Aldrei man ég hana dapra, en býsna alvarleg gat hún stundum orðið á svipinn, ef henni mislíkaði við mig, – einkum ef ég reyndi að ná taki á henni. Það var eins og að grípa í ljósgeisla líkami hennar virtist ekki þéttari en loftið.

 



Álfar á hverju strái

– frásagnir af álfum og huldufólki

"Amma mín var skyggn, sem kallað er; hún sá inn í þau ríki náttúrunnar, sem dulin eru þorra manna. Ekki veit ég með vissu hvernig skyggni hennar var varið, en fleira sá hún en ég, og þó ekki sumt,er mér var kunnugt. Fylgjur manna þekkti hún; þær fóru alveg framhjá mér. Hún sá drauga, en ég ekki. Huldufólkið svonefnda sáum við bæði, en veröld þess var mér þögull heimur. Amma gat heyrt til þess, að minnsta kosti stundum.

 

Á vorri öld hafá postular efnishyggjunnar hamazt gegn öllu því, er ekki verður vegið eða handfjatlað. "Raunsæisstefna" efnishyggjumanna hefur sjálfsagt verið nauðsynleg á sínum tíma m.a. til að eyða hjátrú og koma í veg fyrir misnotkun hugmynda sem sprottnar eru af sálsýki. En hún er hol og einfeldnisleg, það verður býsna lítið úr henni í ljósi vitrænnar gagnrýni, enda mun hlutverki hennar senn lokið . . .

"JAFN EÐLILEGT ,
FYRIRBÆRI OG
NÁGRANNAR OKKAR"

. . . Þegar ég man fyrst eftir mér, var huldufólkið mér hartnær jafn eðlilegt fyrirbæri og nágrannar okkar á næstu bæjum. Börn þessi voru um skeið einu leikfélagar mínir, sérstaklega lítil telpa, nokkru eldri en ég. Við vorum mjög samrýnd, en tveir strákar, sex eða sjö ára gamlir, slógust oft í fylgd með okkur. Telpan hét Ingilín, en drengirnir Mahem og Elías. Ekki veit ég, hvernig mér urðu kunn nöfn þeirra, en amma hefur sennilega sagt mér þau. Nöfnin Mahem og Ingilín hef ég aldrei rekist á í vorum heimi.

Hvernig voru þau í hátt þessi börn? Strákunum man ég óljóst eftir, nema að Elías var ljós og Mahem dökkur. En litla stúlkan er mér allminnisstæð. Klæðaburðúr þeirra var ekki mjög frábrugðinn því sem ég átti að venjast, en léttari og litskrúðugri. Allt virtist huldufólkið sviphreinna og frjálslegra en við. Ekki var það þó beinlínis góðlegt, heldur miklu fremur ástríðuvana. Bærinn, sem leiksystkini mín áttu heima á, var örskammt frá Þverfelli (í Lundarreykjadal), norðan Kvíagils. Valborg hét húsfreyjan þar. Hún var svipmeiri og góðlegri en annað huldufólk, enda virtist hún mikils metin af því. Þær voru vinkonur, amma mín og hún. Þó minnist ég ekki að hafa séð þær saman nema einu sinni. En það man ég, að þá stund var amma unglegri og fallegri en hún átti vanda til. Ekki fæ ég skilið hvernig á því stóð. Valborg vitjaði hennar oft í draumi, og kvað amma þeim veitast léttar að tala saman þannig. En ekki man ég eftir því, að mig dreymdi huldufólksbörnin, meðan ég.var á Þverfelli . . ."

Þannig segir Kristmann Guðmundsson skáld frá kynnum sínum af huldufólki í bernsku, en frásagnir þessar eru teknar upp úr fyrsta bindi ævisögu hans, "Isold hin svarta". Eins og kemur fram í frásögninni er hér birtist voru huldufólksbörnin leikfélagar hans og kynntist hann þeim all náið. Í bernsku sinni dvaldi Kristmann löngum einn úti í náttúrunni, og telur hann að það hafi aukið næmni sína og gert sér fært að skynja huldar vættir. Í ævisögu sinni lýsir Kristmann leiksystur sinni úr hulduheimum þannig:

;,EINS OG AÐ GRÍPA
Í LJÓSGEISLA"

"... Ingilín var miklu líkari mannabörnum í látbragði og fasi. Hún var oftast glaðleg og brosti oft til mín, en sjaldan að mér, þótt ég einatt dytti og kútveltist um þúfur, sem ég sá ekki, þegar ég var að hlaupa á eftir henni. Aldrei man ég hana dapra, en býsna alvarleg gat hún stundum orðið á svipinn, ef henni mislíkaði við mig, – einkum ef ég reyndi að ná taki á henni. Það var eins og að grípa í ljósgeisla líkami hennar virtist ekki þéttari en loftið. En henni var lítið gefið um tilraunir mínar til að snerta hana; þær hafa kannski valdið henni óþægindum? Sjaldan kom hún af sjálfsdáðum það nærri mér að ég næði til hennar.

