|
BORIÐ AF TÚNI
Á vorin, þegar tún hafði verið hreinsað, var allt afrak borið á bakinu inn í fjárhúsgarða. Afrakið var borið í húsin, þar sem ærnar voru hýstar á sumrin, og nokkru var brennt. Þetta var erfitt verk, ef afrakið var blautt.
Afrakið var borið í pokum eða kálfskinnsbuddum.
Jafnan voru allar gærur og húðir rakaðar á haustin og blásteinslitaðar. Stundum voru skinnin spýtt upp á vegg, en oftar breidd á prik og sköft og hengd upp á eldhúsbita og látin harðna þar. Síðan voru þau tekin og vafin hvert utan um annað og hengd í þar til gerða rólu. Skinn af vorlömbum voru stundum seld, en líka voru þau notuð í húfur, smokka og brjósthlífar. Kálfskinnin voru oftast rökuð eins og gærurnar, en stundum voru þau hert órökuð, og gerð úr þeim kálfskinnsbudda. Hún var þannig unnin, að sniðið var kringlótt stykki og haft fyrir botn. Þá voru sneiddir allir útnárar og skæklar af tveimur skinnum og þau saumuð við botninn, var loðnan látin snúa út, hálsinn niður, en rófurnar upp, og var ágætt að halda í þær. Alltaf var botninn, að minnsta kosti, saumaður með seymi. Seymið var tekið úr sinum innan af hrygg af nautgripum, þvegið og skafið mjög vel, og síðan þurrkað úti, þangað til það var orðið vel hart. Bezt var að geyma það nokkuð, áður en það var notað.
Buddurnar voru notaðar til að bera í þeim, svo sem hey að vetrinum, ösku og afrak af túninu.
Einhverju sinni var ég að bera af túninu ásamt Sigurði. Þurftum við að bera í stórum pokum neðst neðan af túni, og var bratt upp hólana. Eitt sinn, þegar ég lagði af stað með pokann minn, sagði ég við Sigurð: "Vertu nú búinn að gera vísu, þegar ég kem aftur." Sigurður lyfti á mig pokanum, því að mig brast afl til þess. Þegar ég var komin mikið af leið minni, missti ég pokann og kom honum ekki á bakið aftur og varð að draga hann. Er ég kom aftur, spurði ég Sigurð, hvað vísunni liði, þá segir hann:
Annað finn ei efni hér,
eikin mundarfrera,
gjör svo vel og greindu mér,
gekk þér vel að bera?
<
Ég svaraði:
Laufaver, því lýsi nú,
lítill gerist kraftur,
nær að vera þyrftir þú,
þegar ber ég aftur.
Við ortum mikið saman, en fátt var það víst geymslufé; enda flest gleymt.Þegar ég var á níunda ári, átti ég að fá að fara fram að Kotum, og ætlaði Kristrún með mér. Hugsaði ég sérstaklega til ömmu af þeim, er ég ætlaði að finna. Ég var í nýrri dúktreyju, og fyrir skömmu hafði vegurinn verið lagaður. Þá gerði ég þessa vísu, og er hún sú elzta, sem ég man af kveðskap mínum:
Fram að Kotum ferðast ég
að finna moturseyju.
Ætla að nota nýjan veg,
nú í snotri treyju.
HVIMLEIÐUR GESTUR
Einhverju sinni kom maður nokkur að Kúskerpi seint um kvöld og beiddist gistingar. Það orð lék á um mann þennan, að hann vætti rúm, þar sem hann gisti. Var Kristrúnu það ærið efni til þess að taka fálega beiðni hans, enda bað hún Ólaf að fylgja honum til næsta bæjar, því að dimmt var úti og hríðarveður. Ólafur kvað þegar kominn háttatíma og illt að vekja þar upp. Fékk maðurinn gistingu eftir nokkurt þref. Þegar Kristrún kom á fætur morguninn eftir, var fyrsta verk hennar að ganga að rúmi mannsins, og varð henni þá að orði: "Guð hjálpi mér, tómur er koppurinn."
Þessi vísa varð til þennan morgun:Ljótt er þetta lagabrot,
leggst á þungur dómur,
karlinn sjálfsagt kominn á flot,
koppurinn alveg tómur.
GRANNARÍGUR OG GRANNAKAUP
Milli Uppsala og Kúskerpis var mikill rígur, og kom það einkum af því, að beitilönd og engjar lágu saman. Stefán bóndi Sveinsson á Uppsölum hafði margt í högum, og vildi búpeningur leita í Kúskerpisland, því að þar var miklu grösugra, að minnsti kosti bithagi. Stefán hafði mikið álit á sjálfum sér, og var ekki örgrannt um, að hann léti á sér skilja, að hann væri í heldri manna tölu og mætti beita sér nokkuð við þá, er hann taldi standa sér neðar í mannfélagsstiganum. En hvað sem um það er, hef ég ekkert nema gott eitt af honum að segja, og reyndist hann mér og mínu fólki vel.
