Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Galdrafárið á Íslandi =


Djöfullinn sjálfur er eftir þessu upphafsmaður allrar fjölkyngi, og þar er því ekki að furða, þótt mönnum stæði stuggur af galdramönnum. Einstakir galdramenn fóru að vísu fremur vel og meinlauslega með töfra sína, svo sem séra Eiríkur á Vogsósum og séra Hálfdan í Felli, en menn trúðu því þó, að kunnátta þeirra ætti rót sína að rekja til djöfulsins. Flestir galdramenn beittu aftur list sinni til ills eins, og voru þeir taldir enn dyggvari þjónar fjandans en hinir. Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar eru dæmi til þess, svo hundruðum skiptir, að galdramenn hafi valdið veiki og jafnvel dauða fjandmanna sinna, að þeir hafi valdið veiki og jafnvel dauða fjandmanna sinna, að þeir hafi drepið fénað fyrir þeim, að þeir hafi bakað þeim lánleysi o. s. frv., og þyrfti því ekki að nefna fleiri dæmi til þess, að galdramenn hafi að öllum jafnaði beitt kunnáttu sinni illa, en ég skal þó færa fáein dæmi til í viðbót, sem ekki er minnzt á þar.

Pétur sýslumaður Einarsson í Barðastrandarsýslu varð undarlega veikur 1654, og var það kennt fjölkyngi. [Sýslumannsæfir II, bls. 118] Karl einn í Skógargerði við Húsavík veldur dauða Jóns sýslumanns Jónssonar í Þingeyjasýslu með fjölkyngi 1685. [Sama rit I, bls. 109] Vigfús sýslumaður Jónsson í Þingeyjasýslu (1775-86) verður óður af fjölkyngi með sprettum. [Sama rit I, bls. 129-27]

Enn má nefna draugaganginn í Auðbrekku í Hörgárdal 1637, sem miklar sögur hafa farið af á fyrri tímum, og er furða að Jón Árnason skuli ekki hafa náð í neinar sagnir um hann í Þjóðsögur sínar. "1637 báru við þau miklu og skelfilegu tíðindi, fáheyrðu og undrunarsamlegu í Auðbrekku í Hörgárdal um þann mikla draugagang, ára eður illsku anda, er þá ásóttu helzt Jón Þorvaldsson, svo hann mátti nálega hvergi frið hafa. Þessir andar sáust í allra kinda líki inni í húsunum: arnar, vals, hrafna, ítem flugna, ullarhnoðra, salthnattar og ýmislegra hluta, sem ei er um skrifandi. Af þessum skelfingum fengu margir menn árásir, ei sízt þeir, sem með Jóni til Bustarfells riðu austur. [Svo stóð á, að Jón Þorvaldsson í Auðbrekku reið austur að Bustarfelli í Vopnafirði haustið 1637, og bað dóttur Bjarna Oddssonar. Bjarni tók málinu með, og skyldi Jón koma aftur nokkru seinna og vitja meyarinnar. Hann gerði það. Bjarni tók honum enn vel, en morguninn eftir að þeir Jón komu að Bustarfelli, reið Bjarni burt, svo að Jón vissi ekki af, og kom ekki heim aftur að sinni. Jón beið á Bustarfelli í nokkrar nætur, og reið heim síðan, en ekkert varð út meyjarmálunum.] Þetta út breiddi sig víða, drepnir og hestar, og aumkunarlega með saklausar skepnur farið; átti að berast í drauma, að þessir andar og draugar væru upp vaktir og sendir að austan Jóni til fordjörfunnar."

Björn bróðir Jóns hafði riðið með honum austur í Bustarfell, þegar hann var þar í fyrra skiptið, en orðið veikur, og legið þungt, þangað til Jón sótti Bjarna bónda heim aftur; "vildu sumir halda, að þessar sendingar eður árásir hefðu fyrst komið niður á honum". Þegar Jón var kominn heim aftur úr seinni ferðinni, "þóttist hann altíð verða meir og meir var við áður skrifaðan draugagang og ónáða illa anda. Þetta varaði langt fram á vor, þótt nokkuð í minnkan væri, þegar á veturinn leið."

Galdramennirnir sóttu kunnáttu sína til djöfulsins, enda talið, að þeir stæðu í mjög nánu sambandi við hann, og jöfnuðust jafnvel við hann að vonzku og fjandskap við guð og góða menn. "Galdramenn ljá djöflinum alla sína limu og liðu til íbúðar, og setja alla sína sálarinnar og líkamans krafta til að þjóna honum, og gera sig svo að einni blygðunarlausri hóru," [Ann. Björns á Skarðsá II, bls. 218-20. Árb. J. Esp. VI bls. 86-87.] og nokkru áður segir séra Sigurður, að galdramennirnir drýgi hóranir með sjálfum djöflinum (11. bl.), og að þeir hafi afsalað sig guði að öllu leyti, og falið sig á hendur andskotanum (30. bl.).

 

 

Framhald . . .

 

 


 

Nornahamarinn 8


Aftur í yfirlit