|
Í VIST Á LAXAMÝRI
Árið, sem ég var vinnukona á Kúskerpi, var ég sáróánægð. Fann ég þó vel, að hjónin vildu mér allt hið bezta og voru mætar manneskjur. En ég lærði þar ekki svo mikið sem að elda graut, aðeins að spinna og prjóna, og var það að vísu gott, það sem það náði. Heimilið var ákaflega dauflegt, og hvíldi sorgarskuggi yfir því lengi eftir andlát dóttur hjónanna. Sagði ég foreldrum mínum, að þar vildi ég ekki vera lengur, og langaði til að komast á eitthvert heimili, þar sem ég gæti eitthvað lært og fengi eitthvað fyrir vinnu mína. Með sjálfri mér hugsaði ég, að ekki væri ómögulegt, að ég gæti unnið fyrir svo miklu, að ég gæti farið í skóla, en um það talaði ég auðvitað ekki við neinn nema ömmu.
Sigurjón á Laxamýri gisti ævinlega hjá foreldrum mínum, þegar hann var á ferð. Dóttir hans átti heima á Sauðárkróki, og fór hann oft að finna hana. Réðu nú foreldrar mínir mig í vist hjá honum.
Ég var sextán ára, þegar ég fór að Laxamýri. Þó að mér þætti vistin daufleg á Kúskerpi, var ekki laust við, að ég kviði fyrir að fara svo langt frá öllum, sem ég þekkti. Ég bjóst við, að ég mundi sakna sveitarinnar og æskustöðvanna, við foss og fjall hafði ég notið margra ánægjustunda.
Daginn áður en ég fór, fannst mér ég þurfa að kveðja allt og alla, klappirnar, hólana, lækina og gilin.
Faðir minn ætlaði að flytja mig til Akureyrar, en þangað átti að sækja mig. Morguninn, sem við lögðum af stað, var veður kalt og hráslagalegt. Mér fannst sárt að kveðja allan ástvinahópinn, því að ég hafði þráð að vera heima, en þá voru elztu systkini mín stálpuð og ekki þörf fyrir okkur öll.
Við fórum, sem leið lá, yfir Öxnadalsheiði og höfðum sinn hestinn hvort og farangur minn á þeim þriðja, en hann var ekki mikill að vöxtum.
Leið þessa hafði ég aldrei farið áður, og þurfti ég því að mörgu að hyggja. Á heiðarrananum námum við staðar. Ég reyndi að hamla tárunum, sem seytluðu fram í augnakrókana, en mér fannst, að nú mundi ég sjá sveitina mína og heimili foreldra minna í síðasta sinn. Um kvöldið héldum við að Steinsstöðum í Öxnadal. Gistum við þar hjá Stefáni Árnasyni. Er mér enn í minni, hversu stórt bókasafn hann átti. Daginn eftir héldum við til Akureyrar. Óx mér þar flest í augum, og hafði mig aldrei dreymt um þvílíkar dásemdir og þar gat að líta. Mér annst húsin svo stór og fólkið svo margt og vel klætt, að ég fór að líta á reiðfötin mín og fann það þá fyrst, að þau voru ekki falleg. Auðvitað var stóri söðullinn með í ferðinni, og var ekki laust við, að ég skammaðist mín fyrir að ríða í honum um göturnar.
