Hann hélt á tveimur spjöldum, hverjum sundur og saman mátti lykja, og gullegri krít. Hann stóð við borðið hjá rúmi mínu, og var ákaflega að reikna, hvað ég meinti með mér, að vera mundi heimsins aldur upp kastaðan í summu, hverja ég vel man, en girnist ei að greina, og sem hann var búinn að reikna, rétti hann spjölin upp að rúminu fram fyrir mig, svo ég mátti summuna glögglega sjá, og sagði til mín: Rís upp, þú syndari, og sjá, hve tæpt stendur, og langt komið er. Þar er lítið skref betur. Síðan mælti hann þessi orð:

 
"Veröld er öll í voða stödd,
víst er því nálæg herrans rödd
sæla að velja í sólarsal,
seljast þrælar í kvöl og bál.
Einn guð þá yfir allan enda ríkja skal."

Þar næst segir hann: "Hirðarnir halda ei hjörðinni að þeim blómlegu runnum og fögru rjóðrum og þeirri skæru svölulind, sem ber. Veröldin vill ekki varðveita það drjúpandi viðsmjör. Heiminn klýjar við himnamjölinu. Sáðlendið er vökvalaust. Kornið kæfist fyrir mergð þyrnanna. Sæðið fær litla blómgan. Feitingjarnir sjúga lambmæðurnar til blóðs, og upp svelgja megringana. Trygaðhringurinn er slitinn milli margra. Hollustusprotinn er lamdur og dimmur orðinn, og það er nú engin stétt, sem heldur sínu hreinlífi. Þeir hata föður sannleikans og ljós lífsins, en unna föður lyginnar og myrkri dauðans. Þetta aflar stundlegra kvala, og það heim býður eilífan háska, ef ei er í taumana tekið sem skjótast, og þær margvíslegu syndir neyða nýtt straff af guðs hendi. Þar fyrir hefir hann nú til reitt sitt sverð og sinn boga upp spannað þeim til fordjörfungar, sem ekki vakna vilja, og hvað hann í sinni hefir, mun snarlega opinberast, nema þér gerið iðran, því hann vægir enn nú fyrir soninn, sem frammi stendur krjúpandi yðar vegna, og heldur um odd reiðinnar. Rís upp, rís upp, þú sem hrýtur, svo að þér hjálpað verði, því o fáir ganga þann þraunga veginn, en of margir þann breiða. Leitið sátta, áður en öxin á dettur, áður en sverðið á sker, og örin stingur í nafni nauðhjálparans."

Síðan þótti mér maðurinn með flýti burt víkja og segja: "Ég vil þetta fleirum kunngera. Hygg að, hvað ég sagt hefi, og sjá þig um." Síðan vaknaði ég með annarlegri samvizku, og í nokkra daga var mér kærara að vera sinmanna, sem þeim er ljósast, er til vissu í þanna tíma.

En lof og þakkir séu guði mínum, sem ekki vill syndugs manns dauða. Hann vitjaði mín náðarsamlega, og eyðilagði mig ekki í sinni reiði, heldur leysti mig frá öllu grandi. Hann hefir mig náðarsamlega í sátt tekið fyrir Jesúm Kristum sinn son, sem frammi fyrir honum stendur, og biður mér án afláts, hátt lofaður og blessaður án enda og að eilífu.

Magnús Pétursson
 

Ítem sagði Magnús Pétursson Þorsteini Magnússyni munnlega, þótt ei hafi hann það í sína vitran skrifað, að nær hann í loftinu sá þá dýrðlegu mannsmynd með það þrílitaða sverð og boga, þá hafi sér strax í hug flogið, að það mundi merkja þrefalt syndastraff, er koma muni yfir lönd og lýði, ef ei væri að gert með iðran og afláti. Sverðið segir hann, hafi verið með þremur köflum litt. Sá fyrsti parturinn af því framan var blár, miðparturinn rauður, sá efsti upp við hjöltin svartur, hjöltin sjálf og handfangið ásamt hendinni gulllegt og alskínandi, eins og sú eðla mind var að sjá. Svo og segist hann með sér sjálfum þengt hafa þar strax, hvaða straff að sérhver liturinn þýða mundi, þótt ekki vildi hann það um hönd hafa. Ítem þar sá ungi maður er standandi reiknandi við borðið hafi þrjú reikningsrúm á töflunni upp kastað svo á mynd, er hér stendur:

0  0  0
0  0  0
0  0  0
0  0  0

og þá hann hafi út reiknað í því fyrsta rúmi, byrjaði hann að reikna það í öðru og síðast í því þriðja, en þær fyrstu tölurnar hafi hann ekki súmmerað annars en á línum lá, hvað hann segist ekki gjörla minnast það fyrir satt að segja, en það, sem hann reiknaði í því síðasta rúmi, hafi hann saman súmmerað í datum, og sér ljóslega sýnt, hverja summu hann hefir og mér sagt, en ég ei heldur skrifa vil. Þó gengur það ekki yfir heila neins það datum, sem doktor Philippus Nicolai í sinni bók De regno Christi gert hefir, á hverju dato hann spádómana enda vill. En nær hann var í sérhverju rúmi að reikna, þá hafi sér í svefninum í hug flogið, að í því fyrsta rúmi var hann að reikna heimsins aldur frá upphafi veraldar allt til Moisen, í öðru frá Moise til Chrisum, í þriðja frá Christo til heimsins enda, hverja summu hann honum sýndi, og þó væri þar lítið skref betur.

Þetta vottar með handskrift sinni á Ketilsstöðum í
Mýrdal 21. febrúari 1629

Þorsteinn Magnússon"


 

Nornahamarinn 6


Aftur í yfirlit