|
TRÚRÆKNI, BÆKUR OG FORNESKJA
Trúrækni var mikil á Kúskerpi. Húslestrar voru lesnir á hverjum sunnudegi allt árið, og frá veturnóttum til þorrakomu voru þeir lesnir á hverju kvöldi, síðan var lesið að deginum. Kvöldlestrabók Péturs biskups var lesin fram að föstu, en þá tóku við Vigfúsarhugvekjur og Passíusálmarnir. Síðan voru fluttar vorhugvekjur.
Tvær hillur voru yfir rúmi húsbóndans, á annarri þeirra voru guðsorðabækur, en á hinni sögur og rímur. Ég var látin læra marga af Passíusálmunum, og varð mér það einu sinni á, að ég lét þá á sögubókahilluna. Þótti þetta hin versta óhæfa, og bættist drjúgum á syndabyrði mína.
Á vetrum voru lesnar sögur og kveðnar rímur, var það góð skemmtun. Íslendingasögur, riddarasögur og Noregskonungasögur voru dáðar af öllum nema húsmóðurinni, henni var meinilla við þær og sagði, að þær ættu ekki að vera lesnar á kristnu heimili, þjóðsögurnar fyrirbauð hún að lesa, sagði að af þeim stafaði óhamingja. Yfir föstuna mátti aldrei lesa bardagasögur eða rímur. Þá voru lesnar bækur Torfhildar Hólm, Draupnir, Brynjólfur biskup og Elding, en kveðnar voru Bertholdsrímur og Jóhönnuraunir. Áttu allir að vera alvörugefnir yfir föstutímann.
Meðal annarra bóka, sem ég minntist frá þessum árum, eru Snót og Alþýðubók Þórarins, og langaði mig mikið til að lesa í þeim, en þar var Kristrún á annarri skoðun og taldi, að lestur þeirra mundi ekki glæða áhuga minn á vinnunni. Hallgrímskver mætti ég hins vegar líta í, ef ég ætti frístund.
Einn veturinn var tekinn maður til að kenna dóttur þeirra hjóna. Auk annars, sem hún lærði, var danska og landafræði. Mikið leit ég upp til þessa dásamlega manns, sem kunni öll þessi kynstur, og ég er viss um, að oft hefir húsmóðir mín haft ástæðu til að minna mig á verk mitt, því að ég hlustaði sem ég frekast gat, þegar hann talaði eða sagði frá. Eitt sinn, meðan kennari þessi dvaldi á Kúskerpi, fóru allir til kirkju, nema ég og gamall maður. Kennslubækurnar lágu þá á borðinu, og náði ég í landafræðina og sat yfir henni, þegar fólkið kom heim. Þá varð húsmóðurinni að orði: "Guð hjálpi þessu aumingja barni, situr hún ekki með landafræðina. En hvar hefir þú Hallgrímskverið?"
Kirkja var sótt mjög reglulega, og var sjaldan svo vont veður, að kirkjuferð félli niður. Eftir að sparifötin höfðu verið borin inn, mátti enginn tala ógætilega og helzt ekki hlæja. Ekki máttu hundar vera inni í baðstofunni, eftir að kirkjufötin voru borin inn, enda vissu þeir vanalega hvað við átti, því að þeir löbbuðu lúpulegir fram, þegar þeir sáu fötin, svo vanir voru þeir þessu.
Ávallt var lesin ferðabæn, þegar farið var burt af heimilinu, tóku karlmenn þá ofan höfuðfötin. Bænin var svona:
"Guð, himneski faðir, blessaðu þennan dag og reisu mína, gefðu, að ég mæti góðum mönnum og gleðji mig við þitt blessaða orð. Bænheyr það í Jesú nafni. Amen."
Síðan var lesið Faðirvor, og allir signdu sig og yfir makka hestsins, ef ríðandi var farið, að því loknu bauð hver öðrum góðar stundir.
Aldrei var gengið svo frá gripahúsi að kvöldi, að ekki væri signt fyrir dyrnar og fyrir bæjardyrnar, þegar lokað var. Þegar Kristrún gerði skyr, las hún ætíð eitthvað um leið og hún hellti þéttanum út í mjólkina, en aldrei gat ég heyrt, hvað það var.