Við fórum heim að stóru húsi, sem mun hafa verið gistihús. Stigum við þar af baki, því að faðir minn ætlaði að kaupa kaffi. Þar var margt fólk inni. Við eitt borðið voru nokkrir menn að slá kúlu eða bolta með priki, og þótti mér það einkennilegt karlmannaverk, og við annað borð sátu konur og karlar að kaffidrykkju. Mér fannst allir horfa á mig og fötin mín. Sumir þessara manna voru kunnugir föður mínum og heilsuðu honum og spurðu hann, hver ég væri, og sagði .hann þeim það og hvert ferð minni væri heitið. Heyrði ég einn þeirra segja, að sjálfsagt væri að fara á bát yfir að Veigastöðum. Mér fór nú ekki að lítast á blikuna, því að mér hafði sýnzt sjórinn allægilegur, þegar við riðum með honum, en auðvitað hafði ég aldrei séð hann áður. Ég fylltist því skelfingu við tilhugsunina um að fara út á þetta stóra haf með ókunnugum mönnum, því að faðir minn ætlaði ekki lengra. Ég tók nú að horfa út um gluggana og út á sjóinn og sá, að þar voru stór skip. Taldi ég sjálfsagt, að skip þessi yrðu látin flytja mig yfir fjörðinn.
Er við höfðum drukkið kaffið, sagðist faðir minn ætla að fylgja mér í húsið, þar sem ég ætti að borða og sofa um nóttina. Hann kvaðst þurfa að koma hestunum á haga og sinna ýmsu öðru. Mig langaði til að fara með honum, en um það var ekki að ræða. Hann fór síðan með mig heim að stóru húsi. Þar var mér vel tekið. Faðir minn kvaddi mig, og sagðist koma morguninn eftir, og þá yrði komið skip til að sækja mig; Mér leið vel um nóttina, og morguninn eftir kom faðir minn og kvaddi mig.
Klukkan átta um kvöldið lögðum við af stað frá Akureyri. Vorum við þrjú saman, maðurinn,. sem kom að sækja mig, hét hann Davíð frá Knútsstöðum, og stúlka, sem ætlaði til Húsavíkur, Steinþóra að nafni. Við fórum á litlum báti yfir fjörðinn, og tveir fullir karlar réru. Ég var dauf í dálkinn.
Karlarnir, sem réru bátnum, snéru þegar aftur, en við héldum heim að Veigastöðum. Góður spölur var heim að bænum, og varð ég að bera söðulinn minn á bakinu, en hann var ekki léttur og ég enginn kraftajötunn, og var ég því að niðurfalli komin, er við komum til bæjar. Steinþóra afsagði að bera sinn söðul, og varð því Davíð, fylgdarmaður okkar, að rogast með hann og dót okkar að auki, sem raunar var ekki mikið, því að við skildum mest af því eftir á Akureyri, og átti að flytja það með skipi til Húsavíkur. Ég átti engin reiðföt, hafði fengið þau lánuð til Akureyrar, og átti ég að senda þau þaðan vestur aftur, og gerði ég það. Á Akureyri þekkti ég stúlku, sem lánaði mér reiðföt, en þau voru alltof stór á mig, sérstaklega pilsið, það var svo sítt, að ekkert viðlit var að ganga í því. Ég skammaðist mín hræðilega að láta sjá mig í þessum skrúða, en hjá því varð ekki komizt.
Frá Veigastöðum lögðum við svo á Vaðlaheiði, og var þá komið kvöld. Hesturinn, sem mér var ætlaður, var leirljós, stólpagripur, en ekki sérlega viljugur. Davíð reið á brúnskjóttum hesti, en Steinþóra grárri hryssu. Ég dróst nú fljótlega aftur úr, því að Lýsingur fór sér hægt, og ég hafði ekkert til að slá í með.
