" – á meðan vonin lifir er lífsvon / vonin lifir meðan lífsvon er – "

 

 

" – Það er bjánaskýring og ekki annað, og hún er sett fram af fólki sem er steinblint á báðum augum. Huldufólkið er á annarri bylgjulengd en við – en það er jafn raunverulegt fyrir því. Það eru margar bylgjulengdir í alheiminum og margir bústaðir. Ég er ekki viss um að huldufólkið sem ég umgekkst sé neitt þroskaðar en við . . ."

 

"Ég var afar iðinn við skáldskapinn þegar í bernsku – hérna á ég til dæmis margar útskrifaðar stílabækur með ljóðum frá því ég var 7 til 11 ára. Þarna er auðvitað fátt bitastætt og ég var seinþroska sem skáld. Eitt þessara ljóða er þó að finna lítið breytt í ljóðabók minni "Leikur að ljóðum", og er það ástarljóð til Snæfellsjökuls. Ég var ákaflega heillaður af Snæfellsjökli og kemur það fram í ljóðinu "

 


Viðtal: Bragi Óskarsson


Að vekja fólk til vitundar um fegurð lífsins . . .

– rætt við Kristmann Guðmundsson skáld

Það má segja að ég hafi fæðst fyrir þúsund árum og hoppað úr taðkláfinum upp í breiðþotuna, því þó ekki séu nema liðug áttatíu ár frá aldamótum hafa orðið meiri breytingar á þessu tímabili en þeim þúsund árum sem liðu frá landnámi. Ég fæddist á Þverfelli í Lundareykjadal 1901 og ólst þar upp hjá afa mínum og ömmu.
Afi minn, Björn á Þverfelli, var þjóðsagnakarl þegar í lifanda lífi – heiðríkur og skemmtilegur maður. Á bernskuárum mínum var efnahagur þjóðarinnar ekki eins slæmur og síðar varð, og það var alltaf nóg að bíta og brenna hjá okkur, sagði Kristmann Guðmundsson er ég spurði hann út í bernskuár hans. Kristmann er orðinn 82 ára og ber aldurinn vel. Það er ekki að sjá að ellikerling hafi valdið honum þungum búsifjum, því Kristmann er hinn hressasti þegar ég ræði við hann þar sem hann býr á Hrafnistu í Hafnarfirði. Ég byrja viðtalið með því að spyrja Kristmann hvenær hann hafi tekið þá ákvörðun að gerast rithöfundur.

Léttan stigu lömbin dans


– Ég var ráðinn í því að gerast skáld frá því að ég man eftir mér – það komst aldrei annað að í mínum huga, sagði Kristmann. Ömmu minni fannst það miður – "Oft eru skáldin auðnusljó", þetta lét hún mig heyra oftar en einu sinni. Samt kunni hún vel að meta skáldskap og kunni firnin öll af vísum og ljóðum. Einhverju sinni lét ég að því liggja við hana að ég gæti ímyndað mér að verða stjórnmálamaður, og þá helst ráðherra. En hún sagði þá sem svo, gamla konan, að þeir sætu sjaldan lengi og missti ég þá áhugann.
Fyrsta vísan sem ég á eftir mig er frá því að ég var fimm ára. Tilefnið var það að frændur mínir voru við fjárrekstur fyrir ofan bæinn á Þverfelli – það gekk eitthvað brösótt fyrir þeim, og þeir kölluðu móðursystur mínar til að hjálpa sér við reksturinn. Þá orti ég:

Þeir komu heim með kinda fans,
og kölluðu á frænkur mínar.
Léttan stigu lömbin dans,
listir kunnu fínar.

Í Ævisögu þinni lýsir þú huldufólki sem þú og amma þín sáðuð í Þverfelli.
– Já, ég sá í gegnum holt og hæðir þegar ég var barn, og heimur huldufólksins var mér eins hversdagsleg staðreynd og hinn sem ég hrærðist í. Hvernig var hann þessi heimur? Ekki eins frábrugðinn okkar og þú kannski heldur. Þar var samt fallegra umhverfi og allt fínlegra. Þarna átti ég þrjá leikfélaga úr hulduheimum, eina stúlku og tvo drengi. Þessi börn voru betur klædd og fínlegri en krakkarnir í sveitinni.

