|
FRÁFÆRUR, HJÁSETA OG SKÓLAVIST
Fyrir og eftir fráfærur voru miklar annir á heimilinu, en leiðinlegasta verkið þótti mér að sitja lömbin. Á daginn voru þau höfð í höftum, en á kvöldin voru þau látin inn og tekin úr höftunum. Höftin voru úr togi og voru búin til á vetrum. Þau voru þannig gerð, að togið var kembt, síðan voru lagðar saman þrjár til fjórar kembur, snúið upp á þær, teygt úr þeim og þær síðan lagðar saman tvöfaldar, þá voru þær hnýttar saman, svo að úr varð haft. Þetta var leiðinleg meðferð á lömbunum, en ekki man ég eftir, að þau særðust, en þau voru afar móð og hrædd. Vanalega voru lömbin setin í viku, stundum skemur. Þótti ófært að reka lömb á fjall með jarminum, sem svo var kallað, því að þá urðu þau mjög rásgjörn og gátu hlaupið í ófærur.
Kvíarnar, þar sem ærnar voru mjólkaðar, voru rétt ofan við túnið. Þær voru hlaðnar úr torfi og grjóti. Efst á vegginn var lögð torfa, svo að þar varð grænn grasbekkur. Kvíarnar voru grafnar að hálfu í jörð niður. Dyr voru á kvíunum og yfir þeim tvær litlar spýtur með litlu millibili, og niður á milli þeirra var hurðinni smeygt.
Oft var erfitt að mjalta ærnar, einkum fyrst eftir fráfærur, þær létu illa sem kallað var. Alltaf var tvímjaltað. Í fyrra skiptið var ærin mjólkuð án þess að gengið væri nærri henni, og var sérhver ær merkt, jafnskjótt og hún hafði verið mjólkuð, með því að fingri var drepið niður í mjólkina og strokið yfir rófubeinið. Síðan var mjólkað aftur og þá hreytt vel úr hverri.
Ærin var mjólkuð á þann hátt, að tekið var með vinstri hendi utan um júgrið ofarlega, beygður fremsti köggull á þumalfingri hægri handar, speninn tekinn á milli hans og vísifingurs hægri handar og mjólkinni þrýst þannig úr spenanum niður í fötuna. Þetta var kallað að mjólka við nögl.
Stúlkurnar, sem mjólkuðu, voru vanalega í sérstökum fötum við það starf, strigapilsum, peysugörmum og kvíaleistum. Kvíaleistar voru afar stórir, prjónaðir úr togi, aldrei voru þeir þvegnir allt sumarið, og voru þeir orðnir sem hörð stígvél að haustinu. Innan undir kvíaleistunum voru stúlkur í sokkum og skóm, og var þægilegt að smeygja sér í leistana og úr þeim.
Ekki þótti gott að hýsa ær eftir fráfærur, þó voru þær hafðar inni frá klukkan eitt að nóttu til klukkan fimm að morgni. Erfitt var að fara á fætur svo snemma, en þar dugðu engin undanbrögð. Samt man ég ekki eftir, að ég sofnaði nokkru sinni, meðan ég sat yfir ánum, en venjulega sofnaði ég, meðan þær voru mjólkaðar. Ærnar voru alltaf reknar í kvíar klukkan níu kvelds og morgna. Oft var illt að átta sig á tímanum, því að hvorki voru þá úr á úlnlið né í vasa, en blessuð sólin sýndi, hvað tímanum leið, ef til hennar sást.
