Ég vitja þín æska


FAÐIR MINN DEYR

Seinasta sumarið, sem ég var heima hjá foreldrum mínum, lánuðu þau mig að hálfu yfir sumarið að Silfrastöðum. Steingrímur Jónsson og Kristín Árnadóttir bjuggu þar, hann orðinn blindur, en hún sjúklingur rúmliggjandi. Þrátt fyrir það var heimilið glatt og frjálslegt í alla staði.

Eitt sunnudagskvöld um haustið, er ég kom frá Silfrastöðum, var ég gangandi og hafði orðið seint fyrir, svo að komið var myrkur. Þegar ég kem á Skriðuna, sem kölluð er, æðispöl frá bænum, sé ég ljós í glugga heima, og um leið grípa mig svo mikil ónot, að ég get ekki lýst því. Mér finnst, að eitthvað mikið sé að heima og eitthvað afar erfitt sé í vændum. Þegar ég kem heim að bænum, finnst mér, að ég sé umkringd af einhverjum ósýnilegum verum, sem ég sá þó ekki. Svo sannfærð var ég um, að eitthvað væri að, að ég dauðkveið fyrir að fara inn í bæinn. Þegar ég kom inn, var mér sagt, að Hjörtur bróðir minn lægi í svæsinni lungnabólgu. Meðöl höfðu verið fengin hjá Þorkeli í Flatatungu, sem fékkst nokkuð við lækningar og þótti oft takast vel við lungnabólgu. Hjörtur var tæpt staddur, en fór þó að létta, en þá lagðist pabbi. Hann hafði vakað með mömmu yfir Hirti og var þreyttur og svefnlaus. Hann hafði oft legið í lungnabólgu, en nú tók hún hann afar geyst. Meðöl frá Þorkeli komu að engu gagni, og var þá Magnús bróðir minn sendur ofan að Víðivöllum til að fá hjálp þar til að sækja lækni. Magnús fór þetta gangandi, því að hvergi voru hestar á járnum, en komin svell og hálka. Eftir tvo daga kom læknir, hafði hann ekki verið heima, þegar sendimaður kom. Hann lét eitthvað af meðölum, en vildi fátt segja um batahorfur.

Þetta voru erfiðir dagar, engin fullorðin manneskja á bænum nema mamma. Pabbi tók afar mikið út, og oft var það, að mamma flýði út úr húsinu, gat ekki horft á hann, og vorum við Magnús, bróðir minn, þá hjá honum.

Einum degi áður en pabbi dó, kom Þorkell í Flatatungu og bauðst til að vera hjá honum, meðan á þyrfti að halda. Ég hefi alltaf blessað minningu Þorkels síðan, því að ég er viss um, að þetta var góðverk. Þorkell fór ekki fyrr en búið var að bera líkið fram. Nokkrum dögum síðar lagðist Hallgrímur bróðir, einnig í lungnabólgu, en varð aldrei þungt haldinn.

Þegar jarðarförin var um garð gengin og bræður mínir orðnir rólfærir, var eins og mamma félli saman. Hún hafði misst ástríkan eiginmann og var ein eftir með stóran barnahóp. Þó að sum okkar væru komin yfir fermingu, vorum við ekki fær um að ráða fram úr nokkrum vanda.

Guðrún amma mín var þá komin til Eiríks sonar síns, sem bjó í Axlarhaga. Okkur systkinunum kom þá saman um að fá hana til að vera hjá mömmu, hún færði alltaf með sér hressingu og gleði. Mamma féllst á þetta, og varð það úr, að amma kom heim, en ég fór í hennar stað að Axlarhaga. Þá fór ég alfarin frá Kotum.

Ég dvaldi í Axlarhaga hjá Eiríki móðurbróður mínum, þangað til ég giftist Halli Jónssyni, sem bjó í Brekkukoti með móður sinni, Guðríði Hallsdóttur, hálfsystur Guðrúnar ömmu minnar. Við Hallur bjuggum saman í hálft annað ár, eignuðumst einn dreng, Jón að nafni, yndi og eftirlæti okkar beggja, og hefir hann verið mér elskulegur sonur alla tíð. Hallur drukknaði í vesturós Héraðsvatna á heimleið úr kaupstað. Þá urðu þáttaskipti í lífi mínu, og hér mun nú staðar numið.

Því fer fjarri, að ég hafi ætlað að rita ævisögu mína. Þessir þættir eru skráðir fyrir þrásækni annarra, og varð ég við því, vegna þess að mér þykir gott, ef hér varðveitist nokkur fróðleikur, er ella félli fyrnskunni að bráð.


Framhald . . .

Til baka