Hulduheimar


Ég sá þau rétt eins og ég sé þig núna en heyrði hins vegar ekki til þeirra og gat aldrei snert þau. Þeim var líka illa við ef ég reyndi það. Ömmu var þetta líka alveg sjálfsagður hlutur og huldukonan í huldubænum við Þverfell, sem hét Valborg, var góð vinkona hennar. Amma gat talað við hana og hún sá líka fleira en ég – hún sá fylgjur manna og drauga, sem ég sá aldrei. Hulduheimar voru mér hins vegar opnir upp á gátt og þar sá ég margt. Minnisstæðar eru mér byggðir huldufólks upp í fjallseggjunum umhverfis dalinn. Þar bjó lágvaxið fólk og sérkennilegt í afar fínum húsum. Einhvern tíma talaði ég við ömmu um þessi hús og þá sagði hún mér að svona hús væru einnig í Borgarnesi og Reykjavík, og trúði ég því. Seinna þegar við fluttum á Snæfellsnes kom ég í fyrsta sinn í Borgarnes og varð ég fyrir miklum vonbrigðum með byggðina þar. Satt að segja hef ég alltaf haft hálfgerða skömm á Borgarnesi síðan.
Ég ákvað að segja frá þessum kynnum mínum af hulduheimum í ævisögu minni þó auðvitað væri ég stimplaður sem glópur og lygari fyrir bragðið. Þetta er nefnilega nokkuð sem ekki má byrgja alveg niður – skyggni hefur lengst af verið almenn meðal Íslendinga og setti sterkt svipmót á hugmyndaheim þjóðarinnar allt fram á þessa öld.

Því hefur verið haldið fram að þetta séu ekki annað en ímyndanir og draumsýnir.

– Það er bjánaskýring og ekki annað, og hún er sett fram af fólki sem er steinblint á báðum augum. Huldufólkið er á annarri bylgjulengd en við – en það er jafn raunverulegt fyrir því. Það eru margar bylgjulengdir í alheiminum og margir bústaðir. Ég er ekki viss um að huldufólkið sem ég umgekkst sé neitt þroskaðar en við – það var einhvern veginn fínlegra og ég hef á tilfinningunni að þroskabraut þess sé mildari en okkar.

Trúarbrögð og efnishyggja


Efnishyggja er svo rík í fólki að það má helst ekki tala um neitt svona – fólk þorir t.d. ekki að hugsa um dauðann, sem er heimskulegt því dauðinn er nokkuð sem hver og einn hlýtur að mæta. Það er eins og efnishyggjan hafi jafnvel náð að segja svipmót sitt á trúarlífið – prestarnir viðurkenna að það sé vissulega annað líf, en þeim er bölvanlega við að talað sé um það. Einhverjir trúa enn á uppstigningarkenninguna – að allir sem fæðst hafa frá upphafi muni stiga upp úr gröfum sínum við lúðurhljóm á efsta degi – þó slík kenning sé auðvitað löngu úrelt, enda eins og hver önnur bábilja.

Hver er þín skoðun á eilífðarmálunum?

– Ég byrjaði ungur að grufla út í þessa hluti og á fullorðinsárum lagði ég mikla stund á að kynna mér hin ýmsu trúarbrögð mannkyns. Þá stundaði ég hugleiðslu sem varð mér ákaflega mikils virði í þessari leit. Ég tel mig líka hafa fengið fullnægjandi svör eftir því sem hægt er með okkar takmörkuðu skilningsvitum – en þau eru aðeins fyrir mig sjálfan. Þetta reyni ég að skýra út í bók minni um Jesú – "Smiðurinn mikli".