Þegar ofar dró, þyngdi færðina, og lágu hestarnir meira og minna í sköflunum. Davíð fór af baki og sagði, að við skyldum koma í slóð sína. Mér fannst þetta ferðalag erfitt fyrir hestana og fór því af baki, klæddi mig úr reiðpilsinu, setti upp taumana á Lýsing mínum og lét hann rölta á undan mér og kafaði síðan á eftir. Ofbauð mér, hve hryssan undir Steinþóru brauzt um í verstu sköflunum, en hún sat sem fastast og hló að mér fyrir brjóstgæðin við Lýsing. En hún var ágætur ferðafélagi, kát og orðheppin. Loksins komumst við upp á heiðina, og batnaði þá færðin mikið. Við Davíð settumst nú á bak, og sagði hann mér, að á morgun skyldi ég fá að reyna Skjóna, og væri hann þó ekki vanur að setja hann undir ókunnugt kvenfólk, en ég mundi ekki ofbjóða honum, þar sem ég hefði hlíft Lýsing við að bera mig upp á heiðina. Við komum að Skógum rétt eftir háttatíma, vöktum þar upp og fengum ferju yfir Fnjóská. Áin var í miklum vexti, því að mjög heitt hafði verið í veðri um daginn, en allt gekk vel á ferjunni. Við héldum nú áfram og fórum sporliðugt, þó að alls staðar væri aur á veginum. Við komum að Hálsi um nóttina, og gekk illa að vekja fólk þar. Að lokum var okkur þó svarað, og kom maður út og sagði okkur velkomna gistingu. Fylgdi hann okkur Steinþóru inn í hreinlega stofu. Þar voru tvö uppbúin rúm, og í öðru þeirra áttum við Steinþóra að sofa, en Davíð í hinu.
Borð var á miðju gólfi. Á því var skyrhræringur í þremur diskum og mjólkurkanna hjá. Þegar Davíð hafði séð hestunum fyrir húsi og heyi, korn hann inn með nestispoka sinn, og var nú setzt að snæðingi. Við Steinþóra vorum þreyttar, og langaði okkur mest í hræringinn. Þó vorum við ekki viss um, að hann væri okkur ætlaður, en þótti það líklegt, þó að okkur hefði ekki verið sagt til hans. Lauk því máli þannig, að við borðuðum hann með beztu lyst, háttuðum síðan og urðum hvíldinni fegnar. Rétt þegar við vorum lögzt út af, heyrum við, að gengið er um bæinn, og eftir skamma stund koma tveir karlmenn og ein stúlka inn í stofuna og ganga rakleiðis að borðinu. Auðséð var, að þeim brá í brún, þegar allt var upp étið. Annar maðurinn sagði: "Helvítis pakkið," en stúlkan og hinn maðurinn hlógu. Við Steinþóra kúrðum okkur niður og létum sem við svæfum, og skammaðist ég mín hræðilega. Steinþóra sá ekki nema spaugilegu hliðina á þessu máli. Davíð karlinn steinþagði. Fólk þetta fór síðan út úr stofunni, sýndist mér það líta til okkar illum augum um leið. Sáum við það ekki aftur. Ekki veit ég, hvaða fólk þetta hefir verið, líklega gestir, sem von hefir verið á, og hræringurinn verið ætlaður þeim.
Morguninn eftir fórum við snemma af stað, sáum aðeins sama manninn og tók á móti okkur um nóttina. Davíð greiddi það, sem upp var sett fyrir gistinguna, og héldum við síðan af stað.
Dag þennan var heitt í veðri og mikil leysing. Skjálfandafljót valt fram kolmórautt, og fannst mér það stórfallegt. Snjódriftir voru í öllum giljum og lautum. Fórum við löngum fót fyrir fót, því að víða óðu hestarnir í. Davíð hafði sagt okkur, að hann kviði fyrir á einni, en ekki man ég hvað hún hét. Hann taldi víst, að hún væri óreið fyrir kvenfólk og ekkert líklegra en við mættum biða, þangað til úr henni drægi. Yfir á þessa þurftum við að fara, stuttu áður en lagt var upp á Fljótsheiði.