Ég vil nú lýsa að nokkru leið þeirri, sem ég rölti með rollur mínar árin, sem ég var smali og sat yfir ánum á Kúskerpi. Kvíarnar voru fyrir ofan túnið og þar fyrir ofan tvær brekkur, önnur kölluð Kvíahæð, en hin Brekkan. Þar fyrir ofan taka við breið, slétt mýrarsund, og eru efst í þeim illfærar keldur, sem á sumum stöðum eru öllum skepnum ófærar, eða svo var það þá. Þá taka við Stallar, grösugir, en brattir, og er kallað, að þar byrji fjallið. Ofan við Stallana er Grænhjalli, langt klettabelti, sem liggur út og suður. Eru sniðgötur upp hann á tveimur stöðum. Þar fyrir ofan er Háihjalli. Þar er sérstaklega fagurt útsýni. Háihjallinn er klettastallur, hár og fallegur, og framan í honum er margbreytt grasalíf og mikill ilmur úr jörðu. Nokkru ofar er Votaberg, langt, hátt klettabelti, og spretta margar litlar lækjarsytrur fram úr berginu. Þá taka við Grænur, brött brekka, vaxin þéttu valllendisgrasi. Þegar upp fyrir hana kemur, er heiðarbrúninni náð. Heiðin er rennislétt og grasivaxin, nema þar sem skriður hafa fallið úr Söndunum, sem eru brattir og háir, gróðurlausir að kalla og teygjast upp að klettabeltunum efst í fjallinu. Á þessum slóðum sat ég yfir ánum.
Fyrst þegar ég byrjaði, var Guðrún Oddsdóttir látin vera með mér til að setja mig inn í embættið. Hún var öllu slíku vön og treystandi til að leysa það vel af höndum. Guðrún varaði mig við því að missa nokkurn tíma auga af ánum, en varast þó að halda þeim í þröngum hnapp, þær þyrftu að hafa sem mest frjálsræði, þá mjólkuðu þær bezt. Hún sagði ennfremur, að kindur væru mjög gefnar fyrir söng og kveðskap, skyldi ég því gera sem mest af slíku, og myndu ærnar spekjast við það. Þó að ótrúlegt kunni að virðast, held ég að þetta sé ekki með öllu tilhæfulaust, að minnsta kosti reyndist mér það svo. Guðrún sagði, að bezt væri fyrir mig að syngja eitthvað úr Passíusálmunum, því að þá kæmi ekkert illt nærri mér eða rollunum. Allt í einu kyrjaði hún upp og söng hárri, en ekki að sama skapi skærri röddu erindi, sem ég taldi víst að væri úr Passíusálmunum. Það var svona:
Framandi kom ég fyrst að Grund,
fallegur var sá staður.
Þórarinn bar mjög þýða lund,
það var blessaður maður.
Hann gaf mér hveitibrauð,
hangikjöt líka af sauð,
setti á sessu ver,
svona lét hann að mér.
Líkaminn gjörðist glaður.
Ég kannaðist ekkert við þennan Þórarin úr Passíusálmunum, var þó hálfrög við að spyrja Guðrúnu nánar um þetta, því að hún gat verið viðskotaill, ef svo lá á henni. Samt stundi ég því upp, hvort þessi Þórarinn hefði verið einn af lærisveinunum. Guðrún leit til mín með ógurlegri fyrirlitningu, ég hafði þá fært mig úr nálægð hennar, þótti það vissara. Eftir nokkra þögn segir hún: "Alltaf ertu jafn vitlaus, greyið, og þar að auki guðlastarðu."
Þegar dimm þoka var að morgni, voru ærnar hafðar á eyrunum neðan við bæinn. Eyrarnar liggja með Héraðsvötnum upp að engjum.
Rétt neðan við Kúskerpistún er melur, kenndur við bæinn og kallaður Kúskerpismelur. Um hann liggur þjóðvegurinn, og er þar hinn bezti skeiðvöllur, enda óspart notaður á þeim árum. Margan fallegan sprett mátti sjá þar. Mér eru þrír hestar sérstaklega minnisstæðir frá þeim árum. Voru þeir allir skeiðhestar. Einn þeirra var Fífill, bleikur að lit, hann átti Magnús Gíslason, hreppstjóri á Frostastöðum.
Það var venja manna þeirra, sem komu úr lamba- og geldfjárrekstrum á vorin, að ríða léttan á heimleiðinni. Í þeim ferðum sá ég Fífil taka drýgsta og fegursta spretti. Annar var Reykur Þorkels Pálssonar bónda í Flatatungu, grár að lit. Þriðji brúnn hestur, sem Árni nokkur Waage átti. Mig minnir, að Árni þessi væri úr Eyjafirði. Ég hefi aldrei séð meiri ferð á hesti. Hann var ekki einungis fljótur, heldur hljóp hann svo .myndarlega, tók fæturna mjög hátt, hrifsaði langt og virtist þá teygjast allur án þess að lækka höfuðið. Ég hafði snemma auga fyrir hesta, en ekki er það þó svo að skilja, að ég sé lagin hestakona, því að ég hefi fengið orð fyrir að gera alla hesta lata.