Öll trúarbrögð kenna í rauninni það sama, þó töluverður munur sé á formi og helgisiðum. Skaparinn er það grundvallaratriði sem öll trúarbrögð byggja á.
Með þessu er ég þó ekki að segja að efnishyggjan sé til ills eins, þó hún sé bæði dauð og einfeldningsleg. Hún gerir kannski sitt gagn með því að útrýma allskyns kreddum og trúarofstæki. Það er nú einu sinni svo að prestar hafa að jafnaði verið ötulastir við að spilla trúarbrögðum. Sjáðu t.d. þennan fugl í Íran, þennan Kómeini. Hann er kominn langt frá öllu sem Múhameð predikaði, með sínum vonsku verkum, en þó er ekki um það að efast að Kómeini er trúaður maður. Trúin getur orðið svo svæsin að hún afsaki hvaða glæpaverk sem er, eins og gerðist hjá kaþólsku kirkjunni á sínum tíma. Þannig er þessu farið með nútímatrúarbrögðin, kommúnisma og nasisma, þar sem þessar stefnur skjóta rótum er stutt í ofstækið og ódæðin – um það fáum við fréttir dags daglega. Þetta má víst helst ekki tala um, en væri ekki skynsamlegra að skoða þetta eins og það er og læra af biturri reynslu?

14 ára í sjálfsmennsku

Heldurðu að kynni þín af hulduheiminum hafi orðið þess valdandi að þú ákvaðst að verða skáld?

– Kannski það hafi haft einhver áhrif – þessi mismunur sem var á milli heimanna tveggja sem ég þekkti. Þó er það einhvern veginn svo að þessi köllun hefur fylgt mér í gegnum þykkt og þunnt, og ég hef aldrei getað hugsað mér neitt annað. Ég var afar iðinn við skáldskapinn þegar í bernsku – hérna á ég til dæmis margar útskrifaðar stílabækur með ljóðum frá því ég var 7 til 11 ára. Þarna er auðvitað fátt bitastætt og ég var seinþroska sem skáld. Eitt þessara ljóða er þó að finna lítið breytt í ljóðabók minni "Leikur að ljóðum", og er það ástarljóð til Snæfellsjökuls. Ég var ákaflega heillaður af Snæfellsjökli og kemur það fram í ljóðinu.

Frá 14 ára aldri átti ég með sjálfan mig að gera, og þá fór ég til Reykjavíkur. Ég var samt enginn sveitadrengur, og aldrei feiminn eða uppburðarlaus – það hafði ég frá föður mínum, Guðmundi frá Helgastöðum. Það hefur verið sagt um Guðmund að hann hafi verið skammarlega huggulegur og mikil kempa var hann. Hann tamdi sér aldrei vol eða víl og stóð ávallt uppúr á hverju sem gekk. Það hefur aldrei hvarflað að mér að ég þyrfti að skammast mín fyrir að vera til, en áberandi var hversu fólk var margt skemmt af vanmetakennd á þessum tíma.
Það voru erfiðir tímar hjá þjóðinni á þessum árum og mér gekk heldur illa að koma undir mig fótunum í sjálfsmennskunni. Um eitt skeið gekk svo langt að ég varð húsnæðislaus hér í Reykjavík um vetur og oft var lítið um matföng. Svo bættust berklarnir ofaná þetta og róðurinn varð óneitanlega þungur með köflum.

Varð það þess vegna sem þú ákvaðst að fara til Noregs?

– Það má nú eiginlega segja að ég hafi rétt sloppið lífs af til Noregs, hér voru mér öll sund lokuð. En ég var ráðinn í að koma aftur – ég ætlaði að fara utan til þess eins að afla mér skáldfrægðar og svo ætlaði ég að snúa heim á ný. Mig óraði ekki fyrir hvað þetta átti eftir að kosta.

Morgunn lífsins


Þegar til Noregs kom var eins og féllu af mér álög því þar gekk mér allt í haginn. Ég gerði mér full ljóst hve bíræfið var að gerast rithöfundur á framandi tungu og lagði alla stund á að kynna mér norskuna frá grunni. Þetta tókst svo vel að ekki liðu nema tvö ár þar til fyrsta bókin mín kom út á norsku, "Islansk Kærlighed", sem var smásagnasafn. Þetta voru litrík ár sem ég notaði til að mennta mig og kynnast þjóð og landi af fremsta megni, jafnframt því sem ég stundaði skáldskapinn. Næstu ár komu út eftir mig á norsku "Brúðarkjóllinn" og "Jarðarbörn". – þessar bækur fengu góðar viðtökur og mig skorti ekki uppörvun. Ég á ritdóma þar sem gagnrýnendur fullyrða um þessar bækur að ég hefði betri tök á norskunni en flestir norskir rithöfundar. Þetta var þó ofsagt því þeim tökum náði ég ekki fyrr en seinna.

