Einkennilegar draumfarir



Draumar hafa jafnan þótt áhugavert umræðuefni, ekki síst hér áður fyrr er landið var strjálbýlt og samgöngur erfiðar. Það var fátt sem glapti fyrir í fásinninu og svo virðist sem fólk hafi veitt draumlífi sínu meiri athygli en nú gerist. Marga dreymdi fyrir daglátum, veðri og atburðum og voru slíkar draumspár álitnar hinar gagnlegustu. En svo eru líka annars konar draumar sem alltaf hljóta að vekja vangaveltur. Eftirfarandi frásögn af "samdreymi" er að finna í þjóðsagnasafni Odds Björnssonar, "Þjóðtrú og þjóðsagnir", er út kom 1908.

"Vorið 1877 flutti Baldvin bóndi Sigurðsson að Garði í Aðaldal. Það vor fór til Baldvins. gamall maður, er Sigmundur hét og annar maður ungur, sem Jóhannes hét, Kristjánsson. Skömmu eftir fráfærurnar þetta vor var þvegin ull vestur við Núp, sem er alllangt frá bænum, við svokallað Syðra-Gil , og var hún breidd þar til þerris.

Eitt kvöld var Sigmundur karl beðinn að vaka yfir ullinni og gerði hann það, en Jóhannes fór með ánum norðvestur í Aðaldalshraun og sat þar hjá þeim. Þegar Sigmundur kom heim segir hann fólkinu, að sig hafi sótt svefn um sólaruppkomuna og hafi hann blundað lítið eitt. Þá dreymir hann að Jóhannes kæmi norðan Núpsklappirnar og læddist niður eftir gilinu og að ullarflekknum og þótti honum að Jóhannes mundi ætla að stela af ullinni. Hann þóttist vera reiður; hlaupa á Jóhannes, reka hann undir sig og taka upp kníf til að skera hann á háls; við þetta vaknaði hann. Litlu síðar kemur Jóhannes heim með ærnar og var þá Sigmundur sofnaður. Jóhannes segir þá fólkinu að sig hafi syfjað svo mikið um sólaruppkomuna, að hann hafi fallið í svefn og hafi sig þá dreymt undarlega. Hann þóttist fara suður Núpsklappirnar og suður í Syðra-Gil og ætla að finna Sigmund gamla. En þegar hann kom að ullarflekknum, þótti honum Sigmundur rjúka á sig, skella sér flötum, leggjast ofan á sig, taka upp kníf og ætla að skera sig á háls. Við það vaknaði hann.

Þessa sögu hefir sagt Guðný Jónsdóttir frá Þverá, húsfreyja Baldvins bónda í Garði, hin merkasta kona og eru þau hjón enn á lífi. Hefi ég aldrei heyrt fyrr né síðar að tvo menn hafi dreymt sama efni á sama augnabliki." (Sögn Halldórs Þorgrímssonar, 1907. Handrit Guðm. Friðjónssonar.)

Samantekt: Bragi Óskarsson


Í upphaf síðu . . .
Í aðalsíðu