Við komum nú að ánni, og auðséð var, að engin leið var fyrir okkur stúlkurnar að ríða hana. Bær stóð hinum megin árinnar, og minnir mig, að hann héti Ingjaldsstaðir. Maður þaðan kom nú niður að ánni, kallaði til okkar og sagði, að snjóbrú hengi enn uppi þar skammt frá og reynandi væri að athuga hana. Davíð fór nú, eftir tilvísun mannsins, að aðgæta brúna og kom aftur með þann boðskap, að við skyldum freista að fara brúna, og gerðum við það, en öll vorum við víst dálítið hrædd, enda ekki að ástæðulausu, því að brúin féll niður, áður en við komumst heim að bænum. Þegar Davíð hafði fylgt okkur yfir, snéri hann aftur, því að hann varð að ríða ána. Reið hann Lýsing mínum, og haggaðist hann ekki, þó að straumurinn væri þungur. Fórum við nú heim að bænum og fengum ágætar viðtökur. Hefi ég ekki mætt gestrisnara og alúðlegra fólki. Minnir mig, að bóndinn héti Gísli. Töfðum við lengi, og var síðan lagt á heiðina.
Nú lagði Davíð á Skjóna handa mér, og mikill munur var á honum og Lýsing. Skjóni var örviljugur, reistur og viðkvæmur, fór ýmist á tölti eða skeiði. Nú var ég ekki á eftir. Skjóni vildi vera fremstur, en var þó spakur og ljúfur. Allt gekk nú vel, þó að færðin væri ekki góð.
Þegar við erum komin upp á heiðina, kemur maður á eftir okkur og fer geyst. Hann rak fjóra hesta, tvo með reiðtygjum, hefir líklega verið að sækja fólk, því að krossmessudagur var. Hann bar fljótt yfir og nálgaðist okkur óðum. Skjóni fór að ókyrrast, og kallaði Davíð til mín, að ég skyldi .hafa mig af veginum, en áður en ég vissi, var Skjóni kominn á rjúkandi sprett. Lausu hestarnir, sem maðurinn rak, voru alltaf skammt á eftir mér, og Skjóna virtist vera kappsmál, að þeir færu ekki fram fyrir hann. Víða voru djúpir vatnspollar á veginum, og gengu gusurnar yfir okkur. Enginn kostur var að hægja sprettinn, og ég hugsaði um það eitt að halda mér í söðlinum.
Spretti þessum var haldið, þangað til komið var niður af heiðinni. Þar gat ég snúið klárinn út af götunni og komizt af baki. Var Skjóni þá svo æstur, að hann hringsnerist í kringum mig, en ekki var hann hið minnsta móður. Mannskömmin þeyttist nú fram hjá mér, og hugsaði ég ekkert hlýlega til hans. Bratt var niður af heiðinni, og datt mér ekki í hug, að ég mundi hanga í söðlinum, en þó hafði það tekizt, og þótti mér það mikil bót í máli. Mér fannst, að ég hefði gert Skagfirðingum mikla skömm með því að velta af baki, þótt léttan væri riðið. Eftir langa stund komu þau Davíð og Steinþóra og þóttust hafa heimt mig úr helju. Steinþóra hló, en Davíð var alvarlegur og sagði, að nú skyldi ég ekki ríða Skjóna lengur, því að hann vildi ekki, að hann dræpi mig. Ég bað hann blessaðan að lofa mér að ríða honum það, sem eftir væri af leiðinni, og lét hann loksins undan, en okkur Skjóna samdi ágætlega eftir þetta.
Við áðum þarna skamma stund og héldum síðan að Knútsstöðum. Þar var Davíð fylgdarmaður okkar húsbóndi. Kona hans tók okkur mjög vel. Við töfðum þar, borðuðum og drukkum og héldum síðan enn af stað, og var þá komið undir háttatíma. Fórum við á ferju yfir Laxá, nokkru utan við Knútsstaði. Að Laxamýri komum við eftir háttatíma.
Myndarlegt var að sjá heim að Laxamýri, þar voru, í þyrpingu að kalla mátti, tvö timburhús, gamall bær, fjós, hlaða og haughús, og í mínum augum var þetta sem heilt þorp.
Snjólaug, kona Sigurjóns, var ekki heima. Þennan vetur hafði hún verið vestur á Sauðárkróki, hjá dóttur sinni, Líneyju, konu séra Árna Björnssonar.
