Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= DRAUGAGNGUR =

Íslenskar þjóðsögur eru ríkar af frásögnum um drauga og afturgöngur, enda var því almennt trúað á öldum áður að slík fyrirbæri væru í rauninni til og gætu gert lifandi fólki mikinn óskunda, jafnvel svipt það lífi. Íslendingarsögurnar greina víða frá draugagangi og reimleikum – viðureign Grettis og Gláms er minnisvert dæmi um það. En trúir fólk á tilvist framliðinna og að þeir geti haft áhrif á líf manna, en sú trú er með allt öðrum hætti en áður var.

Sjálfur ræddi ég eitt sinn við gamlan mann, sem nú er látinn, og sagði hann að draugatrúin hefði verið hrein plága þegar hann var að alast upp í Flóanum fyrir aldamót. Hann sagði að sem drengur og síðar sem stálpaður unglingur hefði hann statt og stöðugt trúað því að draugurinn Skerflóðs-Móri væri til og stóð af honum mikil ógn. Einhverju sinni kom það fyrir að hundar ókyrrðust á dimmu vetrarkvöldi. Allir á bænum urðu sem lamaðir af ótta – ekki síður fullorðnir en börn. Sögumaður minn, sem þá var á fermingaraldri og fullorðinn vinnumaður, áræddu fram í bæjardyrnar að litast um. Tungl óð í skýjum og mátti greina rúst sem stóð í túninu steinsnart frá bænum. Þóttist vinnumaðurinn sjá einhverja hreyfingu í rústinni og æpti að óvætturinn væri í þar á ferli.


 
Sögumaður minn sagði að ekki hefði fleira borið við þetta kvöld en mikill ótti hefði verið í fólki að vera á ferli útivið eftir að skyggja tók lengi á eftir. Allir hefðu verið vissir um að Skerflóðs-Móri hefði verið í rústinni um kvöldið. Hann taldi víst að um missýningu hefði verið að ræða hjá vinnumanninum, að flöktandi tunglsljósið hefði framkallað skuggamynd í rústinni sem hinn skelfdi vinnumaður hefði þegar álitið vera draug. Það sem honum þótti þó undarlegast, þegar hann leit til baka, var hversu raunverulegur draugurinn var fyrir fólkinu á bænum og honum sjálfum – svo virkilegur að enginn efaðist um að þessi hræðilega afturganga gæti komið og látið til sín taka þá og þegar. Sjálfur sagðist hann oft hafa verið þjáður af draugahræðslu í barnæsku – og var það nokkur furða þar sem hinir fullorðnu virtust jafnvel varnarlausir þegar draugar voru annars vegar.

Einhver magnaðast óvættur sem getið er á síðari tímum er Bæjadraugurinn og fara af honum miklar sögur. Sagt var að hann hefði orðið ungum manni, Rósenkar Pálmasyni, að bana með þeim hætti sem hér greinir:

Bæjadraugurinn


". . . En það er af Rósenkar að segja, að undir eins og hann er orðinn einn síns liðs, sér hann eitthvað koma rennandi á móti sér neðan snjóskafl, sem var milli hesthúskofans og bæjarins. Fær hann fyrst ekki greint á því neina sköpun, en þegar það kemur nær, sér hann, að þetta er í mannsmynd, nema að andlitið vantaði eða að minnsta kosti kvaðst hann hvorki hafa séð á því nef né augu, munn né höku. Við þessa sýn grípur Rósenkar mikill ótti, en hann átti ógjarnan vanda til slíkra kenja áður. Breytir hann nú í einu vetfangi stefnu sinni og tekur á rás inn barðið til þess að forða sér frá að lenda í flasinu á þessum ískyggilega óskapnaði. En ófreskjan bregður þá jafnskjótt við og beinir skrefum sínum í sömu átt, skundar inn skaflbrúnina fyrir neðan Rósenkar og það af svo mikilli skyndingu, að hann þykist sjá, að sér ætli ekki að takast að skjótast fram hjá henni niður að bænum.

Vindur hann sér þá við aftur og hleypur út barðið og fær snarazt fram hjá óvættinni niður á skaflinn. En hann er varla fyrr kominn út á skaflinn en óferskjan ræðst á hann aftan frá og heldur honum föstum. Hefjast þar harðvítugar sviptingar, og að því er Rósenkar fannst upp á líf og dauða. Beitir Rósenkar öllum líkams- og sálar kröftum til þess að verjast misþyrmingum ófreskjunnar. Það var þó enginn hægðarleikur, því að í hvert sinn, sem hann reynir að ná á henni tökum, rennur hún úr höndum honum eins og slepjaður bjór eða glerhál hvelja, og lagði af ódaun mikinn. En jafnskjótt og Rósenkar missir hendur af henni, ræðst hún að honum með svo mögnuðum fítonsanda, að hann fær ekki staðizt, og leggur hún sig sérstaklega í framkróka með að hefta för hans heim að bænum. En sökum þess að Rósenkar átti undan allbrattri brekku að halda, þá barst þessi hvimleiði leikur hægt og hægt niður skaflinn og niður að bæjarhúsunum.