Oft sá ég varir hennar bærast, en heyrði aldrei svo mikið sem óm af tali. Ekki virtist hún heldur heyra til mín eða skilja það, sem ég sagði, en stundum horfði hún á varir mér, þegar ég var að reyna að tala við hana . . ."

Kristmann virðist líta svo á, að er hann umgekkst huldufólkið hafi hugarástand hans með einhverjum hætti fjarlægst venjulega skynjun og hafi hann því átt erfitt með að greina hulduheiminn og efnisheiminn samtímis. Í ævisögu sinni segir hann:

". . . Á stundum skyggninnar sá ég óglöggt eða ekki yfirborð míns eigin heims. Veröld huldufólksins var talsvert frábrugðin, og hlaut ég af því marga byltu, þótt reynslan kenndi mér smám saman að fikra mig áfram. Miklu gróðursælli var heimurinn duldi, en útlit hans er nú orðið óljóst í minni mínu. Það kom fyrir, að ég ruglaði þessum tveim veröldum dálítið saman . . ."

ÁLFAHALLIR, MARGLITAR
OG HÁREISTAR

Athyglisvert er að það sem Kristmann sér í hulduheimi í bernsku virðist móta hugmyndir hans um umheiminn að nokkru marki – og a.m.k. stundum valdið vonbrigðum, eins og eftirfarandi frásögn ber með sér, en þar segir frá því þegar hann sér kaupstað í fyrsta skipti, er fjölskylda hans fluttist búferlum og kom við í Borgarnesi.

"... Uppi undir brúnum fjallanna kringum dalinn hafði ég stundum séð óskýrar, en undurfagrar og tilkomumiklar byggingar. Þegar ég sagði ömmu frá þeim og spurði hverju þær sættu, sagði hún mér að þetta myndi vera kaupstaðir huldufólksins. Sjálf sá hún þá ekki.

"Eru slíkir kaupstaðir hjá okkur?" spurði ég.

"Já," anzaði hún; "í Reykjavík og Borgarnesi."

Og nú hlakkaði ég til að sjá skýrt og nálægt mér þessar fögru hallir, marglitar og háreistar. Sjaldan. hef ég orðið fyrir meiri vonbrigðum og lengi á eftir þótti mér lítið varið í Borgarnes . "

Er Kristmann var kominn af barnsaldri byrjar hann að missa hæfileikann til að sjá huldufólk, og segir hann það hafa gerst hægt og eðlilega.

". . : Björt og ljóslokkuð telpa, á að gizka níu ára gömul, í litfögrum kjól, kom niður í hvamminn og settist skammt frá mér. Svipur hennar var alvarlegur og mjög hreinn. Ég var þá þegar farinn að sjá hana nokkru óglöggar en áður: Það var líkt og hjúpur af marglitri móðu í kringum hana, ekki ósvipaður sápukúlu, en eigi að síður er hún mér í fersku minni eins og hún var þennan síðasta morgun. Hún sat grafkyrr langa stund og horfði á mig með augum, sem minntu á himinblámann . . ."

ÍSLENSK ÁLFATRÚ

Álfatrúin var íslensku þjóðinni rótgróin til skamms tíma – um það vitnar aragrúi af þjóðsögum, ljóðum og sögnum sem til eru. Þar greinir frá lífsháttum huldufólksins og samskiptum þess og manna, vinsamlegum og fjandsamlegum. Fyrr á tímum virðast álfar og huldufólk nánast hafa verið hluti af umhverfi fólks og var almennt ekki. efast um tilveru hulduheims. Frá því um síðustu aldamót virðist trú á huldufólk hins vegar hafa rénað, og er nú svo komið að margir líta á hana sem fáránlega sérvisku. Einstaka hjáróma raddir heyrast þó, og fullyrða að mannlífið hafi orðið fátæklegra fyrir bragðið.

En hversu mikið eimir eftir af álfatrúnni. Í bókinni "Þessa heims og annars", eftir Erlend Haraldsson, lektor, er greint frá niðurstöðum könnunár hans á dulrænni reynslu Íslendinga, trúarviðhorfum og þjóðtrú. Þar segir m.a. um álfatrúna: "Svörin komu nokkuð á óvart. Að vísu telur aðeins rúmur fimmtungur svarenda vorra tilveru þessara hulduvera vísa eða líklega, en hinir eru ekki miklu fleiri; eða 28 af hundraði, sem telja óhugsandi eða ólíklegt að þessar verur séu til. Það virðist mega skipta mönnum í tvo ámóta hópa eftir trú þeirra eða vantrú á tilveru huldufólks . . . Ekki er vit að um neinar útlendar tölur þessu til samanburðar, enda mun þessi trú fágæt í nágrannalöndunum, nema helst á Írlandi. Engin skipulögð könnun hefur verið gerð þar í landi um þennan átrúnað, en mikið mun af írskum þjóðsögum um álfa og huldufólk. Sumir fróðir menn, t.d. Árni Óla rithöfundur, hafa haldið því fram, að trú okkar á álfa og huldufólk svip meir til trúar Íra en Skandinava."

