CLOUD8

Ég vitja . . .


ANDLÁT ÓLAFS OG KRISTRÚNAR

Mörgum árum seinna fluttist ég að Kúskerpi og bjó þá á hálfri jörðinni á móti Ólafi og Kristrúnu. Þá voru þau bæði orðin gömul og þreytt. Böksuðu þau við að heyja handa skepnum sinum, sem voru orðnar frekar fáar.

Um þetta leyti voru þau farin að sætta sig við frjálsara líf á heimilinu, en sjálf héldu þau gömlum og föstum venjum sínum.

Ég var svo lángefin að geta hlynnt að þeim, þegar þau þurftu mest á því að halda, því að þau dóu bæði á þeim árum, sem ég var þar. Ólafur dó fyrr en Kristrún, en enginn sá henni bregða við andlát hans, og veit ég þó, að henni fannst hún missa mikið við dauða hans. En hún var stillt kona og þrekmikil, þegar mest á reyndi.

Eftir dauða Ólafs bjó Kristrún á litlum parti jarðarinnar, hafði vakandi hugsun á öllu, sem að búskap laut, og var stundum nokkuð spör í útlátum við þá, sem hjá henni voru, en var þó oft notaleg við gamla kunningja.

Sparsemi hennar gat verið dálítið spaugileg, og greini ég frá einu atviki af því tagi.

Ólafur dó að vori. Líkkistusmiður þar í sveitinni var Sigurður Þorsteinsson, bóndi á Bjarnastöðum. Hann smíðaði utan um Ólaf, en kistan var flutt að Kúskerpi áður en hún var fullmáluð, svo að hægt væri að kistuleggja. Síðan kom Sigurður fram eftir til að ganga frá kistunni að fullu. Hann kom um hádegi og tók til starfa. Þennan dag sauð Kristrún baunir. Hún hafði þann sið að sjóða mikið í einu, hitaði svo upp handa sér, meðan maturinn entist. Sigurður var ákaflega glettinn og stríðinn, en ágætur maður. Hann hafði einhvern veginn komizt að því, að Kristrún var að sjóða baunir. Það var föst venja Kristrúnar að skammta miðdegismat klukkan tvö, og ævinlega bar hún mat sinn inn á borð í baðstofunni og sat á rúmi sínu, meðan hún borðaði. Brá hún aldrei út af þessari reglu. Þegar baunirnar eru soðnar, ber hún pottinn inn í búr, og er þá klukkan orðin tvö. En í þetta skipti skammtaði hún ekki strax, og þóttist ég vita, að hún biði eftir því, að Sigurður lyki verki sínu og kæmi inn að borða. Ég var inni í baðstofu, og kemur nú Sigurður inn og tekur sér sæti. Eftir nokkra stund spyr hann, hvort hér sé ekki borðaður miðdegismatur. Ég kvað svo vera og fer fram og segi Kristrúnu, að Sigurður sé kominn inn og bíði eftir matnum. "Vill hann nú fara að fá mat," segir hún, "ég gef honum ekkert að borða." Ég tók nú til mat frá mér og fer inn með hann, en ekki voru það baunir. Þegar Sigurður sér matinn, segist hann ekkert vilja annað en baunir, og biður mig að segja Kristrúnu það, og glettnin skín út úr honum. Segi ég Kristrúnu, að hún megi til að gefa honum baunir. Tekur hún þá lítinn disk og lætur á hann nokkrar skeiðar og litlar kettægjur á undirbolla, og færði ég Sigurði. Sigurður borðar þetta og biður mig að sækja meira. Þetta segi ég Kristrúnu, og svarar hún þá: "Guð hjálpi þessum manni, ég get það ekki." Þó lét hún enn nokkrar skeiðar á diskinn, en afsagði með öllu að láta meira kjöt. Þegar Sigurður sér, að ekkert fær hann kjötið, tekur hann baunadiskinn og stikar með hann fram í búr. Mér var nokkur forvitni að vita, hvern enda þetta baunamál fengi og gerði mér erindi í búrið. Situr þá Sigurður á búrkistunni hjá pottinum og er að kræla ketbita upp úr honum, en Kristrún stóð orðlaus yfir. Eftir þetta var henni mjög lítið um Sigurð, þó að hún talaði ekki margt um hann. En hún var fáorð og lagði ekki fólki til.

Kristrún hélt venjum sínum og sinnu fram í andlátið. Hún veiktist á jóladag veturinn 1924 og dó þann 29. desember. Eftir að ég kom að Kúskerpi í síðara skiptið, las ég alltaf húslestur og sat þá á stól innar en á miðju baðstofugólfi. Hafði það alltaf verið venja, að þar sæti sá, er las lesturinn. Daginn áður en Kristrún dó, biður hún mig að lesa húslestur með fyrra móti. Tek ég nú bækurnar og sezt á rúmstokkinn hjá henni og ætla að byrja að lesa. Biður hún mig þá heldur að sitja í mínu vana sæti, því að hún hafi ekki full not af lestrinum, nema hann sé lesinn þar.

Eftir að Kristrún var lögzt banaleguna, segir hún einhverju sinni við mig: "Ég ætla að biðja þig að gefa honum Manga fjóra ketbita." Mangi var fátækur barnamaður. Ég spurði hana, hvort hún vildi þá ekki hafa þá svolítið fleiri, ef hún gæfi honum á annað borð. Kristrún tók því fjarri. Við veltum þessu máli fyrir okkur góða stund, og fór svo að lokum, að hún féllst á að hafa bitana tíu, en ekki einum fleiri.

Henni þótti vænt um allar eigur sínar, kvikar og dauðar, en engum þeirra held ég að hún hafi unnað svo mjög sem kaffikönnunni og klukkunni. Könnuna hafði hún eignazt, þegar ég var lítill krakki. Aldrei hafði hún verið sett á eld eða heita vél, ekki einu sinni borin fram úr baðstofunni, meðan hellt var á hana. Kristrún bar ketilinn ævinlega inn á baðstofuborð, og þar hellti hún á könnuna. Þegar hún vildi halda heitu kaffi í könnunni, vafði hún hana inn í ullarstykki og stakk henni niður í rúmshornið sitt. Eftir öll þessi ár leit kannan út eins og ný. Áður en Kristrún dó, bað hún mig að láta könnuna standa á sínum stað, sem var efst á baðstofuborðinu, þangað til uppboð á eigum sínum yrði haldið. "Hvað verður nú um klukkuna mína?" segir hún svo. "Vilt þú ekki kaupa hana fyrir mig?" Lofaði ég henni því og keypti klukkuna á uppboðinu. – Síðar, þegar ég fór á sjúkrahúsið á Sauðárkróki, var haldið uppboð á munum mínum, og var þá klukkan seld. Bóndi nokkur í Blönduhlíð keypti klukkuna. Kom hann seint heim um kvöldið, og var kona hans sofnuð. Vaknar hún og fagnar bónda sínum og segir honum, að sig hafi dreymt Kristrúnu og var henni nokkuð niðri fyrir, en Kristrúnu hafði konan aldrei séð.


Framhald . . .

Til baka


web hostingdomain names
web designonline games


sqCLOUD3 sqCLOUD13