Þar var þröngt sund milli bæjarins og tveggja skemma. Reynir Rósenkar að sæta færi með að sleppa gegnum sundið inn í bæinn. En þegar hann er loksins kominn inn í sundið, nær forynjan í trefju – það köllum við á Suðurlandi trefil – sem hann hafði lauslega brugðna um hálsinn . . .  Duldist Rósenkar ekki, að hún ætlaði að reyra trefjuna að hálsinum og binda enda á viðskipti þeirra með því að hengja hann þarna í sundinu. En Rósenkar vildi það til happs, ef happ skyldi kalla, að lykkjan raknaði í sundur, þegar ófreskjan þreif í trefjuendann. En í því að djöfull þessi rykkir til sín trefjunni, nær Rósenkar í annan enda hennar, og togast þeir á um hana, unz þeir svipta henni sundur á milli sín, og hélt hvor sínum enda. Við það fellur Rósenkar aftur á bak, en fær þó komið fótum fyrir sig, áður en óvætturinn næði að þrúga hann undir sig. Í þessum umbrotum nær hann handfestu á dyrastaf á timburskúr, sem var fyrir bæjardyrunum, og tekst við illan leik að forða sér í bæinn. Skildi þar í það sinn með honum og óferskjunni.

Slökkvið
þið ljósið


Í sama mund og Rósenkar er sloppinn inn í bæinn, ber svo við, að Lovísa Eiríksdóttir fer með öðrum kvenmanni út í fjós til þess að mjólka kýr. Þegar þær fara niður baðstofustigann, sjá þær hvar Rósenkar stendur bak við stigann í daufri skímu, sem lagði frá grútarkolu, er þær báru með sér í fjósið. Er hann torkennilegur ásýndum, föt hans öll tætt og sundur rifin, og niður með hálsinum öðru megin lafir trefjuslitrið, en sá hlutinn, sem ófreskjan hélt eftir, fannst um morguninn í sundinu. Þegar skímuna frá kolunni leggur framan í Rósenkar, kallar hann til mjaltakvennanna: "Slökkvið þið lósið!" Og í sömu svifum líður hann í ómegin . . . "

Sögurnar af Bæjardraugnum, sem átti að hafa gengið ljósum logum á Snæfjallaströnd við Ísafjarðardjúp skömmu fyrir síðustu aldamót, eru allsvakalegar. Frásögn sú sem birt er hér að ofan er hluti af þætti er Þorbergur Þórðarson rithöfundur tók saman um þessa reimleika, en þátturinn er í Gráskinnu þeirra Þórbergs og Sigurðar Nordal. Átti Þórbergur viðtöl við fólk er varð vitni að reimleikunum eða tengdist þeim með einhverjum hætti, og telur hann að það segi satt og rétt frá í einstökum atriðum.

Draugurinn sótti einkum á tvo unga menn í sveitinni á Snæfjallaströnd – þá Rósenkar Pálmason og Benedikt Lyngdal. Svo er helzt að skilja, að fólkið hafi talið að draugurinn ætti sök á dauða Rósenkars, svo var ásókn hans mögnuð. Draugurinn lét hann aldrei í friði og dró svo af honum að hann lagðist í rekkju. "Sá hann ófreskjuna æ oftar á glugganum, naut lítillar værðar og trylltist stundum í svefni, eins og hann væri hartramlega kvalinn; matarlystin þvarr, og kraftarnir gengu smám saman til þurrðar, unz hann andaðist . . ."

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

. . . sér hvar Benedikt
hendist milli veggja


Eftir lát Rósenkars er sagt að draugurinn hafi lagzt á Benedikt félaga hans, og gengið nærri lífi hans. Segir svo á einum stað af viðskiptum þeirra: " . . . Páli þykir nú ískyggilega seinka komu Benedikts með moðpokann. Fer hann þá að gruna, að ekki muni allt með felldu í Berghúsum. Hraðar hann sér því til fundar við Benedikt, og þegar hann kemur í fjárhúsdyrnar, sér hann, hvar Benedikt hendist veggjanna millum í húsinu með emjan og óhljóðum, eins og honum sé hrint til og frá af ósýnilegu afli . . .