ÁLAGABLETTIR

Samkvæmt könnuninni virðist trú á álagabletti vera almennari en álfatrúin. 13 þeirra, sem í úrtakinu lentu, töldu sig hafa orðið fyrir erfiðleikum sem þeir álitu að stöfuðu af raski álagabletta. "Í sex tilvikum hafði hann (álagabletturinn) verið sleginn, í fjögur skipti ruddur eða sprengdur, en í þrjú skipti virðist hafa verið um aðra röskun að ræða. Og hvers eðlis voru erfiðleikar þeir sem svarandi varð fyrir? Í flestum tilvikum var um missi eigna að ræða, þrír urðu fyrir veikindum, einn fyrir slysi, sem hann áleit vegna slíkra álaga og fimm fyrir öðrum erfiðleikum".

Það kemur fyrir að í dagblöðum birtast fréttir af óhöppum sem menn rekja til álagabletta. Ein slík birtist t.d. í Morgunblaðinu 9. janúar 1977, en fyrirsögn hennar er: "Búinn að fá mig fullsaddan á óhöppum tengdum álagablettum – Lóð í Ytri-Njarðvík skilað aftur vegna undarlegra óhappa." Í fréttinni segir m.a. "Handhafi lóðarinnar, Helgi Sigvaldason, hefur haft hana. í tvö ár, en ávallt þegar eitthvað átti að fara að vinna í lóðinni henti óhapp, slys og fleira hjá fjölskyldu hans. Í samtali við Morgunblaðið kvaðst Helgi ekki vilja tjá sig um þá hlið málsins, en hins vegar sagðist hann hafa farið að gruna eftir þriðja óhappið að ekki væri allt með felldu í málinu og eitthvað tengt umræddri lóð.

Við könnun málsins, m.a. á miðilsfundi, kom í ljós að mjög gamall álagablettur er á lóðinni . . .

"Mér er ljúft að taka fram," sagði Helgi, "að ég hef ekki verið trúaður á neitt þessu líkt, en eftir þessa reynslu er ég á annarrar skoðunar og ég er búinn að fá mig fullsaddan af óhöppum tengdum álagablettinum. Ég von að þessari lóð verði ekki úthlutað aftur nema þá að viðkomandi viti um forsögu málsins á lóðinni."


[Frances Griffiths]

Fyrsta álfaljósmyndin sem stúlkurnar tóku – Frances Griffiths bak við hóp af dansandi álfum. Ljósmyndasérfræðingar sem athuguðu filmuna og myndina sjálfa gátu ekki fundið neitt sem benti á svik – þótti mörgum ótrúlegt að stúlkurnar, 10 og 16 ára, væru færar um að falsa slíkar myndir.


ÁLFALJÓSMYNDIR

Sannast sagna hafa vísindin að mestu látið álfana í friði og hið sama er að segja um sálarrannsóknamenn. Um eitt skeið stóð þó til að beita þeim fyrir vagn spíritista – þegar mikið fjaðrafok varð í Bretlandi útaf álfaljósmyndum sem tvær stúlkur, 10 og 16 ára gamlar, tóku árið 1917. Varðandi þetta mál kom Sir Arthur Conan Doyle, höfundur leynilögreglusagnanna um Sherlock Holmes, töluvert við sögu, en hann gerðist á efri árum fanatískur spíritisti og prédikaði hið nýja fagnaðarerindi víða um lönd.

Stúlkurnar, sem myndirnar tóku, heita Elsie Wright og Frances Griffiths, en þær eru bað enn á lífi. Myndirnar tóku þær við læk skammt frá íbúðarhúsi foreldra Elsie í Cattingley í Yorkshire. Fyrsta álfaljósmyndin var tekin í júní 1917. Elsie hafði fengið myndavél föður síns að láni til að taka mynd af Frances frænku sinni, sem dvaldi hjá þeim. En þegar faðir hennar framkallaði myndirnar um kvöldið, varð honum ekki um sel er hann sá hvíta sveipi birtast kringum stúlkurnar á myndinni – fyrst hélt hann að þetta væru fuglar, en Elsie, sem var hjá honum í myrkraherberginu, fullyrti strax að það væru álfar. Það kom ekki á óvart, því Elsie talaði oft um að hún sæi álfa, en það var ekki tekið alvarlega. Frances taldi sig líka sjá þá og höfðu þær báðar mikinn áhuga á þessu.

Seinna um sumarið fengu þær myndavélina aftur og tóku þá fleiri álfamyndir, mun skýrari. Arthur Wright, faðir Elsie, grunaði stúlkurnar um græsku og neitaði að lána þeim myndavélina aftur. Hann og kona hans leituðu vandlega í svefnherbergi stúlknanna að afklippum, sem hugsanlega hefðu gengið af við fölsun álfamynda, en fundu ekkert er vitnaði um svik.


[Elsie]

Álfurinn á myndinni réttir Elsie blóm. Myndina tók Frances árið 1920.


ÁLFAR Á
HVERJU STRÁI

Atvikin höguðu því þannig að álfamyndirnar lentu í höndum Sir A. C. Doyle, sem sýndi þeim áhuga vegna þess að hann hafði tekið að sér að skrifa grein um álfa fyrir tímarit . . .

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

Samantekt: Bragi Óskarsson


Í upphaf síðu . . .
Í aðalsíðu