Ég vitja þín æska


GUÐMUNDUR DÚLLARI

Margir ferðamenn komu að Fremri-Kotum, því að bærinn stendur í þjóðbraut og fremstur í dalnum, voru það menn af öllum stéttum þjóðfélagsins. Einn þeirra var Guðmundur dúllari. Hann kom vanalega vor og haust, og var þá oft um kyrrt í viku eða lengur. Við unglingarnir fögnuðum komu hans, því að oft var hann með bækur, og sumar þeirra var hann að selja. Hann bar allt sitt hafurtask í buxum, skálmarnar lét hann hanga fram yfir axlirnar, en ísetuna aftur á bakið, og rúmaðist furðu margt í því iláti. Hann gekk alltaf við mjög langan og sveran broddstaf, var í vaðmálsfötum, og aldrei sá ég hann í rifnum eða óhreinum fötum. Á fótum hafði hann ævinlega leðurskó, en það var mér undrunarefni, hve stórir þeir voru. Eitt sinn hafði ég orð á því við hann. Hann leysti þá skóinn af sér og sýndi mér illeppana. Neðst var góð visk af þurru grasi, þar ofan á var þunn torfa, vel þurr. Ég spurði hann, hví hann hefði þetta svona. Hann svaraði, að til þess lægju ýmsar ástæður, fyrst og fremst væri þetta notalegt við fótinn, annað það, að hann mundi halda óskertu minni, meðan hann gengi á torfi og heyi, og í þriðja lagi yrði hann allra manna elztur af sömu ástæðu.

Aldrei þreyttist Guðmundur á að leika listir sínar fyrir okkur heimafólkið. Ég get ekki lýst því, en einkennilegt trilluhljóð kom úr munni hans, en í raun og veru var það þó ekkert sérstakt lag. Ævinlega sat hann við borð, þegar hann dúllaði, studdi hægri olnboga á það, en hafði litla fingur í eyranu. Honum fannst þetta dásamleg list, sem enginn Íslendingur gæti leikið annar en hann. Ekki held ég, að öðrum hafi þótt þessi söngur, eða hvað það nú var, skemmtilegt á nokkurn hátt, en oft var spaugilegt að sjá hreyfingar hans og hrifningu af sjálfum sér.

Þegar fólk af öðrum bæjum kom og bað hann að dúlla , setti hann upp tuttugu of fimm aura fyrir manninn. Eitt sinn kom maður og bað hann að dúlla og fékk honum eina krónu. Guðmundur varð léttbrýnn og sagði, að nú skyldi hann fá að heyra ódauðlegt listaverk. Þegar hann hafði dúllað hátt og lengi, leit hann á manninn, og mér er í minni, hve glampandi hrifningin var í augum hans. Hann spurði hvað maðurinn segði nú. Maðurinn svaraði, að þetta væri að vísu ágætt, en þó fyndist sér, að betur hefði átt við að leika svona lag með neðri endanum. Ekki gleymi ég, hve reiður vesalings gamli maðurinn varð.

 

FEIGUR GESTUR

Eitt árið, sem ég var á Kotum, kom fyrir atvik, sem mér er jafn minnisstætt sem óskiljanlegt. Það var um vetur, mig minnir nokkru fyrir jól. Úti var hríð og mikið frost. Við eldri systkinin og amma sátum í rökkrinu inni í gömlu baðstofu, sem kölluð var. Amma sagði okkur sögu. Pabbi og mamma höfðu lagt sig í rökkrinu, og litlu krakkarnir sváfu. Útiverkum var lokið, en þá var siður að loka bænum. Allt var með kyrrð, aðeins rödd ömmu rauf þögnina. Allt í einu heyrum við öll, að komið er framan göngin og gengið inn að baðstofuhurðinni á frosnum skóm, sem lét óvenjuhátt í. Þar er staðið við andartak og gengið aftur fram göngin. Við töldum víst, að gleymzt hefði að loka bænum, og hefði þetta verið ferðamaður, er berja mundi að dyrum eða koma á glugga. Þegar nokkur stund var liðin, og enginn lét á sér bæra, kveiktum við, og amma sagði okkur að fara fram og vita, hvers við yrðum vör. Við töldum svo víst, að þetta hefði allt verið með eðlilegum hætti, að við vorum ekkert hrædd, enda vanalegt, að gestir kæmu á öllum tímum. Þegar við komum í bæjardyrnar, sáum við, að bærinn. var lokaðar, og hentumst í einu kasti inn í baðstofu. Nú vöknaðu allir, og var ýmislegt um þetta talað og búizt við, að einhver kæmi bráðlega, enda reyndist svo. Rétt fyrir háttatíma komu þrír menn norðan yfir Öxnadalsheiði og báðust gistingar. Mennirnir voru blautir og snjóugir, höfðu blotnað í Norðurá. Ég átti að hjálpa þeim úr plöggunum og afhenda þeim þurra sokka. Þegar ég hafði dregið sokka af einum þeirra og bjóst til að hjálpa þeim næsta, grípa mig svo mikil ónot, að mér finnst, að líða muni yfir mig, og um leið verð ég ofsalega hrædd við eitthvað í sambandi við þennan mann. Engan þessara manna hafði ég né nokkurt okkar séð áður. Ég reyndi að láta þetta ekki fá vald á mér og tókst það nokkurn veginn, og um leið og ég snéri baki við manni þessum, varð ég jafnhress og venjulega. Þessu gekk í hvert skipti, sem ég kom í nálægð hans. T. d. þegar ég, morguninn eftir, færði þeim kaffi í rúmið, varð ég gagntekin af óskiljanlegri vanlíðan, sem yfirgaf mig um leið og ég snéri mér frá honum. Þetta var unglingur, fölur og veiklulegur, óframfærinn og þunglyndislegur. Þessir menn héldu svo leiðar sinnar, og veit ég ekkert meira um tvo þeirra, en við fréttum löngu seinna, að einn þeirra, sem mig minnir að héti Þorsteinn, hefði orðið úti á Holtavörðuheiði.

