Friðrik huldulæknir

– frásagnir Margrétar frá Öxnafelli og ýmsir vitnisburðir

 

Friðrik huldulæknir gat sér mikið frægðarorð á Íslandi á fyrri hluta tuttugustu aldar. Hann var að sögn huldumaður, en ekki framliðinn maður eins og margir kollegar hans fyrr og síðar, sem læknað hafa í gegn um miðla. Enn hvernig kom Friðrik til sögunnar.

Það var ung stúlka, Margrét Jónsdóttir Thorlacius, sem var fædd og upp alin á bænum Öxnafelli í Eyjafirði, sem komst í kynni við Friðrik sem þar var í klettum með öðru huldufólki. Stúlkan, sem síðar var oft nefnd Margét frá Öxnafelli, var gædd mikilli skyggnigáfu og dulrænum hæfileikum. Hún var dóttir hjónanna á bænum, sem bjuggu þar við fremur lítil efni, áttu 13 börn og var hún sú áttunda í röðinni. Árangurinn af lækningastarfi þeirra Friðriks þótti undraverður, en eins og verða vill um slíkar lækningar var lítið um að vísindaleg úttekt væri gerð á einstökum lækningum.

Friðrik starfaði ekki aðeins með Margéti frá Öxnafelli. Hann starfaði með lækningamiðlum á ýmsum stöðum á landinu, t.d. kom hann mjög sterkt fram hjá öðrum þekktum miðli, Guðrúnu Guðmundsdóttur frá Berjanesi. En víkjum aftur að fyrstu kynnum Margrétar af Friðrik huldulækni. Í viðtali sem Einar H. Kvaran átti við hana um þessi efni segir hún svo frá.

Fólk í klettum

Þegar hún var enn mjög ung, um fjögra ára, fór hún að tala um ljós, er hún sæi á kvöldin fyrir ofan bæinn. Þegar hún stálpaðist, fór hún að sjá fólk í klettum. Og þá komst hún í kynni við eina af þessum verum, sem hún kallar „huldufólk". Það var karlmaður á þrítugs aldri, sem nefndi sig Friðrik, og kvaðst vera læknir. Ég spurði hana, af hverju hún réði það, að hann væri huldumaður – hvort hún gæti ekki hugsað sér, að hann væri til dæmis að taka, framliðinn maður, eða hvort hann hefði nokkuð sagt henni um það.

Nei, hann hafði aldrei neitt um það sagt. En hún skipaði honum í flokk huldufólksins, af því að hún sá hann fyrst í kletti með mörgu fólki. Hann gaf sig á tal við hana, og síðan hefir hann fylgt henni mjög stöðugt. Samt koma fyrir stundir og jafnvel heilir dagar, sem hún sér hann ekki. Hann kveðst þá hafa ýmsum störfum að sinna. Bústaður hans finnst henni vera í klettabelti ofarlega í fjallinu, suður og upp af Öxnafelli.

Við vorum stödd í stofunni á Öxnafelli, þegar talið barst fyrst að þessu fólki í klettabeltinu. Ég spurði Margrétu, hvort hún vildi koma út með mér og sýna mér klettana. Hún var fús til þess, og sýndi mér þá af hlaðvarpanum.
Ég hafði orð á því við hana, að klettarnir væru svo hátt uppi og svo langt til þeirra frá bænum, að þaðan gæti enginn þekkt mann, sem við klettana væri. Hún kannaðist við það, og sagðist hafa um það hugsað. En þetta fólk kvaðst hún þekkja í þessari fjarlægð, hún sæi það jafn vel svona langt til, eins og ef það væri í sama herbergi og hún – hvernig sem á því stæði.