Eitt sumarið, sem ég sat hjá ánum, kom sú frétt, að heimurinn ætti að farast tiltekinn dag, skömmu eftir fráfærur, að mig minnir. Hjá húsbændum mínum var kaupamaður, roskinn bóndi úr sveitinni, bað hann að leyfa sér að fara heim kvöldið áður en heimurinn átti að, farast, sagðist hann kunna betur við að vera heima, ef einhver ósköp kæmu fyrir. Hann fékk leyfið og fór. Mér var ekki rótt í skapi og stundi því upp við Kristrúnu, hvort ég mætti ekki hafa ærnar niðri á eyrum þennan dag, svo að ég gæti verið nærri fólkinu. Hún neitaði fastlega, sagði, að líklega yrði ekkert úr þessum spádómi, enda væri ekkert verra fyrir mig að deyja uppi á heiði en annars staðar. Ég skyldi biðja Guð að vera hjá mér og fyrirgefa mér syndir mínar, sem voru margar og miklar.
Ég fór auðvitað með rollurnar, eins og vant var, og er mér áhætt að fullyrða, að daginn þann fór ég að ráðum Kristrúnar, því að ég bað og bað til Guðs um varðveizlu og syndafyrirgefningu, bað hann að fyrirgefa, hvað ég hefði stundum verið hugsunarlaus, hláturmild og hefði oft gleymt að lesa bænirnar mínar, áður en ég fór að sofa, sérstaklega eftir fráfærurnar. Ég fann frið og gleði við bænir mínar, traust mitt á Guði bjargaði öllu við.
Sjaldan kom það fyrir, að ég týndi af ánum. Þó er mér minnisstæður einn dagur í því sambandi. Ég týndi þremur ám og leitaði fram á nótt, en fann ekkert. Sjálfsagt hefir verið erfitt að vekja mig morguninn eftir, því að ég vaknaði fyrst við það, að húsbóndinn sló mig, og sat ég þá framan á rúminu. Svo illa tókst til, að höggið kom á nefið, og fékk ég fossandi blóðnasir. Rölti ég svo skælandi til ánna. Annars held ég, að táralind mín hafi að mestu þorrið á þessum árum, því að í seinni tíð hefir mér ekki verið létt um grát.
Mér var þungt í huga þennan dag, fannst ég yfirgefin af Guði og mönnum. Loks datt mér í hug að reyna að strjúka heim til pabba og mömmu. Ég vildi samt ekki yfirgefa ærnar og hugsaði mér að reka þær í kvíarnar eins og vant var og fara síðan, því að enginn skipti sér af mér, meðan mjaltað var.
Er ég hafði kvíað ærnar, fór ég inn í fjárhús og klæddi mig þar úr yzta skrúðanum, svo að ég yrði léttari á hlaupunum. Síðan hljóp ég sem fætur toguðu suður allar mýrar. Ég vissi, að ef ég kæmist að Silfrastöðum, væri mér borgið, því að húsmóðurinni þar, Kristínu Árnadóttur, treysti ég til að hjálpa mér heim. Þegar leið mín að Silfrastöðum var tæplega hálfnuð, heyri ég kallað að baki mér, lít ég við og sé þar koma ríðandi mann á eftir mér. Þekkti ég bæði mann og hest og skildi þegar, að þessi leikur var tapaður. Engu að síður hljóp ég sem áður, en þetta var ójafn leikur, og er því ekki að lokum að spyrja. Hesturinn hafði verið við, því að bundið var af túninu þennan dag. Enginn var vondur við mig, þegar heim kom, og ekkert var um þetta talað. En sársauka mínum kýs ég ekki að lýsa. Ég vil ekki kasta skugga á minningu fósturforeldra minna, því að þau voru bæði mætar manneskjur og létu sér annt um mig alla æfi. En af þessu má nokkuð marka, hver voru kjör vandalausra barna á þeim árum.