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

Galdramenn og
uppvakningar


Þá tengdust reimleikar ósjaldan svarta-galdri. Galdramenn kunnu að vekja upp drauga, mögnuðu þá með kynngi sinni og létu þá erinda fyrir sig – allt frá því að drepa óvini sína til þess að sækja sér tóbak og brennivín.

Því var trúað að það væru ekki einungis menn, sem gengið gætu aftur, heldur einnig dýr, bæði villt og tamin. Sálir manna og dýra áttu jafnvel að geta slegið sér saman í eina afturgöngu, og varð þá úr því magnaður fjandi. Það var einmitt tilgáta manna við Ísafjarðardjúp, að hin magnaði Bæjadraugur hefði verið slíkur samrunni manns og sels.

Draugum var skipt eftir eðli sínu í ýmsa flokka s.s. fylgjur, uppvakninga, peningadrauga, svipi, sjódrauga, fjörulalla, sendingar o. fl. Voru þeir gjarnan ofstopafyllstir framan af draugsævi sinni en dofnuðu með tímanum og urðu um síðir að meinlitlum slæðingi. En slíkur var fídonsandi sumra drauga, og þá helst þeirra sem magnaðir höfðu verið af galdramönnum, að þeir lögðust bæði á menn og skepnur og drápu, og gerðu mikinn usla. Varð þá að kalla til kunnáttumenn, að setja drauginn niður en til þess voru höfð ákvæði og særingar. Þóttu þeir menn hinir þörfustu, er kunnu skil á slíkum fræðum, enda gátu þeir einir hjálpað ef reimleikar gerðust ískyggilegir.

Nú á tímum trúir margt fólk sem fyrr á að draugar valdi óróa í húsum og geti jafnvel skaðað menn og valdið tjóni á eignum. Miðlar eða fólk sem álitið er gætt andlegu atgervi er oft kallað til að "hreinsa hús" eða létta af slíkum reimleikum.

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

– – –

Engan þarf að undra þótt spíritisminn ætti auðvelt uppdráttar hér á landi, þar sem trú á drauga og hulduverur var svo rótgróin, en með spíritismanum breyttust viðhorf fólks mjög til drauganna. Farið var að líta á þá sem anda framliðinna og var farið að spjalla við þá um heima og geima á miðilsfundum – eða um landsins gagn og nauðsynjar eins og gengur og gerist í venjulegum samræðum. Þó gátu andarnir einnig átt það til að gerast baldnir og illskeyttir, og gerðu þá miðlum og sálarrannsóknamönnum ýmsar skráveifur. Í sögu Indriða miðils, sem Þórbergur Þórðarson skráði eftir Brynjólfi Þorlákssyni söngkennara, segir frá miklum reimleikum er álitið var að Jón frá Vestamannaeyjum hefði staðið fyrir. Um reimleika þessa segir m.a. í bókinni:

Reimleikar hjá
Tilraunafélaginu


Uppúr því gerðust reimleikar Jóns svo rammir, að flest allt fast og laust ætlaði af göflunum að ganga í Tilraunahúsinu og miðillinn virtist vera í mikilli hættu. Varð ekki betur séð en Jón legði sig mjög í framkróka með að gera okkur allt til óleiks og bölvunar, sem hann gæti. Þess vegna var ekki annað talið þorandi en að fá einhvern til að halda vörð um miðilinn á nóttinni með Þórði, og skiptumst við nokkrir á um þann starfa . . . aðfaranótt hins 11. desember, féll í minn hlut að vaka hjá Indriða. Sú nótt mun mér seint úr minni líða. Þeir Þórður og Indriði háttuðu um kvöld hvor í sínu rúmi, en ég henti mér útaf á legubekk í fremra herberginu. Engum kom dúr á auga. Indriði leið undireins í trans, og stjórnandinn talaði af vörum hans og sagði, að nú yrði hann að hafa hraðan á, því að Jón væri á leið heim til okkar. Sigmundur og norski læknirinn D.C. Danielssen . . .gerðu einnig vart við sig. Kvaðst Sigmundur hafa hitt Jón í dag, og hefði hann þá verið búinn að birgja sig upp með töluverðan kraft . . .

Nú verður það næst til tíðinda, að tveimur kertastjökum, sem stóðu á harmoníum í fremra herberginu, er kastað niður á gólf. Þar næst bursta, sem var undir kommóðu í sama herbergi, hent inn í svefnherbergið. Þá hljóðar Indriði á hjálp og segir:

– Hann er KOMINN !