 

HRAKNINGAR

Oft var ónæðissamt um gangnatímann á haustin. Gangnamenn voru oft illa á sig komnir eftir fjallleitir, og alltaf voru það óskráð lög að hlynna að þeim á allan hátt. Eitt haust er mér sérstaklega minnisstætt, er tveir menn fóru í eftirleit, rétt eftir veturnætur. Miklum snjó hafði hlaðið niður í logni. Mennirnir fóru snemma af stað að morgni, var þá gott veður, en dimmt í lofti. Þegar birti af degi, gerði asahláku með fádæma rigningu, svo að allar ár beljuðu fram, vatnsmiklar og að því er virtist ófærar. Þá voru engar brýr komnar á Valagilsá eða Norðurá. Við vorum því óróleg að vita mennina frammi á afrétti, hestlausa og matarlausa. Í rökkurbyrjun kom landpóstur og baðst gistingar, því að hann taldi árnar ófærar. Með honum voru tvær stúlkur og tveir piltar. Allt þetta fólk var holdvott af rigningu. Var nú reynt að þurrka föt þess, en ekki var það þægilegt, því að það varð að gera við eld í hlóðum. Til þess var höfð brunnin glóð, settar járnstengur yfir hlóðarsteinana og fötin breidd á þær, og varð alltaf að snúa þeim, og mátti aldrei víkja frá því verki. Dagurinn og kvöldið leið, og rigndi jafnt og þétt, alls staðar lak í bæinn, og óhugnaður fyllti hug flestra. Loksins háttuðu þeir, sem gátu, pósturinn, fylgdarlið hans og eitthvað af heimafólkinu. Allt í einu heyrist dynkur, líkast því sem eitthvað dytti ofan af baðstofuveggnum. Var farið út að gæta, hvað þetta væri. Þar liggur þá annar eftirleitarmaðurinn, hafði ætlað upp á glugga, en runnið niður af veggnum. Hann var mjög máttfarinn, en gat sagt frá því, að hinn maðurinn hefði lagzt fyrir suður og upp frá bænum. Var nú farið með ábreiður og mjólkurflösku, og fannst hann bráðlega, þó að dimmt væri. Þegar hann hafði drukkið mjólkina, hresstist hann brátt, svo að hann gat komizt heim, með því að gengið var undir honum. Þegar maðurinn kom inn, leið yfir hann. Sumarliði póstur hafði klætt sig og hjálpaði til að koma honum heim. Kom hann nú með brennivín og hellti upp í hann, og raknaði hann þá við. Þessi maður var drykkfelldur, og er ekki að orðlengja það, að þeir settust að drykkju og drukku fast alla nóttina. Morguninn eftir var sá, er fékk sér í staupinu, hinn hressasti og hélt heim til sín, en hinn lá nokkra daga.

Leitarmennirnir höfðu komizt yfir Valagilsá uppi í svokölluðum Kleifum, óðu hana þar og þökkuðu það sterkum broddstöfum, er þeir höfðu, að þeir komust lifandi yfir ána. En hundur þeirra kom aldrei, hefir farizt þar.


Framhald . . .

Til baka