Einhvern veginn fréttist þessi flóttasaga til foreldra minna, og pabbi minn kom og talaði við hjónin. Ekki vissi ég, hvað talað var um þetta, en víst hafa þau lofað að breyta til, ég varð kyrr, og var ekki barin oft eftir það, svo ég muni.
Ekki man ég, hve gömul ég var, er ég fór fyrst að sitja hjá ánum, líklega á níunda eða tíunda árinu. Held ég, að nútíðarfólk geti vart trúað, hvernig búningur minn var í hjásetunni. Ég var í pilsgopa, sem saumaður var úr strigapoka, ekkert hald var á því, en dregið saman með snæri um mittið. Að ofan var ég í gamalli reiðtreyju af Kristrúnu, sem var stór kona, en ég lítil eftir aldri. Þar utan yfir kom svo treyja af gríðarstórum karlmanni, og náði hún niður á hæla. Á höfðinu hafði ég gamlan reiðhatt, en kollinn vantaði að mestu. Þá var fótabúnaðurinn ekki síðri. Allir skór til sumarsins voru gerðir fyrir fráfærur, var það oft stór kippa, sem hengd var upp í eldhúsi og tekið af jafnóðum og nota þurfti. Flestir gengu á leðurskóm, venjulega voru þeir bryddir, og með hæl- og ristarböndum. Ég sleit miklu af skóm, og oft kom það fyrir, að ég var með þrenna skó í einu, voru þeir yztu þá að jafnaði af Ólafi. Allt voru þetta garmar, og sagði Kristrún, að gott væri að láta mig slíta þeim út, þegar ekki þótti borga sig að bæta þá handa fullorðna fólkinu. Það mæddi á mergðinni, og ekki man ég eftir, að ég gengi á berum fótum, en þungir voru allir þessir garmar.
Þó að ég væri svo búin í hjásetunni, átti ég góð og hlý föt, ullarnærföt og vaðmálskjóla, en sparsemin var mikil á þessum sviðum sem öðrum.
Í hjásetunni hafði ég með mér nestisbita handa mér og hundinum. Bar ég nestið í peysuermi, sem bundin var yfir aðra öxlina. Handa mér var nestið tíðum brauðbiti og skánir ofan af flóaðri mjólk, en súrar garnir og kjötbein handa hundinum.
Þegar leið á sumarið, urðu ærnar spakari, og var þá hætt að sitja hjá þeim, en þeim var smalað kvölds og morgna. Þá var kúnum hleypt á túnið, og átti ég þá að gæta heyjanna fyrir þeim. Jafnframt var ég látin tína saman allar ljámýs, sem á túninu voru, og bera þær á hól heima við bæinn, þurrka þær og flytja síðan inn í eldiviðarkofa, sem var sunnan við bæinn, því að öllu var brennt, sem brenna mátti, og ekki var til annars nýtt.
Skólavist mín hefir verið næsta fátækleg um dagana, en þó finnst mér, að ég gæti teygt nokkuð úr henni, ef ég tel hjásetuna með. Þar hlýddi ég að vísu ekki á mál lærðra manna né naut tilsagnar þeirra, en skólastofan var rúmur salur blárra fjalla og kennarinn önn og ábyrgð daglegs lífs. Mér leiddist aldrei að sitja hjá ánum, nema þegar þokan byrgði sýn, því að þá var ég hrædd um, að ég týndi af ánum. Mér hefur jafnan þótt vænt um skepnur, og mér fannst rollurnar vera vinir mínir og félagar, enda voru þær gæfar við mig. Oft kvað ég og söng eins og hljóðin leyfðu, og fjallið og klettarnir tóku undir. Þá var það oft, að ærnar smáfærðu sig nær mér og lögðust svo umhverfis mig. Þetta voru góðar stundir. Stundum var þá kalt og hráslagalegt, en það gleymdist furðufljótt.