Sigurjón tók mér vel og sagði mér, að ég ætti að vinna hjá Arnþrúði og Agli, syni sínum, sem bjuggu á Laxamýri. Líka bjó þar Jóhannes, sonur Sigurjóns, og Þórdís, kona hans. Jóhann Sigurjónsson var þá kominn til Hafnar, og var ekki oft um hann talað, svo að ég heyrði því að faðir hans var ekki ánægður yfir lífsstarfi hans. Þó var það Jóhannes bróðir hans og Snjólaug móðir hans, sem helzt töluðu um hann, en forðuðust Sigurjón að því. Ég man eftir einum degi. Við vorum við heyþurrkun, og vildi svo til, að við Jóhannes vorum sér að rifja. Þá sagði hann mér margt um þennan bróður sinn, og fannst mér honum vera nautn að því að tala um hann. Jóhannes var ágætasti maður, en ekki í sérstöku áliti hjá föður sínum, enda líklega ekki búmaður. Ég held, að hann hafi verið alveg sérstaklega vel gefinn, þó að hann væri dálítið einkennilegur.
Snjólaug, kona Sigurjóns, kom heim fyrir sláttinn. Held ég, að allir á heimilinu hafi fagnað komu hennar, enda var hún elskuleg kona, sem öllum var góð.
Á Laxamýri var ég tvö ár, 1901 og 1902, og leið mér þar vel, sérstaklega fyrra árið. Finnst mér ævintýrablær yfir öllu frá þeim tíma. Ég var þar með gáfuðu og góðu fólki, sem sýndi mér skilning og vináttu. Þar lærði ég öll algeng heimilisstörf, og andlegur sjóndeildarhringur minn víkkaði til muna. Oft skammaðist ég mín fyrir vankunnáttu mína við húsverkin. Við vorum þrjár vinnukonur, sem áttum að vera í eldhúsinu, sína vikuna hver. Þar var mikið að gera, því að heimilisfólk var yfir tuttugu, auk daglaunafólks. Frammistaða mín var oft bágborin fyrstu vikurnar, en Snjólaug og Arnþrúður þreyttust aldrei á að hjálpa mér og segja mér til, en sjálf hafði ég sterkan vilja til að vinna verk mín svo, að þau yrðu að gagni. Tókst það furðu vel, þrátt fyrir allt.
Þegar vetraði, hófst tóskapurinn, og þar var ég örugg um að skara fram úr, og gerði það líka, því að hinar stúlkurnar voru óvanar tóvinnu.
Heimilið var frjálslegt og skemmtilegt, og húsbændur létu sér annt um hjúin og vildu þeim allt hið bezta. Ég fékk fimmtíu krónur í kaup, en auk þess var mér gefið margt. Á sumrum var oft unnið við heyþurrk á sunnudögum , ef óþurrkar höfðu gengið, og ævinlega var það borgað sérstaklega. Ég fékk vanalega eina krónu að kveldi. Hætt er við, að það þætti lítið nú, bæði mér og öðrum, en mér fannst það mikið í þá daga.
Tveir hagyrðingar voru á Laxamýri mér samtíða, Árni Sigurðsson, organisti á Húsavík, og Jónas Stefánsson frá Kaldbak. Þeir ortu heilmikið, og svo fór að lokum, að ég fór að skjóta fram stöku, þótt lítið léti ég á slíku bera, meðan ég var að kynnast fólkinu. Flestu því hefi ég löngu gleymt. Eitt sinn vorum við að heyskap niðri á engjum, sem kallað var. Þar var mikið af skógarrunnum, sem náðu upp fyrir höfuð manns. Þá segir Jónas Stefánsson:
Hér er ungt og harðskeytt lið,
hert af sólarbruna.
Heillirnar mínar, heyrið þið,
hvar eru Jón og Una?