Ég bregð samstundis við og snarast inn í herbergið til miðilsins og að rúmi hans. Finn ég þá, að hann er að hefjast á loft í rúminu, og leggst ég ofan á hann til þess að halda honum niðri. Þá er borði, sem stóð útivið gluggann milli rúmanna í svefnherberginu, lyft uppí rúm Þórðar. Tek ég það og set það niður þangað, sem það áður stóð.

Þeir komu í
gegnum vegginn


Þá slotar nokkur andartök, og ég fer aftur framí fremra herbergið. En rétt í því hrópar miðillinn aftur úr rúmi sínu, að Jón sé þar ennþá kominn . . .  

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

– Nú koma þeir. Þeir koma þarna gegnum vegginn.

Það var veggurinn yfir rúmi Indriða. Hann gat þess líka, að einn þeirra væri með hattkúf á höfði, og væri hann bundinn undir kverkina með snæri. Rétt í þessu sendist náttpottur undan rúmi Indriða framí fremra herbergið og brotnar þar á gólfinu. Í sömu svifum er rúminu rykkt frá veggnum hérumbil hálfa alin, þrátt fyrir það, að ég ýtti fast á móti og spyrnti vinstra fæti í rúm Þórðar til þess að geta neytt betur krafta minna. Um leið finn ég, að verið er að lyfta Indriða upp í rúminu, og varð ég að halda honum niðri. Var svo kraftalega ýtt á rúmið og lyft undir Indriða, að mér skrikaði fóturinn uppaf rúmstokki Þórðar, og rann hann innaf stokkbrúninni, svo að skinnið hruflaðist framaná fótleggnum frá ökklalið uppað hnéskel. Meðan á þessu gengur, kemur Þórður framúr rúmi sínu mér til hjálpar. Þá er hafið á loft borðið, sem var milli rúmanna. Féll það síðan niður á herðar Þórði, þar sem hann stóð við fótagaflinn á rúmi Indriða. Þórður grípur til hendinni og þrífur í einn fót þess og heldur því föstu, meðan hann fer uppí rúm sitt aftur og dregur ábreiðuna uppyfir höfuð. Þá er borðplötunni lamið nokkra stund í sífellu ofaná höfuð honum.

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

Óhugnanleg sýn


Eftir að hafa lesið frásagnir af undrum af þessu tagi kemur manni gjarnan í hug að skýringin sé einfaldlega svikabrögð eða ofskynjanir viðstaddra. Í bók sinni Þessa heims og annars bendir Dr. Erlendur Haraldsson hins vegar á að ofskynjanatilgátan sé varla hugsanleg þegar margir sjá svip (eða vofu) samtímis.

Dæmi um þetta mátti heyra í útvarpserindi sem Einar Magnússon, menntaskólakennari og síðar rektor, flutti 16. febrúar 1949. Hafði Einar ásamt Jóhannesi Áskelssyni jarðfræðingi og Valdimar Sveinbjörnssyni leikfimikennara gegnið á Löðmund í desember 1933 til að athuga, hvort sæist til eldgoss inn á öræfunum sem orðrómur lék á um.

Í erindi sínu sagði Einar m.a.: . . .  Ætluðum við að fara niður nokkru norðar en við komum upp. Við höfðum vindinn í bakið og óðum snjóinn knálega, en bylur var allmikill. Sæmilega bjart var þó vegna tunglsljóssins. Þegar við höfðum skammt farið sparn Valdimar allt í einu við fótum, en hann gekk í miðið, og sagði harkalega: HVAÐ ER ÞETTA?   ER ÞETTA MAÐUR ?

Við litum upp og horfðum þangað, sem Valdimar benti. Sáum við þá, hvar maður sat á steini alllangt frá okkur eða nærri úti á fjallsbrúninni. Sneri hann baki við okkur og reri ákaft fram og aftur, en ruggaði sér stundum til hliðanna með ekki minni ákafa. Horfðum við á þetta um stund og sögðu ekki orð. Ekki veit ég, hvað þeir hugsuðu, Jóhannes og Valdimar, en mér datt strax í hug, að hér mundi vera draugur á ferð, enda hafði ég heyrt að reimt væri við Löðmund . . .

Ég taldi rétt að kalla til veru þessarar og láta hana vita um nærveru okkar og öskraði því: HVER ER ÞETTA ?

