Vættirnar í Snæfellsjökli
og
Bárður Snæfellsás


Ýmsar kynjasögur eru til um Snæfellsjökul og mun því vera haldið fram af spekingum á Indlandi að þar sé rammasta orkustöð jarðar og streymi frá henni voldug magnan. Þannig er jökullinn raunverulega nafli veraldar, ef þetta er rétt. Allt frá landnámstíð hefur alls kyns hjátrú tengst Snæfellsjökli og fornmenn lögðu átrúnað á vætti sem þar voru sagðir ríkja og þóttu duga vel til áheita ef í harðbakkann sló. Hinar nýstárlegu Snæfellshátíðir, þar sem fólk veður eld og eflir seið, eru eg til vill eins konar trúarvekning í svipuðum anda þó hátíðargestir hafi reyndar fleiri guðum að gegna.

Ég rakst fyrir skömmu á allsérstæða frásögn ættaða frá Kína um forsögulegt landnám Íslands, þar sem fjallað er um Snæfellsjökul og hið kyngimagnaða náttúruafl sem frá honum geislar. Áður en kemur að kínversku frásögninni er þó rétt að skoða íslenskar heimildir.

Bárður Dumbsson

Í Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá landnámi Bárðar Dumbssonar, sem átti ættir að rekja til trölla. Bárði var varið líkt og mörgum landnámsmanna að hann vildi ekki lifa undir ánauðaroki Haraldar lúfu Noregskonungs og réð því af að halda til Íslands. Þannig segir frá landnámi hans í Bárðarsögu Snæfellsáss (Íslendingasagnaútgáfunni sem Guðni Jónsson bjó til prentunnar).

"En þeir nafnar váru burtu búnir, létu þeir í haf ok höfðu harða útivist ok váru í sjó hálft hundrað dægra ok kómu sunnan at landinu ok heldur vestarliga. Þeir sjá þá fjall eitt mikit ok lukt allt ofan með jöklum. Þat kölluðu þeir Snjófell, en nesið kölluðu þeir Snjófellsnes."

"Bárðr Dumbsson lagði sínu skipi inn í lón, þat sunnan gengr í nesit ok þeir kölluðu Djúpalón. Þar gekk Bárður á land ok hans menn, ok er þeir kómu í gjárskúta einn stóran, þá blótuðu þeir til heilla sér. Þat heitir nú Tröllakirkja . . .

Síðan fóru þeir at kanna lönd, og er Bárðr kom á víknes eitt, þá bað Kneif anbátt, at Bárðr skyldi gefa henni nesit, ok svá gerði hann, ok er þat nú kallat Kneifarnes.

Þá fann Bárðr helli stóran, ok þar dvöldu þeir um hríð. Þar þótti þeim svara öllu því, er þeir mæltu, þvi at dvergmál kvað fast í hellinum. Hann kölluðu þeir Sönghelli ok gerðu þar öll ráð sín, ok helzt þat alla stund síðan, meðan Bárðr lifði."

Jólagleði í Hundahelli

Bárður var fremur tröll en mennskur maður, svakafenginn er hann reiddist og stóð þursum jafnvel stuggur af honum. Í sögunni segir frá viðskiptum hans við tröllin og er þar að finna þessa frásögn:

"Í þann tíma var Hít tröllkona upp ok byggði Hundahelli í þeim dal er síðar var kallaðr Hítardalr.

Hít setti þá jólaveizlu sterka. Hon bauð þar fyrstum Bárði Snæfellsás, ok fór Gestr með honum, sonur hans, og Þorkell skinnvefja. Þangat var ok boðit Surt af Hellisfitjum og Jóru ór Jórukleif. Sá þurs var þangat boðinn, er Kolbjörn hét. Hann byggði þann helli, er stendr í Breiðadalsbotnum, en þat er í framanverðum Hrútafjarðardal, þar sem grynnir dalinn vestr undir Sléttafelli. Kolbirni fylgdu þeir Gapi ok Gljúf-Geirr, er heima átti á Hávagnúpi í Gnúpsdal, Glámr og Ámr ór Miðfjarðarnesbjörgum. Þar var og Guðlaugr ór Guðlaugshöfða.