Fyrsta veturinn, sem ég var á Kúskerpi, fékk ég að fara heim til foreldra minna og dvelja þar nokkurn hluta vetrar. Þegar leið að því, að ég skyldi hverfa aftur að Kúskerpi, fór ég að rifja upp fyrir mér bænirnar, sem þar voru lesnar yfir borðum. Hafði ég þá gleymt annarri og vissi fullvel, að ég yrði sneypt, ef bænin væri mér ekki tiltæk við matborðið. Ég leitaði því til ömmu og tjáði henni vandræði mín, og leysti hún þau að vanda. Amma kunni feikimargar bænir og vers. Kenndi hún okkur krökkunum þau og innrætti okkur trúna á kærleik Guðs. Margar stundir frá þeim tíma eru mér hjartfólgnar, og löngum hafa orðin hennar ömmu komið mér í hug, ef í móti hefur blásið, og minnt mig á föðurinn algóða, sem alltaf mátti hverfa til. Amma kenndi mér aðra borðbæn en lesin var á Kúskerpi, og þótti mér hún miklu betri en sú, er ég gleymdi. Engu að síður bjóst ég við, að mér yrði bannað að lesa hana, er heim kæmi til fósturforeldranna, og sú varð líka raunin á. Skömmu eftir að heim kom, þótti Kristrúnu varlegra að grennslast eftir því, hvort ég hefði ekki týnt Guðs orði því og versum, er ég hafði lært þar, og var ég látin hafa þau yfir. Kom þá í ljós, að ný borðbæn bærðist á vörum mínum, og var mér þegar bannað að lesa hana, en kennd hin aftur.
Undarlegt þótti mér, að mér skyldi ekki leyfast að lesa bænir þær, er amma kenndi mér. En ég fann vel, að á Kúskerpi þóttu þær ekki eins góðar og heimabænirnar þar. Þrátt fyrir það mundi ég vel margt af því, sem amma hafði kennt mér, enda var allt, sem ég lærði hjá henni, tengt minningum um ástúð og móðurlega hlýju.
Mikill vandi var að vera í fjósinu um það leyti, sem kýrnar báru. Þegar burðartími þeirra nálgaðist, mátti raunar enginn annar en þeir, sem gerðu í fjósinu, koma nálægt kúnum, því að Kristrún taldi, að við það kæmust þær í geðshræringu, og gæti það valdið því, að þær bæru fyrir tímann.
Þegar kýrnar tóku kálfsóttina, signdi Kristrún yfir þær og básinn og fór úr fjósinu, en þó ekki lengra en út fyrir innstu hurðina, og gægðist inn um gat, sem til þess var gert. Ef allt gekk vel, var aldrei komið inn í fjósið, fyrr en kálfurinn var fæddur. Var þá kýrin mjólkuð, áður en hún heildist, og var það kallað að mjólka milli kálfs og hilda. Kristrún taldi enga mjólk jafnholla sem þessa, og drukku þau hjónin af henni volgri, hvert skipti sem kýr bar.
Þegar kýrin var orðin heil, voru hildirnar teknar og leitað í þeim að kálfssugunni, og er hún fannst, var hún tekin og látin í básinn undir kúnni. Síðan voru hildirnar teknar og bornar út og upp á fjósið og breiddar yfir bás nýbærunnar. Þetta mátti þó ekki gera eftir dagsetur, og þurfti því stundum að geyma hildirnar til næsta dags í fjósinu.
Á öllum hurðum fyrir gripahúsum voru tjönukrossar. Minnist ég þess, að.haust eitt var rifið ofan af kofa, sem tryppi og folöld voru hýst í á vetrum. Dyrnar á kofa þessum höfðu verið .mjög lágar, en voru nú hækkaðar og sett ný hurð fyrir. Þegar kom fram. á vetur og tryppi skyldu látin í kofann, kom í ljós, að enginn var krossinn á hurðinni, en tjara ekki til á bænum. Kristrún fyrirbauð að láta nokkra lifandi skepnu í kofann, fyrr en búið væri að lagfæra þetta. Var nú sent til næstu bæja að afla tjöru, og er hún hafði fengizt og krossinn var kominn á hurðina, voru engin vandkvæði á því að hýsa skepnur í kofanum.
Þá var enn eitt, sem mikill átrúnaður var á, en það var fékvörn. Hún er í kindamör, lítill, brjóskkenndur biti, sem er laus í mörnum. Er ekki algengt, að því er ég held, að fékvörn finnist. Kristrún og Ólafur trúðu því, að ef fékvörn væri étin volg úr kindinni, yrði sá, er það gerði, mjög heppinn með fé sitt. Þau hjón sögðust bæði hafa étið fékvarnir.
Þegar taðan var bundin inn á sumrin, voru ævinlega látnir tveir gamlir og blásnir hrosshausar í hana og blágrýtissteinn, og átti þetta að koma í veg fyrir; að taðan hitnaði. Steinn þessi var hnöttóttur, blágrár á lit, mjúkur og hrufulaus.
