Sú fyrri er eftir Sigurð Sveinbjörnsson frá Bjarneyjum en sagan um "Stúlkuna í kumlinu" er eftir frásögn Gunnars Gíslasonar, fyrrum bónda á Sólborgarhóli í Kræklingahlíð.
Seinasta daginn, sem unnið var við veginn þetta vor, vorum við að starfa upp í gilinu sunnanverðu, ofarlega. Kom þá í tal steinhrúa, nokkuð stór, á gilbarminum rétt neðan við veginn. Ættu allir vegfarendur að kasta 3 steinum hver í hrúguna, svo þeim hlekktist ekki á yfir gilið. Mælt sé, að unglingsstúlka eigi að vera dysjuð þarna. Hafi hún verið smalastúlka frá Merkigili og verið drepin og dysjuð þarna fyrir lögnu. Kom þá fram, að tveir af verkamönnunum höfðu ekki lagt steina í kumlið, Þorsteinn Einarsson frá Tungukoti og ég. Var okkur ráðlagt að ljúka við það þá þegar.
Þorsteinn kastaði þá þrem steinum í kumlið, en ég þráaðist eitthvað við það; sagðist ekki sjá hentuga steina þar í nánd.
Þegar vinnutíma var lokið, settust allir niður, nema ég gekk niður í gilskriðuna, og sýndist mér vinnuflokkurinn þá kýmileitur. Valdi ég þarna 3 steina, alla aflanga, en einn lengstan. Sögðu félagar mínir, að ég yrði að hraða mér, því þeir væru á förum, og hlógu dátt. Gekk ég þá að kumlinu og gerði krossmark á það með steinum þessum. Urðu félagar mínir þá jafnhljóðir sem þeir höfðu verið háværir áður. – Lögðum við svo af stað og hélt hver heim til sín.
Þegar ég var nýsofnaður heima um kvöldið, dreymir mig unga stúlku, lítið og einkennilega klædda, fölleita og grannvaxna. Hún ávarpar mig með þessum orðum:
"Ég þakka þér fyrir krossinn, Gunnar minn." Síðan hvarf hún mér sýnum.
Oftar hefur mig dreymt stúlku þessa, en aldrei hefur hún talað til mín, nema í þetta eina skipti. Hefur mér virst hún vera mér hliðholl og nærstæð í ýmsum vanda og leitast við að veita mér atbeina, án orða. T.d. var það ævinlega, þegar ég var í Ábæ og mig vantaði kindur, sem væntanlega höfðu misfarist, – þá gat ég gengið að þeim á þeim stöðvum, sem mig dreymdi að stúlkan væri á. En síðan ég fór frá Ábæ hefur stúlka þessi aldrei birst mér í draumi.