Svá var sætum skipat í Hundahelli, at innar um þvert á miðjum bekk sat Guðrún knappekkja. Á aðra hönd henni sat Jóra ór Jórukleif Egilsdóttir, en á aðra hönd henni sat Helga Bárðardóttir, en eigi váru þá fleiri. En Hít gekk um beina. Í öndvegi sat Bárðr Snæfellsás, en útar frá Guðlaugr ór Guðlaugshöfða, en innar frá Gestr Bárðarson, þá Kálfr og Þorkell skinnvefja. Gengt Bárði sat Surtr af FItjum, en innar frá honum sat Kolbjörn ór Breiðdal, þá Glámr og Ámr, en útar í frá Geirr og Gapi.

Váru þá borð upp tekin ok matr á borinn heldr stórkostligr. Drykkja var þar mjög óstjórnig, svá at allir urðu þar ginntir.

En er máltið var úti, spurðu þursar og Hít, hvat Bárðr vildi til gamans hafa, kváðu hann þar skyldu hýbýlum ráða. Bárðr bað þá fara til skinnaleiks.

Stóðu þeir þá upp Bárðr ok Surtr, Kolbjörn, Guðlaugr ok Gljúfra-Greirr ok höfðu hornskinnaleik. Var þá ekki svá lítit um þá. Þó var það auðsét, at Bárðr var sterkastur, þó at hann væri gamall. Bjarnfeld einn stóran höfðu þeir fyrir skinn ok vöfðu hann saman ok köstuðu honum á milli sín fjórir, en einn var úti, og skyldi sá ná. Ekki var gott at vera fyrir hrundningum þeirra. Flestir stóðu upp í bekkjum nema Gestr, hann sat kyrr í rúmi sínu.

En þá Kolbjörn var úti, ætlaði hann at ná skinni fyrir Bárði og hljóp at heldur snarliga. En er Gestr sá þat, skaut hann fætinum fyrir Kolbjörn, svá at þursinn hraut þegar út á bergit svá hart, at brotnaði í honum nefit. Fell þá blóð um hann allan. Varð þá upphlaup og hrundningar heldr sterkigar. Vildi Kolbjörn hefna sín á Gesti.

Bárðr segir, at þat skal engum duga at gera nökkurt ómak í herbergjum Hítar, vinkonu sinnar, – "þar sem hon hefir boðit oss með kærleikum."

Varð nú svá at vera sem Bárðr vildi, en þá undi Kolbjörn illa við, er hann gat eigi hefnt sín . . . "

 

Þursinnn Kolbjörn var síðar drepinn í miklum tröllaslag er hann reyndi að koma fram hefndum. Um Bárð er það hins vegar sagt að hann hafi um síðir gerst fráhverfur mannfélaginu og svo forn í skapi að hann undi sér ekki nema með tröllum. Svo segir í Bárðar sögu:

 

"Eftir þetta hvarf Bárðr í burtu með allt búfé sitt, ok þykir mönnum sem hann muni í jöklana horfit hafa ok byggt þar stóran helli, því at þat var meir ætt hans at vera í stórum hellum en húsum, því at hann fæddist upp með Dofra í Dofrafjöllum. Var hann tröllum ok líkari at afli ok vexti en mennskum mönnum, ok var því lengt nafn hans og kallaður Bárðr Snjófellsáss, því at þeir trúðu á hann náliga þar um nesit og höfðu hann fyrir heitguð sinn. Varð hann ok mörgum in mesta bjragvættr."

Sérstæð ættarsaga

Í bréfi sem maður fæddur á Indlandi á dögum Breska heimsveldisins, Michael Eyre, ritaði fyrir rúmlega hálfri öld er að finna kínverskar sagnir um máttuga vætti í Snæfellsjökli. . . .