Einn dagur er mér sérstaklega minnisstæður. Ég átti að hafa með mér í hjásetuna hvolpanga, er mér þótti mjög vænt um. Hvolpurinn var óþægur og hljóp í kindurnar og elti þær, ef hann komst í færi. Hafði ég hann því í bandi, og átti hann að temja sér betri siði undir minni stjórn. Fyrir fráfærurnar hafði verið smíðaður handa mér trépískur með látúnsplötu í endanum. Var ég æði maskin að eiga slíkan kjörgrip. Er ég var komin á vanastöðvar mínar áðurgreindan dag, dró ég upp blýant og blað og tók að æfa mig að skrifa, því að það vildi ég læra vel og notaði til þess hverja stund, sem ég mátti. Settist ég nú við skriftir mínar og gleymdi bæði ánum og hvolpinum, en brátt var ég minnt átakanlega á hvort tveggja, því að héppi þeyttist með allar ærnar fram hjá mér, og linnti ekki ferðinni fyrr en heima við bæ. Ég brá skjótt við, fleygði frá mér ritfærunum og hljóp sem fætur toguðu á eftir hjörð minni. Svo reið var ég við hvolpinn, að ég hugsaði mér að láta hann kenna svipunnar duglega, er ég næði honum. Þegar ég var komin heim undir bæ, kemur seppi á móti mér, harla hróðugur yfir þrekvirkinu og stekkur til mín með miklum látum. Ég var ekki sein að slá til hans af öllu afli, en seppi litli var liðugur og skaut sér undan högginu, en svipan hvein við stein og hrökk í tvo hluta. Á sömu stundu rann mér öll reiði, ég horfði tárvotum augum á svipubrotin og hvolpinn, sem stóð álengdar, sneyptur, hræddur og hissa. Ég launaði honum vináttuna með því að berja hann, og mér fannst ég vera stórsyndari fyrir Guði og mönnum. Bað ég Guð af öllu hjarta að fyrirgefa mér og láta ekki slíkt ódæði koma fyrir aftur.
Þegar ég fór frá foreldrum mínum, var ég orðin nokkurn veginn læs og hafði lesið Mjallhvít og Grýlu eftir Jón Mýrdal. Var ég hrifin af báðum og vildi helzt alltaf vera að lesa. Er ég kom að Kúskerpi, var mér ætlaður einn tími á dag til að æfa mig í lestri. En þar var hvorki Mjallhvít né Grýla talin sæmileg bók. Nú skil ég, að fósturforeldrar mínir höfðu heill mína í huga, er þau völdu mér námsbækurnar, þótt mér væri það torskilið á þeim árum. Ég var látin lesa Vigfúsarhugvekjur. Með því var tvennt unnið: Ég vandist við að lesa gamla stílinn og það, sem mest var um vert, þetta var Guðs orð. En mér leiddist lesturinn, allur áhugi hvarf mér, og ég varð sljó og átakalin við hugvekjurnar. Oft hætti mér við að nefna frelsara í staðinn fyrir freistara, og fékk ég þá vanalega kinnhest. Það var mikið talað um freistarann og vélabrögð hans á Kúskerpi, og reiði Guðs var tjáð og túlkuð, en minna rætt um kærleik hans.
Daglega heyrði ég um það talað, að erfitt mundi að kenna mér, og lagði ég fullan trúnað á það.
Ég mun hafa verið á níunda árinu, er ég fór að læra biblíusögurnar og kverið. Til þess hafði ég. einn tíma á dag, og lærði sinn daginn í hvorri bók. Las ég svo upp á morgnana, áður en ég fór á fætur.
Vanalega var ég látin vera frammi í skála, meðan ég lærði, því að þar var ekkert til að glepja fyrir. Þar var oft kalt, en ég fann ekki svo mikið til þess, því að ég herti mig og réri í ákafa og þuldi upphátt, lærði allt í þulu, og mátti ekki muna einu orði frá því, sem í bókinni stóð. Upphaf á hverri grein varð ég að muna.
Ég lærði kver Helga Hálfdanarsonar. Ekki get ég sagt, að mér þætti skemmtilegt að læra það, en mér þótti það heldur ekki leiðinlegt. Biblíusögurnar þótti mér gaman að læra, enda var ég fljót að því.