Ég svaraði:Fjarri harki fundu ráð,
frelsi og kjarki unna,
þau hafa marki þráðu náð
þarna í bjarkarunna.
Öðru sinni var það, að við stúlkurnar vorum að raka, en Árni Sigurðsson að bera ofan af fyrir okkur. Við söxuðum föngin hver á sinni spildu, en hann tók þau og setti þau á handvagn og ók þeim á þurrvöll. Þá segir Árni við mig:
Létt í gangi er baugabil,
björt með vanga rjóða.
Ég botnaði:
Mig fer að langa mikið til
að mega fang þér bjóða.
Einhverju sinni sagði ég við Árna:
Góði Árni, greypt á blað,
gefðu mér nú kvæði.
Hann svarar:
Svo á forna samleið það
sífellt minni bæði.
Einu sinni sem oftar var ég að brjóta saman þvott og lagði hann á bekk, sem þar stóð nálægt. Kemur þá inn stúlka og tekur karlmannsskyrtu, sem lá þar, lagar hana svo til, að brjóstið snýr upp, leggur hana síðan á bekkinn og hallar sér út af ofan á skyrtubrjóstið. Þá kom þessi staka:Ekki get ég ætlað það
eyði þrá né harmi,
þó þú hallir höfði að
hjartalausum barmi.
Flest af fólkinu var ungt, draumlynt og ásthneigt, eins og verða vill á þessum árum. Ég fylgdist með af lífi og sál, þetta voru ókunn fyrirbæri í mínu lífi. Ég tók líka nokkurn þátt í þessum málum, því að flest af fólkinu trúði mér fyrir leyndarmálum sínum, og gekk ég oft á milli með bréf fyrir það. Eins og fyrr getur, var Laxamýri mannmargt heimili í þá daga. Vinnukonur voru sex, Soffía Jóhannesdóttir, gömul kona, Una Kristjánsdóttir, Þuríður Jónsdóttir, nú hjúkrunarkona í Reykjavík, Björg Þórðardóttir frá Svartárkoti, Snjólaug Jónsdóttir, systir Þuríðar, og ég. Vinnumenn voru fjórir, Jón Ingjaldsson, Jónas Stefánsson frá Kaldbak, fór síðan til Ameríku, Magnús Jónsson, alinn upp á Laxamýri, fór líka til Ameríku, og Kristján Hansson frá Hóli í Köldukinn. Auk vinnufólks var margt kaupafólk, og að heyskap gekk vanalega tólf til sextán manns. Flest var þetta ungt fólk, og var því oft glatt á hjalla, enda góðir húsbændur og heimilið gott.Nokkru eftir sláttarbyrjun, fyrra árið, sem ég var þar, kom okkur saman um að taka okkur góða skemmtiferð einhvern sunnudag, en ekki voru allir á einu máli um, hvert ferðinni skyldi heitið. Sumir vildu fara upp í Slútnes, en aðrir að Goðafossi eða fram að Uxahver, og enn aðrir austur að Ásbyrgi. Sú tillaga var þó felld. Leiðin þangað var alltof löng til þess að hægt væri að fara þangað á svo stuttum tíma, sem við höfðum yfir að ráða.
Eftir mikil ræðuhöld var samþykkt, að ferðinni skyldi heitið fram að Hverum.
Ég lagði lítið til þess, hvert halda skyldi, því að ég var öllu umhverfi ókunnug, en fara vildi ég eins og hinir.
Nú vantaði það, sem nauðsynlegast var til ferðarinnar, en það voru hestar, því að þá voru engar bifreiðir komnar til sögunnar og ekkert okkar átti hest nema Jónas Stefánsson. Yfirleitt fannst mér fátt um hesta í Þingeyjarsýslu og ólíkt og í minni sveit, Skagafirði.