Það er dagsett 4. maí 1921 og var sent til Ásgeirs Sigurðssonar aðalræðismanns Breta á Íslandi. [Bréfið barst í hendur Einari Jónssyni myndhöggvara en sonur Ásgeirs, Haraldur Á. Sigurðsson, veitti leyfi til birtingar þess].

En hver var Michael Eyre og hvaðan hafði hann þekkingu sína á Snæfellsjökli og landnámi trölla á Íslandi? Hann kom aldrei til Íslands en ætt hans tengist Íslandi með sérstæðum hætti, og er sú saga svo einstæð að ástæða er að leyfa henni að fljóta hér með. Michael Eyre kynnir sig þannig í bréfinu:

'Ég er kominn af íslenskri hefðarkonu, sem sjóræningjar frá Algier tóku á Íslandi og höfðu brott með sér í lok 17. aldar. Saga sú sem varðveist hefir í ætt minni, er á þá leið, að breskur liðsforingi hafi bjargað stúlku þessari, þegar hún hafði verið 19 ár í ánauð, kvongast henni og átt við henni einn son barna. Skömmu eftir að drengurinn fæddist, dó faðir hans, og ól hún sjálf son sinn upp í Englandi. Þegar hann var orðinn fulltíða maður og hún fann dauðann nálgast, bað hún hann að flytja jarðneskar leifar sínar heim til Íslands og jarða þær í kirkjugarði æskustöðva hennar. Hann lét uppfylla ósk hennar, en mörg ár liðu áður en hann gæti efnt loforð sitt. Hann dvaldist þá nokkurn tíma á Íslandi og ritaði þá á íslensku sögu eða öllu heldur rímur, er hann kallaði Þórunnarljóð, því að Þórunn hafði móðir hans heitið . . . Hann hvarf síðan til Englands og kvæntist þar, og slitnuðu þá öll tengsl ættar minnar við Ísland.

Um 1745, skömmu eftir að Stuartarnir gerðu síðustu tilraunina til þess að komast aftur til valda í Stóra-Bretlandi, gerði sonur hans, að nafni Þorstan, enska þýðingu í lausu máli af rímum þessum og kallaði "Fögru stúlkuna frá Eyre" (Eyri). Auðvitað get ég ekki ábyrgst, að saga þessi sé sönn að öðru en því, að forfaðir okkar bjargaði íslensku stúlkunni, og kvongaðist henni síðar.

En sögulega sannur og mjög merkilegur eftirmáli við sögu þessa er þó til, og hann er á þessa leið:

Þegar Exmouth lávarður skaut á Algiersborg 27. ágúst 1816, þá var afabróðir minn, "Thurstan Eyre" sjóliðsforingi, á aðmíralsskipinu Queen Charlotte", sem búið var 110 fallbyssum . . . Hann lagði sig fram af lífi og sál í svaðilför þessari og vildi mynda landgönguflokk til þess að ráðast á Algiersborg, en gat ekki eins og geta má nærri, fengið samþykki yfirmanna sinna til þess. Hann lét það þó ekki á sig fá og í orrustunni gerðist hann svo ákafur, að hann stökk útbyrðist, þótt hann hefði ekki nema rýting einn að vopni, synti í land og réðst einn síns liðs á algierskan hermannahóp og varð tveimur mönnum að bana, og tókst þannig að koma fram hefndum á ræningjum ættmóður sinnar, áður en hann var sjálfur veginn . . .

Foreldrar mínir höfðu engan áhuga á ættarsögu okkar. Faðir minn var mikill raunhyggjumaður, alvörugefinn og guðhræddur og áhugasamur kennimaður ensku kirjunnar. Hann varð gripinn trúboðaáhuga löngu áður en hann kvæntist og fór til Indlands til þess að boða heiðingjum fagnaðarerindið. Hann hafði verið vandlega undir það starf búinn og var vel að sér í Austurlandafræðum. Ég er fæddur á Indlandi og var yngstur fimm systkina, var ólíkur þeim öllum að því leyti, að ég er sá eini, sem hefi áhuga á ættarsögu okkar og numið Norðurlandamálin . . .

