Ég vitja . . .


Á KOTUM

Ég fór frá Kúskerpi vorið, sem ég var fermd. Hjá foreldrum mínum hafði lengi dvalið kona, sem var með börnin og vann margt annað heimilinu til þarfa. Um þetta leyti fluttist hún til sonar síns, svo að nú þurftu foreldrar mínir að fá mig heim. Þar var ólíkt heimilislíf og á Kúskerpi. Glaðlyndi, æskuleikir og alltaf fullt hús af gestum. Efnahagur foreldra minna var líka orðinn stórum betri en fyrrum, þrátt fyrir vaxandi ómegð. Við vorum nú orðin sex, systkinin. Ég var elzt, Hjörtur næstur. Þá Magnús, Guðrún, Hallgrímur og Hjálmur yngstur. Hann dó á fjórða ári. Alls urðum við níu. Sjö eru enn á lífi. Þau yngstu eru Frímann og Ragnheiður. Öllum þessum hóp komu foreldrar mínir upp án þess að þiggja styrk af opinberu fé, og þegar faðir minn dó, var eftir sæmilegt bú, skuldlaust með öllu. Þó mátti segja, að þau hefðu byrjað búskap með tvær hendur tómar. Er því auðsætt, að þau lágu ekki á liði sínu. Pabbi var mjög hygginn bóndi og vann hverja stund. Hann óf allan veturinn og fram á vor, auk vanalegra heimilisstarfa, og margir borguðu það vel. Mamma hafði stóran verkahring. Umhyggja fyrir börnunum og þá ekki síður gestagangur heimtuðu hverja stund. Hún var gáfuð og góð kona og svo greiðasöm, að af bar.

Við börnin vorum látin vinna, og sífellt brýnt fyrir okkur að vera trú í verkum okkar, hvað sem við gerðum, svo að sem mest og bezt gagn yrði að vinnunni. Ekki man ég þó eftir, að ég væri þreytt, enda aldrei langur vinnudagur heima hjá foreldrum mínum. En ég man, hversu mikil vinnugleðin var, þegar vel gekk. Að vetrinum var lengi setið í rökkrinu, og var þá ýmist prjónað, þæft eða undið band, og alltaf var eitthvað til skemmtunar jafnframt. Amma kunni ógrynnin öll af sögum, ævintýrum, kvæðum og þulum, auk þess sem hún var prýðilega hagmælt. Þreyttist hún aldrei á að skemmta okkur með því á þessum rökkurstundum. Oft var líka farið í leiki, útásetningarleik, gjafaleik, sjöorðaleik og sett í horn. Ég geri ráð fyrir, að nútímaæskunni þætti þvílík skemmtun fátækleg, en okkur þótti hún ágæt og mest í það varið að njóta hennar við hlýjan arin heimilisins. Þessir gömlu leikir eru nú úr gildi gengnir, en ég vil ekki, að þeir týnist með öllu og ætla því að segja, hvernig þeir voru iðkaðir heima, eftir því sem ég man.

Útásetningarleikur var þannig, að allir gátu setið við verk sitt nema einn. Hann gekk á milli fólksins og hvíslaði í hvers manns eyra. Við einn sagði hann t. d.: "Af því að þú ert í giftingarhug," eða: "Af því að þig vantar í nefið." Hver varð að muna það, sem að honum var hvíslað. Þegar einhverju hafði verið hvíslað að öllum, varð einhver að hvísla að þeim, sem á milli gekk. Síðan átti einn að spyrja alla, en auðvitað ekki sá, sem hvíslað hafði. Nú byrjaði hann að spyrja, t. d.: "Því ertu svona rauð (eða rauður) í framan?" og var þá svarið: "Af því að ég er í giftingarhug." Eða: "Því horfirðu svona mikið á hana Siggu?" "Af því mig vantar í nefið."

Gjafaleikur var þannig, að einn gekk á milli allra og gaf hverjum einhverja gjöf, tóbakspung, hanginn magál og svo framvegis. Síðast varð einhver að gefa þeim, er á milli gekk. Auðvitað var hvíslað að öllum, því að enginn mátti vita, hvað hverjum um sig var gefið. Síðan var einn valinn úr hópnum til þess að svara, var síðan spurt og svarað upphátt. Þá spurði hver af öðrum, eftir því sem svarað var: "Hvað á ég að gera með það, sem mér var gefið?" Væri nú til dæmis þeim, sem gefinn var tóbakspungur, svarað, að hann eða hún ætti að gefa hann kærustunni eða kærastanum, varð hlátur mikill. Yfirleitt áttu svörin ekki vel við, en í það var mest varið.

Sjöorðaleikur gat verið skemmtilegur. Í honum voru sjö manns. Einn gekk á milli, og allir hvísluðu að honum. Sá fyrsti tiltók einhverja stúlku, sem allir þekktu. Annar tiltók pilt, og mátti þetta aldrei vera gift fólk. Þriðji hvíslaði, hvar þau hefði mætzt, fjórði, hvað hún hefði sagt við hann, fimmti hvíslaði, hvað hann hefði sagt við hana, sjötti, hvað heimurinn sagði, og sjöundi, hvað úr því varð. Síðan las sá, sem að var hvíslað, alla söguna; og varð oft úr mikill hlátur.

Svo voru gefin skip, kveðist á og skanderast, og var þá oft þægilegt að geta búið til vísu.

Oft tóku næturgestir þátt í þessum skemmtunum okkar, og einhvern veginn held ég, að mörgum þeirra hafi fundizt þeir vera eins og heima hjá sér, þegar þeir voru gestir foreldra minna.

Á þessu ári, sem ég var heima hjá foreldrum mínum, eftir ferminguna, urðu Kúskerpishjónin fyrir þeirri sorg, að missa einkadóttur sína, Oddnýju. Hún hafði þá dvalið tvo vetur í Akureyrar kvennaskóla og var orðin mesta myndarstúlka. Með menntun hennar hafði heimilið breytzt til batnaðar, margt varð þar frjálsara og reglur ekki eins strangar. Kúskerpishjónin báðu nú foreldra mína um mig sem vinnukonu. Held ég, að þeim hafi verið nauðugt að verða við bóninni og mér því nauðugra, en heimilið var í sorgum, og þess vegna var ekki hægt að neita því. Fór ég þangað á krossmessu sem vistráðin vinnukona. Kaup fékk ég vitanlega ekki annað en föt.


Framhald . . .

Til baka