Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Galdrafárið á Íslandi =


Ekki óttuðust menn djöfulinn minna en guð, nema meira væri, og hann var þeim mun hættulegri en guð, að hann kom fram í allra kvikinda myndum, og beitti slægð og lævísi, þar sem guð var alltaf hreinn og beinn, þótt hann væri strangur. Séra Guðmundur Einarsson lýsir vel klækjum djöfulsins og hamskiptum í riti sínu á móti Fjandafælu (47.-48. bl.). Hann segir: "Djöfullinn er einn vondur og slóttugur, hrekkvís Phýthons andi, sem vasar um jörðina svo sem hungrað leon, sveimar um loftið sem sem flugdreki og um sjóinn seo sem Leviathan, áklagandi nótt og dag guðs útvalda, og leitandi að þeim, sem hann uppsvelgi. Það má talast um þann leiða Protea, djöfulinn, að hann komi og hafi komið sínum djöfulega ásetningi fram slægðarlega undir líkingu og mynd aðskiljanlegra skepna, svo sem dagleg reynsla er þar vottur að og lærðra manna útgengnar bækur, að stundum hafi guðs og manna óvinur gert sig að sorgfullum syndabrotsmanni, og gengið svo til skrifta, stundum að presti og hlýtt skriftamálum, stundum gert sig að auðmjúkum klostaþénara, stundum að rómverskum páfa, og sett sig í páfalegt sæti, stundum að flugdreka, stundum að stóru fjalli, stundum farið í dauðra manna líkami, og umgengizt með mönnum í þeirra líkömum, stundum farið í kaplabein, og ferjað svo vini sína bæði um sjó og þurrar foldir, stundum sýnt sig í stórri nautsmynd með svarta krúnu. [Séra Guðmundur á hér við Apis, naut, sem dýrkað var á Egyptalandi í gamla daga.] Stundum hefur djöfullinn gert sig að hrafni, og flogið mönnum í munn, og strax hafa þeir spáfararanda öðlazt, stundum gert sig ógnarlegan á goðastöllum með augnabendingum og annarri líkamans ýfing, að öllum hefur ofboðið, og allmargir af þeim vitið misst, stundum gert sig að karlmannspersónu, og framið svo lostasemi með jungfrúm, stundum á móti gert sig að kvenmannaspersónu, og lokkað svo til faðmlaga sér unga menn. Já, það allra mesta og furðanlegasta dirfska er, að hann hefir sýnt sig særðan á höndum og fótum og síðu, og gert sig svo að krossfestum Kristó, og skipað mönnum að tilbiðja sig."

Djöfullinn var ekki einn síns liðs. Hann hafði ótal djöflum og árum á að skipa, og sparaði ekki að láta þá vinna mönnunum sem mest mein bæði á líkama og sálu. "Djöflarnir fljúga og sveima í loftinu uppi yfir oss svo sem ský og í kringum oss svo sem mýflugur með óteljanlegum fjölda, láta endur og stundum sjá sig í margvíslegum líkamlegum myndum bæði í loftinu og jörðinni, sjá og horfa á oss, og sitja um oss, hvernig þeir geti mein og skaða gert oss á sálu og lífi, og hvar þessi vondi andi er eða fer, þá er hann í sínu helvíti. Þá hann kvelur og plágar mennina, þá missir hann ei sínar plágur, og þá hann gerir mönnum hæstan og mestan ekka og tjón, þá fær hann að sönnu ekkert gagn þar af utan gleði og skemmtan að eins." [Sr. Guðmundur Einarsson (26. bl.), og hefir hann klausuna eftir Luther að minnsta kosti að nokkru leyti. Hún er líka prentuð í Landfræðisögu Þorvaldar Thoroddsens II, bls. 45, en þetta var samið áður ne hefti það kom út af Landfræðisögunni, sem um er að ræða (1896). Sumt í ritgerð þessari hlýtur að vera svipað ýmsu í Landfræðisögu Þorvaldar, þar sem við höfum báðir notað sömu heimildarrit.] Eftir þessu eru djöflarnir samtímis í helvíti og á valkóki í því skyni að hrella mennina, og mun vera að skilja það á þá leið, að jafnframt því, sem djöfullinn og árar hans voru sjálfir í helvíti, og þoldu þar líkamlegar kvalir, voru þeir andlega á kreiki á jörðinni, og þess vegna segir Guðmundur: "Fyrst þá djöflarnir hafa hvorki hold né bein, hvernig verða þeir þá særðir, skotnir, höggnir, bundnir? Fyrst þeir eru í helvíti sínu, hvar þeir eru, og í hverri helzt mynd þeir sýna sig, að hverju viti er það að senda þá þaðan?" (26. bl.).

Aftur voru aðrir kennimenn á því máli, að djöfullinn og árar hans væru ekki lengur inni byrgðir í helvíti, heldur léku alveg lausum kili um heiminn. "Svo sýnist, sem satan sé laus orðinn á þessari vondu tíð," segir Páll í Selárdal í lilium inter spinas, [Hndrs. Rasks 106, 173. bl.] og enn skýrara kveður hann að orði í prédikan sinni:

"Eigi það djöfullinn sé enn nú alla reiðu bundinn, að ei gangi í kring sem grenjandi león og ei sízt á þessari öldu, síðan hann var laus látinn, [ Eftir að Kristur hafði bundið hann, þegar hann sé niður til helvítis. ] sem ei er ólíklegt, að skeð hafi annó 1601 eður annó 1598, því aldrei hefir hann verið svo ólmur á móti endurnýjuðum guðs söfnuði sem síðan." Eflaust hefir þessi seinni skoðan verið tíðari en skoðan séra Guðmundar, því eftir henni gátu djöflarnir beitt sér enn þá betur, og það spöruðu þeir ekki eftir trú allrar alþýðu.