Því var ráðið, að Jón Ingjaldsson fengi sig lausan frá vinnu síðari hluta laugardagsins í sextándu vikunni, því að daginn eftir skyldi ferðin farin, og átti hann að útvega hesta, því að hann var alls staðar kunnugur. Nú þurfti að hafa með sér nesti, og lagði hvert okkar fram fimmtíu aura, og keypti Jón fyrir þá peninga súkkulaði, sykur og brauð, um leið og hann fór í hestasmölunina, því að Húsavík var í leiðinni út á Tjörnesið, en þar fékk hann eitthvað af hestunum.
Sextándi sunnudagurinn í sumri rann svo upp, bjartur og blíður.
Eins og ég hefi áður sagt, var ég hjá Sigurjóni gamla, og stóð einmitt svo á, að hann var nýbyrjaður að láta heyja engjateyg, sem hann nytjaði. Magnús Jónsson, sem áður var nefndur, og ég, vorum við það, ásamt kaupafólki, er Sigurjón hélt. Magnús þessi var fóstursonur Sigurjóns og á aldur við mig. Gamli maðurinn hafði það til að láta okkur vinna á sunnudaga, ef þurrkur var, og hann átti óþurrt hey, svo að við vorum ekki alveg örugg um, hvernig fara mundi í þetta sinn. Við mönnuðum okkur því upp og báðum hann að lofa okkur að fara með, en þar kom nú heldur atvik í reikninginn; því að hann afsagði með öllu að leyfa okkur að fara, hélt við hefðum annað við kaupið okkar að gera en að eyða því fyrir hestlán og annan óþarfa. Við urðum heldur dauf í dálkinn og vorum bæði hrygg og reið. Hinu fólkinu féll þetta víst lítið betur en okkur, og datt mörgu af því í hug að hætta við ferðina. En þar sem hestar höfðu verið útvegaðir og annar viðbúnaður hafður, varð þó ekki af því, enda vildum við ekki heyra það nefnt.
Nú var morgunverkunum hraðað sem mest mátti, en þau voru allmikil. Nær því tvö hundruð ær og átta kýr þurfti að mjólka. Jón var kominn með hestana, og síðan var lagt af stað, en við Mangi sátum eftir. Ég ætla ekki að lýsa skapsmunum okkar, en við vorum ákveðin að neita að snerta á heyi, hvað sem sagt yrði.
Skömmu eftir að fólkið var farið, sjáum við að smalinn kemur heim með reiðhesta gömlu hjónanna, Sigurjóns og Snjólaugar, og um leið koma þau hjónin og segja okkur að tygja okkur í snatri, því að hestarnir bíði á hlaðinu. Við urðum svo hissa, að ég held, að við höfum ekkert sagt, en nú rak Sigurjón óspart eftir okkur, og sagði, að við skyldum ekki hlífa klárunum og láta nú sjá, að við værum ekki lakar ríðandi en aðrir. Aldrei vissum við fyrir víst, hvernig á því stóð, að Sigurjón breytti um skoðun í þessu máli, en töldum víst, að kona hans, sem ætíð kom fram öllum til góðs, ætti þar hlut að máli.
Við vorum áreiðanlega ekki lengi að búa okkur og héldum þegar af stað, heldur glöð í huga. Veðrið var yndislegt, vegurinn ágætur, hestarnir góðir og við sjálf ung og barnslega sæl og ánægð. Við riðum nú allt hvað af tók, og æði langt frammi í Hvammsheiði náðum við samferðafólkinu, og varð það allhissa, þegar það sá okkur koma. Nú var haldið fram að Hverum, sprett af hestunum og nestið tekið upp. Mörg ár eru liðin, síðan þetta gerðist, og ekki hefi ég komið á þessar slóðir nema í þetta eina sinn. Man ég því ekki vel eftir umhverfinu; en hrifin var ég af öllu, er fyrir augun bar. Umhverfis Uxahver var eins konar hella, sem var svo meyr, að margir höfðu skrifað nafn sitt á hana, og það gerði ég líka, en geri ráð fyrir, að tönn tímans hafi fyrir löngu síðan nagað það brott.