Nú má segja að fjórða bókin þín, "Morgun lífsins", hafi slegið í gegn í Noregi og reyndar víðar – hvernig varð þér við að vera allt í einu orðinn frægur?

– Ef satt skal segja fannst mér það heldur ónotalegt í fyrstu – fólk var að benda á mig á götum og ég fann hvernig mér var allsstaðar veitt athygli. Þetta virkaði á mig eins og hver önnur frelsisskerðing. En auðvitað fylgdu þessu líka ýmis þægindi, maður hafði alltaf fullar hendur fjár og það var eins og manni stæðu allar dyr opnar. Þó vel hafi verið tekið við fyrri bókum mínum í Noregi bjóst ég ekki við svona skjótum frama – "Morgun lífsins" var fljótlega þýdd yfir á fleiri tungumál og má segja að hún hafi verið lesin út um alla Evrópu, og gerði reyndar mikla lukku í Ameríku líka.
Ég notaði þessar góðu aðstæður mínar til að mennta mig frekar og ferðast um heiminn, sem mig hafði alltaf langað til að gera – ég fór í mikla reisu um Evrópu sem tók uppundir ár, og bar þá margt fyrir augu. Eiginlega fékk ég alveg nóg á þessu ferðalagi og hef reynt að forðast löng ferðalög síðan.

Sögulegar bókmenntir


Hvað varð til þess að þú snérir þér að sögulegum bókmenntum á þessum árum?

– Þú átt við "Gyðjuna og nautið" og "Hið heilaga fjall". Sögulegar bækur gefa höfundinum frjálsari hendur í því að túlka eigin samtíð og koma skoðunum sínum fram í skáldskapnum. Hér á ég ekki við predikanir eins og áberandi eru í nútímaskáldskap – því lélegri sem rithöfundur er því meira predikar hann og þannig hefur þetta alltaf verið. Annað er að láta skoðanir sínar koma fram sem skáldlegan veruleika, og er það töluvert vandasamara. Þetta nota ég töluvert í "Þokunni rauðu", sögulegri skáldsögu sem ég skrifaði reyndar löngu síðar, – þar finn ég að ýmsu í minni eigin samtíð þó bókin gerist á 11. öld.
En hin sögulega skáldsaga er erfið. Það tók mig t.d. ekki minna en fjögur ár að alfa mér þekkingar til að skrifa "Gyðjuna og nautið". Þá kynnti ég mér söguna á fjórða árþúsundi fyrir Krist eftir föngum, ekki aðeins að því er tók til menningarinnar á Krít heldur sögu allra landa sem höfðu samskipti við Krít á þessum öldum. Þetta var geysilegt verk en öðruvísi verður söguleg bók ekki skrifuð ef vel á að vera.

Skáldskapur


Þú hefur einnig skrifað samtímasögur eins og t.d. "Jarðar börn" og "Ströndin blá". Er ekki töluvert fyrir því haft að ná tökum á svo ólíkum bókmenntasviðum?

– Skáldsagnagerð er ekki annað en botnlaus vinna og því hljóta allir að komast að sem reyna til við að skrifa skáldsögu. Það fylgir því viss endurnýjun að fást við ólík svið skáldsögunnar en sjálfsagt er það enginn vinnusparnaður. En úr því að þú minntist á "Jarðar börn" þá mætti geta þess til gamans að aðalpersónan þar heiti einmitt eftir huldukonunni á Þverfelli, Valborgu, sem var vinkona ömmu minnar. Þessi bók fjallar um vonina á látlausan hátt: – á meðan vonin lifir er lífsvon / vonin lifir meðan lífsvon er – einhvern veginn svona er þetta sett fram í bókinni. "Jarðar börn" hlaut afar góðar viðtökur í Hollandi á sínum tíma hvernig sem á því stóð. Þannig var það líka í Þýskalandi þar til nasistar komust til valda, en þeir bönnuðu allar mínar bækur.