Djöfullinn og árar hans gátu reyndar ekki hafzt neitt ill að nema með vilja guðs, og því segir séra Guðmundur: "Guðs börn fá þá hugsvölun í mótgangshitanum, að þau vita það eina kemur þeim að höndum, sem drottinn leyfir, en hvorki meira né minna," en á hinn bóginn lítur svo út, sem menn hafi trúað því, að guð hafi gefið djöflinum hér um bil takmarkalaust vald til þess að kvelja mannkynið um hríð. Séra Guðmundur segir, að guð hafi djöfulinn "fyrir sinn refsara og böðul", en í sömu andránni segir hann reyndar, að djöfullinn sé api guðs, og að hann beri sig að gera það eftir með flærð og svikum, sem guð geri fyrir (9. bl.). Víst er um það, að á 16. og 17. öld trúðu menn eins mikið á djöfulinn og á guð, ef ekki meira, og bæði lærðir menn og leiknir voru sannfærðir um það, að djöfullinn og árar hans gengju eins og gráir kettir mitt á meðal þeirra.

Séra Sigurður Torfason kvartar yfir þessari trúarvillu: "Það er stór svívirða að hræðast meira djöfulinn en guð, hræðast meir þann, sem líkamann kann að deyða heldur en þann, sem sálu og líkama kanna að deyða," en djöflatrúin var svo rótgróin, að þeir hafa verið örfáir að tiltölu, sem hugsuðu svona skynsamlega, og það lítur jafnvel sumstaðar svo út í riti séra Sigurðar, að hann sé sjálfur fullhræddur við fjandann.

Djöflatrúin hafði hin skaðlegustu áhrif bæði í sjálfu sér og að því leyti, að henni varð samferða ýmis önnur hjátrú, sem lítið hafði borið á áður. Ef menn urðu vitskertir, þá var haldið, að menn væru djöfulóðir, og var farið með sjúklingana, eftir því. 1639 "var maður svo ær í Vestmannaeyjum, að djöfulóður var haldinn, og fengu menn eigi bundið, fyrr en það var tekið til ráðs, að hann var bundinn á loft við bitana í Landakirkju. Þá brauzt hann svo mjög um, að hann sprakk". [Árb. J. Esp. VI, bls. 100. Sbr. XI, bls. 36.]

Eins var það trú manna, að sumir gerðu samning við djöfulinn um það, að hann skyldi láta þá njóta einhverra til tekinna hlunninda hér í heimi, en þeir skyldu vera eign hans um alla eilífð í staðinn. Séra Páll í Selárdal segir með skýrum orðum í prédikan einni, [Hndrs. Bmfj. 48 eða 40] að margir geri vísvitandi galdrasáttmála við djöfulinn á þessari galdratíð, þessari morðtíð. 1586 gerir Vigfús Jónsson skólasveinn á Hólum "kontrakt" við djöfulinn, [Árb. J. Esp. V, bls. 48-49] og 1657 gefur maður sig djöflinum til þess að veiða 20 seli. [Sama rit, VII, bls. 21] Það eimdi jafnvel lengi eftir af þessari hneykslanlegu villu. Seinast á 18. öld gerði Grímur Ólafsson frá Kvíabekk skriflegan "kontrakt" við djöfulinn, og hét honum sér og elzta barni sínu. [Sama rit, XI, bls. 90]

Álfatrú fór mjög í vöxt jafnhliða djöflatrúnni, enda eru huldumenn . . .

Skaðlegasta villutrúin, sem fylgdi djöflatrúnni, var þó galdratrúin. Menn trúðu því almennt, eins og áður er vikið á, að galdramennirnir væru verkfæri djöfulsins og þjónar hans. Það er víða tekið fram í ritum frá 17. öld, að galdralistin stafi beinlínis frá djöflinum. Séra Sigurður Torfason skýrir t.d. snemma í riti sínu, hvað hann skilji við galdur, og kemst svo að orði: "Sú hin argasta, svívirðilegasta og sneiðilegasta afguðadýrkan, upp fundin í fyrstu af sjálfum fjandanum, fyrir guði og öllum heilögum ei einasta ein hrópandi andstygð og óþokki, heldur og einnig sjálfum heiðingjum formyrkvar og niður þrykkir sannri guðs dýrð og þeim sanna sáluhjálplega lærdómi, og alleina eflir og upp byggir djöfulsins ríki, eyðir og fortælir mannsins sáluhjálp og eilífri unan, en aftur á mót afrekar og með sér færir eilífan dauða, helvízkar kvalir, og upp æsir guðs grimdar reiði" (12. bl.).

Séra Guðmundur Einarsson tekur í sama strenginn. Hann segir, að djöflarnir sjálfir hefi fyrst fundið upp á galdralistinni "til þess alleinasta að lokka menn að sér og svo sem í öðrum skóla kenna mönnum að sýna sig stundum og sína ára, stundum að vita óorðna hluti, stundum að veiða veraldlega lukku yfir vini sína, stundum veraldlega ólukku yfir óvini sína, stundum að lífga, stundum að deyða" (23. bl.). Enn segir séra Guðmundur skömmu seinna: "Júnkur Satan hefir töfrakonstinni heimulega og í hylmingu fyrir komið í ýmsum löndum sínu ríki til uppbyggingar, en Kristí ríki til eyðileggingar" (24. bl.).



 

Nornahamarinn 7


Aftur í yfirlit