Sagnir um landnám

Ég hafði ætlað mér að skrá í ritgerðarformi eða söguágripi kenningu þá og heimspekikerfi það, sem ég hafði numið, en einkanlega hafði ég ætlað mér að skrifa sögu um Ísland, hið sálfræðilega charka veraldarinnar. En aðrar ástæður og önnur skyldustörf öftruðu því. Ég hafði sest að í Messína á Sikiley, og þar kvongaðist ég, og það var ekki fyrr en nokkrum árum síðar, að ég fékk tækifæri til þess að heimsækja löndin við austanvert Miðjarðarhaf. Í það skipti gat ég athugað nokkur merkileg rit í bókasöfnum í Aþenu, Saloníki og Miklagarði, og skrifaði ég margt úr þeim.

Í Saloníki kynntist ég prófessor nokkrum frá Armeníu, og sýndi hann mér merkilegt og sjaldgæft handrit frá árinu 1740 eða 42, – ég man ekki nákvæmlega hvort heldur var, – eftir hin fræga Kristmunk og trúboða Peré Antoni Gaubil, mesta fræðimann sinna daga í kínverskum efnum, og einn af þeim fjórum mönnum, sem kynntu Evrópu Kínaveldi. Ég vildi feginn hafa eignast þetta handrit, en hann synjaði mér um það, og var mér leyft aðeins að líta á það í návist hans. Þetta var hörmulegt, því að þessi vesalings maður var drepinn í einni hinna skipulögðu ofsókna á hendur Armeníumönnum í Saloníki 29. apríl 1903, og frétti ég, að hús hans hefði verið jafnað við jörðu og allar eigur hans miskunnarlaust eyðilagðar. Eftir minni rita ég upphafið að handriti þessu: "Inter fabulas Sinarum hæc sunt, quæ Curioso Lectori communicanda Duco: Insula magna hodie Thyle sive Islanda vocatur . . . olim Sinarum gigantes patria fuit . . ." Höfundurinn sagði því næst, að samkvæmt kínverskum sögum hefði lífið fyrst átt upptök sín á þessari fjarlægu eyju, – "einu hinna sjö dulrænu landa og því fjarlægasta". Kom lífið fyrst fram þar, og þar bjó risakyn, sem átti í baráttu við sjávardreka. En þetta er aðeins ævintýrasögn, því þetta er ömurlegt land, og enginn skógur vex þar. Þó var það þar, að Kólumbus fyrst heyrði getið hins suðræna lands fyrir vestan hið mikla haf, og varð það til þess, að hann réðst í að sigla yfir hafið. Og varð árangurinn sá, að hann fann Ameríku aftur.

Í Aþenu rakst ég ennfremur á rit á ítölsku eftir Ramusio (Feneyjum 1583). Þar er eftirfarandi grein, og set ég hana hér í þýðingu:

"Zichmni ákvað að ráðast á Ísland, er ásamt hinum öðrum eyjum lutu Noregskonungi. En landið reyndist svo vel búið til varnar, að árás hans var hrundið, enda hafði hann aðeins lítið lið. Þess vegna hvarf hann frá þessu áformi, en réðst í sömu sundunum á aðrar eyjar, nefndar íslönd, – eru þær sjö, sem sé; Talas, Broas, Iscant, Trans, Mimant, Damberc og Bres. Og þegar hann hafði tekið þær allar, byggði hann sér virki í Bres." (Ramusio Navigationi, Tomeii, fol., 231 A.)

 

432 djöflar nema Ísland

Hér kemur Michael Eyre með allítarlega lýsingu á náttúruvættum og hvern skilning Austurlandamenn hafi á eðli þeirra. Hann lýsir því af miklu andríki hvernig þessar verur skiptast í tvo ólíka hópa, semsé engla og djöfla. Hann tekur skýrt fram að djöflarnir séu ekki illir andar, heldur baldnar vættir sem þrjóskast við og óhlýðnast visku himinsins.