Við vorum þarna mörg saman komin, því að margt fólk af næstu bæjum hafði slegizt í förina, flest ungt. Það var dansað, farið í leiki, sungið og kveðið, og eins og segir í vísunni:
Þar var sungið, þar var kveðið,
þar var ungdómsbragur á.
Við Þuríður Jónsdóttir fórum heim á bæ, sem var þar skammt frá og mig minnir að héti Litlu-Reykir, þar fengum við skyr og rjóma og heitt pottbrauð og smjör.Þarna dvöldum við lengi og nutum lífsins, og var síðan lagt af stað og haldið heim. Var riðið í loftinu, því að við stúlkurnar þurftum að koma nógu snemma heim til að mjalta. Dag þennan var mjög heitt veður, og hefir ferðlag þetta áreiðanlega verið mjög erfitt fyrir blessaða hestana. Ég man sérstaklega eftir rauðri hryssu, sem var í ferðinni. Eigandi hennar var Sigmundur í Árbót. Hún var snöggklippt aftur á bóga, nema faxið hélt sér, man ég vel, hversu svitalækirnir runnu niður hálsinn. Hesturinn, sem ég reið, var yndislega góður. Eins og oft, fyrr og síðar, áttu hestarnir ríkan þátt í ánægjunni yfir ferðalaginu. Ég get ekki hugsað mér fullkomna skemmtiferð að sumarlagi án hesta.
Á heimleiðinni var farið af baki, og hestarnir látnir blása mæðinni. Það er eins og ég finni enn ilminn úr jörðinni, sjái blómskrúðið baðað í síðdegissólinni, lóan söng, spóinn vall, ótal yndislegar raddir fylltu loftið umhverfis okkur.
Við komum heim, þegar verið var að reka ærnar í kvíarnar, glöð og ánægð með kærar minningar um liðinn dag.
Mörg ár eru liðin, og margt er breytt. Margt af fólkinu er flutt yfir á önnur tilverusvið, sumt komið til annarra landa, en eitthvað af því er hér enn, öllu þessu fólki sendi ég kveðju og þakkir fyrir samfylgdina þennan dag. Hann er einn af mörgum glöðum dögum, er ég hefi fengið að njóta samfylgdar góðra vina.
Eins og ég hefi áður tekið fram, leið mér vel á Laxamýri. Allir voru mér góðir, en þó vorum við Þuríður Jónsdóttir frá Kraunastöðum sérstaklega samrýndar. Hún er nú hjúkrunarkona á Kleppi. Vinátta okkar hefir haldizt til þessa dags, og býst ég við, að hún endist eins lengi og við sjálfar.
Þegar ég hafði verið tvö ár á Laxamýri, skrifuðu foreldrar mínir mér og báðu mig að koma heim. Veikindi höfðu þá verið mikil heima. Hjálmur bróðir minn dáið og mamma sárlasin og þreytt. Ég var vistráðin á Laxamýri, en fékk mig lausa. Bæði mér og húsbændum mínum þótti miður að hafa það svo, en um það var ekki að fást, foreldrar mínir urðu að sitja fyrir. Ég fór með skipinu Hólar til Akureyrar, síðan landveg heim. Var ég síðan heima í tvö ár.
Þó að oft væri glatt á hjalla í kotinu, var eitthvað að. Ég þráði að læra eitthvað meira en algeng störf. Ég var þunglynd og draumóragjörn, og vísur mínar og kvæði lýstu megnustu svartsýni. Nú á efri árum hugsa ég oft um, hvað kom mér til að gera allar þær raunavísur, þegar heilsan var í bezta lagi, æskan og lífið í blóma. Nú er ég ánægð, ef heilsan leyfir mér að hafa fótaferð, þó að starfsþrek sé farið og, að því er virðist, flest, sem ánægju færir.