Þegar ég var á tólfta ári, var mér komið fyrir á næsta bæ til að læra að skrifa og reikna, því að þá var það talið sjálfsagt, að tólf ára börn gengju undir próf. Þar voru nokkur börn saman komin til að læra. Við vorum þrjú á líkum aldri, Sigurbjörg Björnsdóttir, sem nú er húsfreyja í Deildartungu, Árni Hallgrímsson, ritstjóri Iðunnar, og ég. Þarna var ég í mánuð og undi mér ágætlega. Allir voru góðir við mig, og kennarinn hældi okkur fyrir að við værum dugleg að læra. Krakkarnir fóru í ýmsa leiki, en ég hafði verið eina barnið á Kúskerpi og kunni tæpast að leika mér. Varð ég því sjaldnar þátttakandi í leikjunum en ella mundi, þó að mig langaði til að fylgjast með.
Þegar ég var tólf ára, gekk ég undir próf. Mikið kveið ég fyrir þeim degi, því að ég þóttist fullviss, að ég yrði lægst af öllum börnunum. Því meiri varð undrun mín, er sóknarpresturinn sagði að prófinu loknu, að ég væri hæst af börnunum og ætti lof skilið. Gat ég vart trúað, að mér hefði ekki misheyrzt. En ég gladdist hjartanlega og mér óx lífsþróttur og sjálfstraust, og ég fann, að ég mundi máske ekki standa að baki annarra barna og lofaði Guð fyrir, að hann .hafði hjálpað mér gegnum prófið.
Ég var ekki gömul, er ég tók að hlusta eftir stuðlum og rími. Annars heyrði ég aldrei annað í bundnu máli en versin, sem ég var látin læra og lesa á kvöldin, og svo rímurnar, sem kveðnar voru á kvöldvökunum. Til þeirra þótti mér mikið koma, sérstaklega ef þær voru með dýrum háttum. Úr Númarímum lærði ég mikið og hafði þær oft yfir. Ef ég heyrði fallega vísu, var ég fljót að læra hana og skrifaði margar upp.
Einhvern veginn hafði þessi rímnakveðskapur þau áhrif á mig, að hugsanir mínar urðu tíðum að ljóði, vísur komu af sjálfu sér og jafnvel heil kvæði. En ég fór dult með þennan skáldskap minn og þorði engum að trúa fyrir grillum mínum, því að talið var, að skáld og hagyrðingar væru mæðugarmar, sem aldrei ynnu fyrir sér.
Eftir að ég fór að geta klórað nafnið mitt, tíndi ég saman öll gömul umslög, sem ég náði í, og skrifaði á þau. Á eitt þeirra skrifaði ég vísu, er ég hafði gert, en Kristrún fann blaðið og brenndi það, en ég fékk duglega ráðningu.
Eitt sinn gaf Kristrún mér eina sjóvettlinga, og mátti ég kaupa fyrir þá það, sem ég kysi helzt. Ég bað um pappír og blýant og fékk það, en Kristrúnu varð að orði: "Ekki verður þessum aumingja bjargað."
Ég hafði nú fengið reynslu af því, að ekki var vert að flíka því, sem ég skrifaði niður, en uppi í fjallinu, hjá ánum og hvolpinum, átti ég félaga, sem ekki sögðu frá. Ég tók því með mér í hjásetuna blýantinn, pappírinn, afklippur af gömlum bréfum og notuð umslög og neytti þar færisins að pára niður það, sem mig lysti. Ég naut náttúrufegurðarinnar, og ég heyrði ljóð og lög í lækjarniðnum og fuglakliðnum. Mig dreymdi vökudrauma, mig langaði til að fara í skóla og læra, sérstaklega langaði mig til að læra landafræði, en þó helzt um Ísland. Hér orti ég ótal vísur. Þær .hafa að vísu ekki verið mikils virði, enda festar gleymdar. En ég skrifaði þær allar niður, mér til skemmtunar. Ekki þorði ég þó að koma með þessi plögg mín heim né láta nokkurn sjá þau. Tók ég því það ráð að grafa þau undir steinum í hjásetulandinu. Síðan er hálf öld liðin, og hefir hún án efa þrýst bernskuvísunum mínum og kvæðunum enn fastar í fang heiðarinnar minnar, sem mun geyma þau trúlega.
Eitt sinn, er ég var að þessu starfi, gerði ég þessa stöku:
Frelsisstundir fáar á,
fargi undir hörðu,
gröm í lund með grátna brá
gref mitt pund í jörðu.