Michael lýsir frumbyggingu Íslands samkvæmt sögum sem hann segir að fyrir mörgum þúsundum ára hafi kristallast í því, sem nú kallast kínverskir annálar, og er þar getið þessarar fjarlægu eyjar, eldfjallalands. Þar er getið atburða, sem áttu að hafa gerst fyrir örófi vetra í sambandi við keisara nokkurn, Chun að nafnið – nokkurs konar ofurmenni sem ríkti með miklu veldi í Kína í þá tíð. Komu þá 432 djöflar frá öðrum hnetti og ætluðu að setjast að í landinu Tsieng (Kína) og byrja á því að reka Chun úr landi. Þessu kunni Chun illa, og þar sem hann var vitur maður, sem elskaði hið góða og þjónaði himninum, en hataði hið illa, sá hann, að öruggast myndi að koma djöflunum fyrir á afviknum stað, og datt þá Ísland í hug. Með aðstoð himinsins tókst honum að ginna hina 432 óvelkomnu gesti þangað, og svo lagði hann það á þá, að þeir skyldu aldrei fá flúið þaðan.

 

En á himninum er meiri viska en menn dreymir um og Völdin hin miklu, er jafnvel englar og djöflar lúta, skipuðu málum þannig, að starf þessara voldugu vera skyldi verða til þess að framkvæma hinn skapandi vilja þeitta. Eins og spekingar þeirra tíma kenndu, er jörðin afar stór hnöttur, og umhverfis hann, í um það bil 100 mílna hæð, er þanin blæja guðanna – hindrun, sem engir fá komist yfir um, og um fald hennar leika logarnir, sem sjást í norðurvegi. Ljós sólarinnar skín í gegnum þessa blæju, en þessi mikla kristalshvelfing heldur öllum öndum á jarðsviðinu.

Djöflarnir vöktu með starfi sjálfra sín hið blundandi segulmagn þessa Chakra og gerðu samfelldan brosandi aldingarð úr landi þessu, sem áður hafði verið ísi þakið og eldbrunnið. Þegar Chun varð þess áskynja, að eyjan var orðin svona byggileg, þá reyndi hann að reka djöflana þaðan. En þeir höfðu náð mjög háu chakshu-stigi (það er erfitt að þýða þetta orð . . . Þess vegna verður að umrita það, og held ég, að hið næsta, sem við komumst merkingu þess, sé: "skynjun andlegra sannreynda eða sjötta andlega yfirskilvitið.") Þegar Chun komst að því að hann réð ekki við djöflana, þá bjargaði hann sér og gerði samning við þá.

En er tímar liðu fram og djöflarnir höfðu framkvæmt störf sín, þá fluttust þeir smám saman burt af jörðinni, en skildu þó eftir sex af sínum flokki, yngri verur, og fólu þeim sérstakt hlutverk. Þessar verur tóku sér bústað í hinu stóra fjalli Yuh-Q'HLL, en þaðan steig upp öðru hverju hinn skírandi jarðeldur. (Í hinu forna KUAH eða hinni helgu kínversku tungu þýðir orð það, sem ég hefi hér ritað yuh-Q'HLL: Hinn helgi fórnareldur. Ég get ekki annað en látið mér detta í hug, hvort hér kunni ekki að vera eitthvert samband við íslenska orðið "jökull", þó að það þýði alveg það gagnstæða: "ís") . . .

 

 

Framhald . . .

 

 

Spádómurinn

Þannig lýkur frásögn Michael Eyre af landnámi Íslands og vættunum í Snæfellsjökli. Að lokum er hér um það bil aldagamall spádómur hins kínverska fræðara hans:

 

 

Framhald . . .

 

 

Undur Íslands

 

 

Framhald . . .

 

 

Athyglisverðar frásagnir

 

 

Framhald . . .

 

 

Samantekt: Bragi Óskarsson

 


Aftur í aðalsíðu