Mjög var Kristrún aðgætin um veðurfar og tók mark á mörgu, er. nú þætti lítils um vert. Þegar kaffi var malað og mikið tolldi við kvarnarskúffuna á eftir, vissi það á rigningu. Stundum var sólskin og heiðríkja í kaffipokanum, þegar hellt var á könnuna, en það voru bólur með alls konar litum. Ef mikið ólgaði í grautarpotti, sem sauð í, vissi það á storm. Ef pottur yfir eldi varð hvítur að neðan, var kalt og bjart veður í vændum. Ef gjall var mikið í öskunni, var frost í nánd. Ef garnagaul heyrðist í hundi, var vont veður í aðsigi. Ef útilykt var mikil af hundi, var von veðrabrigða. Ef köttur fór með löpp upp fyrir eyra; þegar hann, þvoði sér,.vissi það á gott veður. Ef köttur hnipraði sig niður, var víst, að veður legðist í þá átt, sem afturendi. kattarins vissi í.
Ef hræringur flaut í skálinni, var úrfellisvon eða barn í vændum hjá þeim, sem át.
Ef dökkir blettir sáust á hnífsblaði, var eldur uppi eða að því komið.
Ef baðstofuhurðin var stirð og féll illa að stöfum, var úrfellisvon. Sama máli gegndi um þvottasnúruna, ef hún strengdist af sjálfu sér.
Ef hlandið úr kvíaánum var rauðleitt, vissi það á sólskin, ef kindur stönguðust mikið, var stormur í aðsigi.
Ef heyrðist í veggjatrítlu, var illt í vændum, jafnvel feigð einhvers á heimilinu.
Ef hátt lét í straumnið Héraðsvatna, var einhvers staðar maður að drukkna í þeim. Ef stjörnuhrap sást, dó einhver maður í þeirri átt, sem stjarnan féll. Ef eldiviðarhlaði féll, vissi það á mikil efnaleg óhöpp á.heimilinu. Ef hrútur, sem nota átti við ærnar, drapst fyrri hluta vetrar, átti eigandi hans að missa sex ær fyrir vetrarlok.
Líknabelgur úr kýrhildum var blásinn upp, hengdur inn í baðstofu og hafður fyrir veðurvita. Þegar belgurinn var linur, var logn í vændum, en stormur, ef hann harðnaði.
Á föstudaginn langa þvoðu allir sér um höfuðið, og ef einhver af heimilisfólkinu varð útundan, taldi. Kristrún það boða honum eða henni mikla mæðu. Þessi föstudagsþvottur var eitt með því versta, sem fyrir mig kom. Fólkið átti að þvo sér úr gömlu hlandi, sem safnað var yfir veturinn í stóra ámu. Áður en tekið var af hlandinu, voru þrír glóðarmolar, vel lifandi, látnir í það, og átti það að drepa allt óheilnæmt, sem í því kynni að vera. Lyktin af þessu var ekki sem bezt, en hún var þó ekkert á við sviðan, sem maður fékk í augu og nef. Hlandið var vanalega hitað lítið eitt, síðan var köldu vatni hellt yfir höfuðið á eftir. Þessi athöfn fór fram í fjósinu. Þetta var í sambandi við trúarlífið, einhvers konar meinlætalifnaður, að ég held.
Hlandið var.einnig notað til lyfjagerðar. Næturgögn öll voru úr tré og kölluð koppar. Þeir vorn misjafnir að stærð og snoturleik. Þar sem tveir sváfu í sama rúmi, voru koppar stórir , en lítill, þar sem einn svaf. Koppur húsbónda var málaður rauður, og var honum jafnan hvolft á daginn á hillu fremst í baðstofunni. Alltaf voru þeir þvegnir á morgnana, en í eldhúsinu var þó einn, sem aldrei var þveginn. Þótti mikils vert, að sem mest safnaðist í hann af hlandsteini. Það var ómissandi húsmeðal, sem átti við öllum hugsanlegum kvillum. Ef einhvers staðar bólgnaði eitill eða fólk fékk þraut í útlimi, var hlandsteinninn borinn á. Fólkinu fannst sér batna, og þessi lækning kostaði ekkert.
Við handadofa þótti einnig ágætt að þvo sér úr nýpissuðu hlandi, og.sprungur í höndum greru fljótt, ef nógu oft var þvegið. Hendurnar urðu mjúkar og liðugar. Fyrir kom einnig, að augu voru þvegin úr volgu hlandi og þótti happadrjúgt. Sokkar og vettlingar voru þvegnir úr því nýju, en nærföt og yfirleitt allur annar þvottur var þveginn úr stæku hlandi. Þá var því hellt saman. við sjóðandi vatn án þess að hita það.