Hver hefur verið tilgangurinn með þínum skáldskap?

– Það er nú erfitt að svar slíkri spurningu því skáldskapur hefur afar margþættan tilgang. Undir niðri hefur vakað fyrir mér að vekja fólk til vitundar um fegurð lífsins og efla með því kjark og þor. En svo kemur fleira til. Ég hef nefnilega alltaf gert mér ljót að það fylgir því ábyrgð hverju rithöfundur sáir í huga lesenda sinna og hjörtu. Það mun ekki fjarri lagi að lesendur mínir séu um fimm milljónir manns – og einhver áhrif hefur lestur bóka minna haft á þetta fólk. Einhvern tíma setti ég mér það að skrifa aldrei neitt sem ég vildi síður að dætur mínar læsu, og við þann mælikvarða hef ég ávallt haldið mig í mínum skrifum.

Bókmenntagagnrýni


Hvað finnst þér um skáldskap nú til dags?

– Því er ekki hægt að neita að mikið af skáldskap nútímans er neikvæður og hefur sú þróun einnig orðið hér á landi. Það bjargar miklu að þessir neikvæðu höfundar eru flestir lítil skáld, og þótt verk þeirra séu básúnuð í dag verða þau áreiðanlega gleymd fyrr en varir.
Það er heldur engin ástæða til að vera með svartsýni því við eigum marga góða höfunda. Það versta er að mörgum þessara höfunda hefur verið haldið niðri af svokölluðum bókmenntagagnrýnendum, sem reyndar hafa ekki stundað neina bókmenntagagnrýni að viti, heldur gegnt því hlutverki að draga rithöfunda í dilka eftir hollustu þeirra við ákveðin stjórnmálaöfl. Notaðu samt ekki orðið kommúnisti í þessu sambandi, því mér leiðist að sjá það á prenti. En það er hryggilegt hversu bókmenntagagnrýni hefur verið á lágu plani hér á landi – við höfum að vísu átt nokkra góða og réttsýna gagnrýnendur, sem hafa tekið skáldskapinn fram yfir predikanir, en þeir hafa ekki verið nógu margir. Vonandi stendur þetta til bóta.

Hvað varð þess valdandi að þú snérir heim til Íslands aftur eftir að þú hlaust viðurkenningu í Noregi?

– Ég hafði alltaf ætlað mér að snúa heim og þar að auki þjáðist ég af heimþrá eftir að hafa verið nokkur ár í Noregi. "Ef maður er fæddur og uppalinn á Íslandi er maður í tröllahöndum," sagði íslenskur maður við mig á þessum árum, og þetta fékk ég að reyna. Ég fékk einfaldlega ekki rönd við reist. Það var líka móðurmálið sem ekki lét mig í friði – íslenskan er töfrandi tungumál, og ég vildi umfram allt skrifa á íslensku.

Þrengingar


Að sjálfsögðu grunaði mig ekki að viðtökurnar yrðu eins kaldar hér og raun varð á og því trúir enginn maður hvernig ég var rakkaður niður fyrstu árin eftir heimkomuna. Íslendingar voru ekki orðnir eins mannaðir á þessum árum og nú gerist, alls konar kjaftasögur voru ein aðalskemmtun ákveðins hluta fólks og mikið slúðrað. Hér var ég alveg óþekktur þá og hægt að ljúga á mig nær hverju sem var. Pólitíkin var harðari þá en nú gerist og ákveðinn pólitískur hópur hóf þegar hreina rógsherferð gegn mér. Sumar þær kjaftasögur sem um mig gengu á þessum tíma eru það ógeðslegasta sem ég hef heyrt, en flestar voru þær einkennilega húmorslausar.
Allt er þetta svo ómerkilegt að best fer á að rifja sem minnst af því upp. Verst var að ekki var látið sitja við orðin tóm, – öll þau bréf sem mér voru send frá útlöndum eftir stríð hurfu t.d. með einhverjum hætti. Þetta var mér dýrkeypt sem rithöfundi því um nokkurra ára skeið tapaði ég öllu sambandi við forleggjara mína og þýðendur erlendis. Það fór eins með bréf sem ég sendi – þau komust aldrei til skila. Það tók mig tíma að átta mig á þessu og úr því fékkst ekki bætt fyrr en ég tók það til bragðs að láta öll mín bréfaskipti fara í gegn um sendiráðið. Þá barst mér fjöldi bréfa frá vinum mínum erlendis þar sem ég var skammaður fyrir að svara aldrei bréfum, og hafði ég nóg að gera við að afsaka mig um tíma.

