Ég vitja þín æska


ÞAÐ ERU KOMNAR GÖNGUR

Þessi orð vekja löngum ljúfar minningar í huga mínum, og fyrr en ég veit af, hefi ég dreymt mig inn í löngu liðna tíma. Ég verð aftur unglingur heima á Fremri-Kotum.

Það er sunnudagur í 22. viku sumars. Það er gangnasunnudagur. Veðrið er kyrrt, loftið, heilnæmt og hreint, dalakyrrðin höfug, djúp og hlý eins og unglingsást. Stöku vængjablak fer um dalinn, flestir sumargestir eru horfnir. Túnið er bleikt og fölt, en kýrnar kroppa það af hógværð og iðni. Nokkrir hestar standa á hlaðinu, nýjárnaðir, því að stundum þarf að spretta úr spori í göngum og réttum.

 

Við krakkarnir höfðum lengi hlakkað til þessa dags, því að í kvöld verður kveðið og sungið og fjör á ferðum. Síðasta heysátan var flutt inn í gær. Þó að gaman væri að raka og slá, er þó gott, að því er lokið.

Í dag þurfum við að hjálpa mömmu, og margt þarf að gera. Þvo baðstofuna, sópa bæinn vel og vandlega, brenna kaffi, því að allir gangnamenn þarfnast hressingar. Dagurinn líður við önn og eftirvæntingu. Við krakkarnir erum alltaf að lita út á veginn. Skyldu þeir ekki fara að koma?

Rökkrið tyllir sér á heiðabrúnirnar og stígur hægt niður dalinn. Þá sjáum við ydda á koll úti á hæðinni, einn, tveir, þrír, þeir eru að koma. Við þjótum inn til mömmu og segjum henni tíðindin. Furðum við okkur á, að hún fagnar þeim ekki jafn mikið og við. Við trítlum aftur út, mennirnir þokast nær, en þeir fara hægt og kveða hvorki né syngja. Þeir eru rosknir og ráðnir og ærslalitlir. Þegar heim kemur, spretta þeir af hestunum og flytja þá í hagann. Leysa síðan hnakkpokana og spyrja, hvort þeir geti ekki fengið að sitja inni, meðan þeir fái sér bita. Það er auðvitað velkomið, og er þeim vísað inn göngin inn í gömlu baðstofuna. Hún er tvö stafgólf á lengd; og þar sofum við fjögur systkinin, en í nótt eftirlátum við gangnamönnunum hana. Við ætlum að sofa á gólfinu í húsinu hjá mömmu og pabba.

Nú er myrkrið lagzt yfir, en það titrar af hófadyn, kveðskap og söng. Syngjandi og kveðandi riðlar gangnamanna þeysa neðan dalinn, kvæðalögin bergmála frá fjöllunum, og ómurinn berst langt í kvöldkyrrðinni. Það þrengist í baðstofunni, búrinu, eldhúsinu og göngunum á Kotum. Alls staðar er fullt af mönnum og hundum, því að hver vill gæta hunds síns. Ketillinn fer aldrei af eldinum, og mamma hefir ekki við að hella á könnuna. Allir drekka kaffi í búrinu, og enginn fárast um það, að ekki er setið á skartbúnum stólum. Það er skrafað, hlegið og kveðið. Allir eru frjálsir, en sérkennilegur félagshugur virðist tengja alla saman. Að vísu er einstaka maður drukkinn og gerist þá allhávær, og við þá erum við krakkarnir dauðhrædd, en allir vilja stilla til friðar og firra vandræðum. Þarna eru líka borubrattir strákar, sem fara í fyrsta sinn í göngur. Þeim þykir sómi sinn og vegur vaxa við þessa ferð og vita sem er, að hún getur orðið nokkur manndómsraun, enda fátt um liðleskjur í þessari sveit syngjandi gleðimanna. Þarna eru líka margir rosknir menn og reyndir. Segja þeir frá gömlum gangnaferðum og slarki, og hljóma frásagnir þeirra í eyrum okkar krakkanna sem dýrlegustu ævintýr.

En mest fögnum við þó kveðskapnum og fallegu vísunum, sem við heyrum. Sumir yrkja og fljúga margar smellnar stökur, en sumar eru ekki smíðaðar af hefluðum viðum. Það líður á kvöldið, en engum sígur svefn á brá. Einstöku roskinn maður hefir þó orð á því, að skynsamlegt mundi að fara að halla sér, en það er auðheyrt að hann trúir ekki sjálfur, að svo sé, og áður en hann hefir ræskt sig eftir þessa fráleitu tillögu, er tekið undir nýtt lag, og menn kveða enn og vaka af heilu hjarta.

Ekki fyrr en langt er liðið á nótt, eru bornar inn reiðingstorfur og lagðar á baðstofugólfið, því að rúmin hrökkva skammt. Gluggar hafa verið teknir úr baðstofunni, en þó er þungt loft og heitt inni. Gangnamennirnir raða sér hlið við hlið á torfurnar. Við krakkarnir hreiðrum um okkur á gólfinu inni hjá pabba og mömmu og erum sannast að segja fegin að sofna frá öllum ævintýrunum, sögunum og glaumnum. Nokkur gamanyrði fljúga af vörum mannanna, sem búa um sig á torfunum, svo hljóðna þeir, því að þeir eru þreyttir af erfiði og fagnaði. Góðlynd gola bærir stráin á þekjunni, og nóttin vaggar gangnamönnum til hvíldar undir komandi dag.


Framhald . . .

Til baka