Því var.almennt trúað í Blönduhlíð, að Skotta fylgdi Kúskerpisfólki, sérstaklega Kristrúnu og hennar ætt, og af því að ég var mikið í ætt við hana, var ég nokkurn veginn viss um, að hún mundi vera mér fylgispök, ekki síður en öðrum og þótti það afleitt. Sigurður, sem fyrr er nefndur, þóttist sjá Skottu í björtu sem dimmu og var óspar að tala um hana og háttalag hennar, en við fátt var Kristrúnu jafn illa. Oft sagði Sigurður: "Það eru pilsaköst í þeirri skottóttu núna, það liggur vel á þeirri skottóttu núna." Hann sagði, að Skotta héldi sig mest í eldhúsinu og helzt í horninu hjá kvörninni. Aldrei varð ég svo fræg að sjá hana, og væri þó synd að segja, að ég liti ekki eftir henni, því að ég var ákaflega myrkfælin, og átti von á, að hún væri víða á ferð. Eitt sinn var.það þó um vor, er ég vakti yfir túninu, að einkennilegt atvik kom fyrir mig.
Það var seinni hluta nætur, ein þessara yndislegu vornótta, sem engin orð geta lýst. Ég hafði rekið frá vellinum, eins og ég gerði vanalega undir fótaferðartíma. Þegar ég kom niður undir túnið, sé ég stúlku koma utan tröðina, sem lá heim að bænum, hún var svartklædd, berhöfðuð, há og grönn. Mér datt Skotta í hug, en henni hafði verið lýst á annan veg. Hún átti að vera lítil, stutt og digur, í mórauðum fötum, en þessi stúlka var að öllu leyti, sem séð varð, þvert á móti. Ég sá stúlku þessa hverfa heim að bænum og bjóst við að hitta hana á hlaðinu, eða þá að hún færi upp á glugga, ef allt væri með felldu. Þegar ég kom heim, var þar enginn fyrir, og hélt ég þá, að hún hefði farið inn. En ekki var kjarkurinn meiri en það, að ég þorði ekki inn göngin, því að þar var alltaf dimmt. Ég fór því upp á glugga og gægðist inn, en sá ekkert nema fólkið sofandi í rúmunum. Stúlkunnar varð ég ekki framar vör, en inn þorði ég ekki að fara, fyrr en fólkið kom á fætur. Ég sagði frá sýn minni, en auðvitað var það talin ímyndun ein af öðrum en Sigurði, sem sagði, að Skotta gæti skipt um útlit, þegar hún vildi.
Flest heimafólk var myrkfælið, nema Kristrún, hún fann víst aldrei til myrkfælninnar, því að hún var margoft alein í myrkri frammi í bæ, en það gerði enginn annar af fólkin. Ég spurði hana einu sinni; hvernig stæði á því, að hún væri ekkert myrkfælin, en hún svaraði: "Ég trúi á guð, en ekki drauga, og það dugar."
Þorsteinn Sigurgeirsson, systursonur Kristrúnar, var oft á Kúskerpi um tíma að vetrinum. Hann var kátur og góður unglingur, en átti til að stríða frænku sinni. Hann talaði oft um Skottu og sagði þá: "Hún hérna gamla frænka okkar." Þá varð Kristnínu einu sinni að orði: "Guð hjálpi þér, drengur, hvernig þú getur talað. Farðu nú fram í skála og biddu guð að fyrirgefa þér, en réttast væri að lúberja þig."
Einu sinni kom Þorsteinn með þjóðsögur með sér og ætlaði að lesa fyrir fólkið, Kristrún fyrirbauð það, og sagði þá til dæmis um ógæfu þá, er af þjóðsögum stafaði, að þegar hún lá á sæng að Oddnýju dóttur sinni, hefði yfirsetukonan verið orðin vonlaus um, að hún gæti alið barnið. Þá hefði móðir sín munað, að á hillu yfir rúmi hennar voru þjóðsögur, og hefði hún tekið þær og stungið þeim í eldinn, og brá þá svo við, að barnið fæddist.
Utan við túnið voru tveir stórir steinar, annar eins og lítil klöpp. Á sumrin var það vani hennar, þegar sólskin var, að fara út á hól utan við bæinn og aðgæta steinana, en það varð að gerast, þegar sólin var í miðdegisstað. Þá sagðist hún oft sjá mynd af kýrhöfði á stærri steininum, og vissi það ævinlega á þurrk og gott veður næsta dag, en ef hún sá enga mynd á steininum, vissi það ævinlega á rigningu og þoku. Fór oft eftir þessu.
Kristrúnu þótti innilega vænt um þessa steina, eins og allt, sem undir Kúskerpi lá. Á seinustu æviárum hennar; þegar jörðin var komin í eigu annarra, kom til orða að sprengja steinana og nota þá í hesthúsvegg. Þá sagði hún, að mikil ógæfa mundi af því stafa og óskaði, að hún þyrfti ekki að lifa það, að sjá steinana eyðilagða, enda var hætt við að sprengja þá að því sinni, einkum vegna hennar og spádóms hennar.