Það var haust eitt í vikunni fyrir göngur, að hirða átti upp hey af engjum á Kúskerpi. Voru sætin suður við merki milli bæjanna. Á Uppsölum átti líka að binda hey þennan dag, og var heyið sunnan við merkin.
Bindingsfólkið frá Kúskerpi flutti með sér reipi á folaldsmeri, en ég átti að fara á milli og koma með hestana, þegar búið væri að leggja á. Vorum við Ólafur að fást við það heima á hlaði. Sjáum við nú, .hvar Stefán á Uppsölum kemur með lest sína til fólks síns. Hann átti jafnan grimma hunda, og voru þeir í fylgd með honum að vanda. Þegar Stefán er kominn til bindingsfólksins, setur hann hundana á folaldshryssuna með reipunum, en hún var komin suður fyrir merkin. Hryssan rann sem hún framast mátti heim að Kúskerpi, en Stefán hleypti á eftir. Geystist hann heim í hlað til okkar Ólafs. Var nú ekki spurt um sakir, hófst með þeim grimm orðasenna og sparaði hvorugur öðrum hnífilyrðin. Kristrún hafði komið út, þegar húm heyrði hávaðann og stóð álengdar, en lagði ekki orð að. Allt í einu snarar Stefán sér af baki, veður að Ólafi, reiðir upp svipuna og gerir sig líklegan til að keyra hana í höfuðið á honum. Á sama augabragði þýtur Kristrún í fang Stefáni, grípur um .handleggi hans og segir: "Hafðu guð fyrir augum og gættu að sóma þínum, Stefán." Við þessi orð varð sem bændunum báðum féllust hendur, og mælti hvorugur orð frá vörum. Loks segir Stefán og hló við: "Rétt segir þú, kona. Það mundi lækka heiður Stefáns Sveinssonar að leggja hönd á Láfa á Sterti."
Ég held, að ekkert, sem fór á milli þeirra nágrannanna, hafi gert Ólafi jafn gramt í geði og þessi orð. Honum var fátt verra gert, en að heimili hans væri uppnefnt Stertur eða Kústertur, en það gerðu sumir.
Oft samdi þeim grönnum þó vel, ekki sízt, ef vín var á ferðum, því að þá var Ólafur meyr í skapi og mjúkur í lund.
Það var siður þeirra Kúskerpishjóna að ríða á aðrar kirkjur, sem kallað var, einu sinni á sumri, og þá vanalega vestur yfir Héraðsvötn. Eitt sumar var það, að þau riðu til Goðdalakirkju ásamt ýmsum fleiri, og var Stefán á Uppsölum þar á meðal.
Ólafur átti móskjóttan hest, fallegan og mjög fjörháan, en ekki að sama skapi vel taminn, og tók hann oft öll ráð af Ólafi. Var ekki fágætt, að Ólafur félli af baki á Skjóna, ef hann var við öl, enda var hann þá mjög laus í hnakk. Við Kristrúnu var Skjóni hins vegar ljúfur og þægur. Reið hún honum oft. Í kirkjuferð þessari reið Ólafur Móskjóna, en hafði annan hest með.
Um kvöldið kom Kristrún ein heim, hafði hún orðið samferða hinum kirkjugestunum úr Blönduhlíðinni yfir Héraðsvötnin, en Ólafi dvalizt eftir með Stefáni á Uppsölum.
Kristrúnu var þungt í skapi, en talaði fátt. Þegar allir voru háttaðir, kom Ólafur heim og var alldrukkinn. Hann var hruflaður í andliti og föt hans í óreiðu, en kátur var hann og fjörugur. Ólafur settist á rúmstokkinn hjá konu sinni og segir: "Nú er ég fullur, og nú er ég glaður." Kristrún blés við mæðilega og sagði, að auðséð væri, að ræða prestsins í dag hefði ekki haft mikil áhrif á hugarfar hans. Ólafur bað hana blessaða að minnast ekki á .ræðuna, úr henni myndi hann ekki stakt orð, en annað myndi hann vel, og það væri, að nú hefði hann selt Móskjóna og stórbóndinn á Uppsölum yrði næstur til þess að detta af honum. Kristrún settist upp í rúminu, tók í öxlina á bónda sínum og sagði: "Nú hefir Guð yfirgefið þig, Ólafur, og réttast væri, að ég gerði það líka."
Um þetta urðu nokkur orðaskipti, er lauk með því, að Ólafur fór grátandi í rúmið, en Kristrún fór þegar um nóttina að Uppsölum og sótti Móskjóna, og var ekki annað að sjá, en Ólafi líkaði það vel.