En maðurinn ansaði engu, heldur hélt áfram að róa sér í gríð og erg. Vindurinn bar af okkur og taldi ég því líklegt, að maðurinn hlyti að geta heyrt til okkar, og öskraði aftur sýnu hærra en fyrr og bætti nú við einhverjum skammaryrðum, sem ekki eru eftir hafandi. En það kom fyrir ekki. Jóhannes var okkar mestur vísindamaður og hafi orð á því, hvort hér gæti ekki verið um missýningu að ræða, en það töldum við fráleitt, því að þá ætti sýn þessi að hverfa . . .

En hann bara
reri og reri


Syrti nú bylinn og vindurinn hvein um eyru okkar, en ókennileg vera reri hið ákafasta nokkuð framundan. Ég hrópaði hið þriðja sinn og skoraði á veru þessa að segja til sín. En hún gegndi engu. Töldum við þá rétt að ganga að verunni, við værum þrír, og mátti það vera magnaður fjandi, sem við hefðum ekki í fullu tré við. Við gengum áfram hægt og hægt viðbúnir að fjandi þessi risi upp þá og þegar og réðist að okkur. En hann bara reri og reri á steininum sem ákafast. Við kölluðum og æptum og nálguðumst hægt og hikandi þar til ekki virtust meira en svo sem 10 metrar að steininum. Þá stönsuðum við og leist ekki á blikuna. Kölluðum enn og gengum hægt nær, Valdimar með reidda skófluna og Jóhannes með hakann á lofti, en draugsi bara reri. Er við áttum svo sem þrjá metra eftir að steininum, hvarf draugsi alli í einu og sáum við ekki annað en steininn. Við gengum að honum og káfuðum á honum og leituðum allt í kringum hann, en urðum einskis vísari. Steinninn stóð rétt út af fjallsegginni og virtist draugurinn hafa steypt sér fram af og út í bylinn . . .

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

– – –

En hversu mikla trú hafa Íslendingar almennt á því að reimleikar eigi sér stað í raun og veru? Í könnun sem Dr. Erlendur Haraldsson framkvæmdi ásamt nokkrum háskólanemum fyrir nokkrum árum kemur fram að 55 af hundraði þeirra sem spurðir voru um reimleika töldu þá mögulega, líklega eða vissa – en 33 af hundraði töldu þá óhugsandi eða ólíklega. 12 af hundraði höfðu enga skoðun á málinu.

Í bókinni Þessa heims og annars, þar sem Erlendur Haraldsson gerir grein fyrir könnuninni, segir m.a. um reimleika: ". . . Spurning okkar um reimleika hljóðaði þannig. Hafið þér nokkru sinni búið eða gist í húsi sem reimt var í að yðar áliti af eigin reynslu?"


 

Hundraðstölur svarenda sem telja:

			Að sjá megi 	Að ná megi	Reimleika-
			framliðna	sambandi við	fyrirbærið
			men		framliðna á 
					miðilsfundum

Óhugsanlegt		2		3		10
Ólíklegt		5		8		23
Mögulegt		31		34		34
Líklegt			26		21		12
Visst			31		21		 9
Engin skoðun		5		13		12

 


Fimmti hver maður
hefur reynslu af reimleikum


"Þeir sem þessa könnun gerðu undruðust hve margir kváðust hafa eigin reynslu fyrir reimleikum. Voru það 18% eða nærri fimmti hver maður. Lítill munur var milli kynja, 17% karla og 20% kvenna höfðu búið í eða gist í húsi sem reimt var í."

Rétt er að geta þess að dularsálfræðingar og aðrir rannsóknarmenn, sem kannað hafa reimleikafyrirbæri, telja að reimleikar þurfi alls ekki að stafa af draugum eða frá framliðnum mönnum, nærtækari skýringu sé hægt að finna á þeim. Þeir álíta að sum reimleikafyrirbæri að minnsta kosti stafi frá lifandi mönnum og sé þá um að ræða svonefndar firðhræringar. Niðurstöður rannsókna á fjölmörgum firðhræringafyrirbærum eru taldar benda til að firðhræringar geti orðið í kringum fólk sem á við djúpa tilfinningalega spennu að stríða, sérstaklega unglinga. Hefur sú tilgáta verið sett fram, að við ákveðnar kringumstæður geti sálarorka fólks losnað úr læðingi og valdið allskyns hreyfingum og fyrirbærum í námunda við það. Ekki þykja þessar kennisetningar mikil vísindi, en menn styðjast við þessar hugmyndir til skýringar á fyrirbærunum meðan ekki finnast aðrar haldbetri.

Nútímaleg
draugasaga


 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

. . .

Samantekt: Bragi Óskarsson

Sjá: Reimleikar, strit og ferðalög


Heim aftur