Í flestum klettum og stórum steinum sér hún huldufólk. Það er, í hennar augum, líkt mennskum mönnum að útliti, en þá yfirleitt fallegra. Búningurinn er líkur. Það hefir húsgögn, hljóðfæri, myndir og fleira skraut. Ljós lýsa herbergin. Þau bera bláleitari birtu en venjulegt ljós okkar. Einhvern tíma, áður en hún þekkti rafljós – hafði þá varla heyrt þau nefnd, að því er fullyrt er – sá hún snögglega kveikt ljós hjá huldufólkinu með því að snúa snerli.

Þetta huldufólk hennar vinnur ýmsa algenga vinnu, en mikið með vélum. Það heyjar kringum bústaði sína, og stundum inni í klettunum. Enda hefir það bæði sauðfé og hesta. Þær skepnur virðast henni bíta gras, en á grasinu í mannheimum sér þó ekki. Verkvélar hefur hún séð í klettunum, og hún hefir séð vörubúðir, listasöfn, kirkjur og margt fleira.

Við Friðrik talar hún í huganum, en þegar hann talar, finnst henni hún heyra til hans, líkt og til mennskra manna. Hún finnur til hans, þegar hún snertir á honum, til dæmis tekur í hönd hans, en samt með nokkuð öðrum hætti en þegar hún snertir mennskan mann. Oft sér hún leikið á hljóðfæri. Hún heyrir þá lögin. Sumt eru það lög, sem henni eru kunn, en sum þeirra hefir hún aldrei áður heyrt.

Margsinnis hefir Margrét séð framliðið fólk og fylgjur manna, en skyggni hennar á fylgjur virðist ekki neitt verulega skörp. Oft er framliðna fólkið, sem hún sér, í hvítum klæðum, en ekki ævinlega. Henni sýnist það öðruvísi í yfirbragði en huldufólkið. Ég spurði hana, hvort henni félli vel að sjá allt, sem hún sæi með dularfullum hætti. Lang oftast sagði hún að það væri viðfelldið eða fagurt – en fyrir kæmi það líka, að sýnirnar væru óþægilegar. Ég spurði, hvers konar sýnir það væru. „Þegar ég sé framliðið fólk, sem líður illa, þá er það mjög óviðfelldið", sagði hún.

Stundum fer Margrét úr líkamanum, sem liggur þá í svefni. Í þessu ástandi, sem henni finnst alls ekki líkt almennu drauma-ástandi, fer Friðrik með hana í loftfari um nýja, óþekkta heima. Henni finnst þau fara upp á við frá okkar heimi, stundum gegnum myrkur, en koma svo inn á undur fögur svið, með dýrðlegu ljósi. Hanni veitir örðugt að lýsa litblæ og fegurð ljóssins; helst finnst henni það vera með gulbleikum blæ. Undur fagurt er á þessum sviðum, bæði skógar og fjölbreytt blóm. Hún sér þar afburða fagrar verur, mest vængjaðar, í dýrlegum búningum. Og hún er hugfangin af yndisleik þessara staða.

Þá hefir Friðrik farið með hana í „dýraríkið", sem hún nefnir svo. Þar hefur hún séð ýmis konar dýr, þar á meðal ljónið. Henni fannst afar mikið til um fegurð þess. Hún strauk það og kjassaði, og það malaði af ánægju.

Meðal dýranna hefir hún kannast við skepnur, sem hún þekkti, áður en þær dóu. Einnig hefur hún lýst skepnum, sem dauðar voru löngu fyrir hennar minni, þar á meðal hesti, sem einu sinni var í Öxnafelli, og hafði mjög glögg einkenni. Lýsingin var svo nákvæm, að þeir, sem hestinn höfðu þekkt, töldu engan vafa á því, að hér væri um sömu skepnuna að ræða.
Bjart er og fallegt í þessum dýraheimi – ljósið gulleitt en annars ekki gott að lýsa því.

Lækningar Friðriks

Einu sinni bar svo við, eftir að Margét var komin í samband við Friðrik, að móðir hennar veiktist hættulega . . .

 

Framhald . . .

 

Samantekt þessa í heild er að finna í bókinni 'Þættir um dulræn efni'

 

Til baka