Hefur aldrei fengist neinn botn í þetta mál?

– Að vísu komst upp um einn mann hjá póstþjónustunni sem hafði tekið allmikið af ávísunum úr bréfum og stungið undan. Vera má að eitthvað af mínum ávísunum hafi verið þar á meðal, en þessi starfsemi var víðtækari en svo að þessi maður hafi staðið að henni einn. Þarna hafa fleiri verið að verki – það urðu fleiri fyrir barðinu á þessu, og ég tel víst að þarna hafi sami hópurinn verið að verki og lengst gekk í því að rakka mig niður.
Þó það tækist að vinna mér mikinn skaða og ég væri orðinn ærið aðþrengdur á tímabili, varð mér aldrei komið á kné með öllu. Ég snéri mér að garðrækt í Hveragerði á þessum árum og lét mér ytri aðstæður í léttu rúmi liggja. Þetta var reyndar fyrsti jurtagarður landsins og dreif ég hann á vísindalegan hátt. Ég hafði samband við jurtagarða erlendis og fékk send fræ og afleggjara en þetta tók mikið af tíma mínum um langt skeið. Þetta starf veitti mér mikla ánægju meðan á því stóð, en saga garðsins varð ekki löng. Hann var lagður í rúst um leið og ég fór frá Hveragerði.

Heildarútgáfa og ljóðagerð


Ég hafði ólítið fyrir því að ná valdi yfir íslenskunni til að skrifa hana – reyndar hafði ég meira fyrir því en að ná valdi á norskri tungu. Þetta tókst þó með seiglunni en kostaði mikla vinnu. Bækurnar mínar voru að vísu rakkaðar niður en ég lét það ekki á mig fá – þegar hér var komið var ég farinn að kynnast mörgum og hafði eignast vini sem tóku upp hanskann fyrir mig þegar mest gekk á. Einu sinni þegar gerð var að mér hörð hríð – að þessu sinni í blöðunum – tóku góðir menn harkalega í taumana og skrifuðu á móti, og þar kom loks að ég hlaut nokkra uppreist æru.

Hvað hefurðu nú fyrir stafni?

– Undanfarin ár hef ég starfað mikið að heildarútgáfu á bókunum mínum. Af henni eru nú komin út 8 bindi hjá Almenna bókafélaginu en þau verða 12 alls. Ég hef þýtt flestar bókanna sem ég skrifaði á norsku og eins yfirfarið og lagað þær bækur sem komið hafa út áður á íslensku.
Í heildarútgáfunni verða öll mín verk nema sex skáldsögur sem ég hef ákveðið að sleppa. Þar á meðal er "Ferðin til stjarnanna", sem reyndar er fyrsta "science fiction"-sagan sem út kom á íslensku. Sú hugmynd hefur komið upp að gefa þessa bók út sér. Það hefur verið allmikið verk að undirbúa heildarútgáfuna og tekið mikið af tíma mínum, en jafnframt hef ég fengist nokkuð við ljóðagerð.

Hefurðu í hyggju að gefa þessi ljóð út í náinni framtíð?

– Það fer nú mest eftir því hvort ég verð sjálfur ánægður með þau. Ég hef gaman af að dunda við þetta en það gengur lítið hjá mér. Það er nú líka svona að þegar maður er kominn á þennan aldur lifir maður ekki eins mikið fyrir framtíðina og áður, enda óvíst hversu mikil framtíð er eftir hérna megin úr þessu. Ekki svo að skilja að ég sé beiskur út í tilveruna, því fer fjarri – ég hef lifað langt og ríkt líf, og það er aðalatriðið.