Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Fiskiróður á Breiðafirði um aldamót =

ÞAÐ ERU LIÐIN fimmtíu ár síðan þetta skeði, en ég man það eins og það hefði skeð í gær. Það voru liðnar 8 vikur af sumri. Allir bændur úr nágrenninu voru við sjóróðra vestur í Kollsvík, eða þá á þilskipum frá Patreksfirði eða Flatey. Konurnar stunduðu búskapinn heima með eldri börnunum og gamalmennum (þar sem þau voru). Oft var þröngt í búi á vorin, þótt hvergi væri sultur, þar sem ég þekkti til. En mikill fengur þótti samt, ef maður varð á undan hvítfuglinum (máfi eða svarbak) að finna rauðmaga eða grásleppu, sem oft kastaði á land í hafróti, eða fjaraði uppi í pollum.

Geldinga vant

Faðir minn var formaður í Kollsvík. Þetta vor hafði tvíburabróðir minn fengið að fljóta með honum sem hálf-drættingur, en ég var heima með móður minni og tveimur yngri systkinum, og átti að heita smali frá okkar heimili, 11 ára gamall.

Á Siglunesi var tvíbýli, og bjó þar, auk föður míns, afabróðir minn, Gestur, að nafni, þá 66 ára gamall. Einnig var þar húsmaður, Gísli Þórðarson, sem bjó í skemmu áfastri við bæ föður míns. Hann var talinn vel efnaður, enda átti hann nokkrar jarðir og margt sauðfé, sem hann smalaði í félagi við afabróður minn - og mig, enda beitiland sameiginlegt og víðáttumikið. Þegar þessi saga gerðist, var Gísli 55 ára gamall. Það mætti því geta sér til, að út-úr-krókarnir við samalamennskuna hafi mætt nokkuð á mér, sem var léttur á mér, þó latur væri.

Árið áður en segir frá, var Gísla vant 9 geldinga, og var einn forustusauður hans, mórauður að lit, og með því nafni. Þeim hafði sézt bregða fyrir við og við, þegar smalað var, en ætti að hafa hendur í hári þeirra, sluppu þeir venjulega í kletta, svo ekki var gott um vik. Gísla þótti súrt í brotið, að ná ekki af þeim ullinni, og víst meira í gamni en alvöru, hafði hann heitið mér því, að ef ég gæti handsamað geldingana, mætti ég nefna sig, ef mér lægi á. Og sauðunum náði ég, en það er önnur saga.

Þennan umrædda morgun, átta vikur af sumri, var veður blítt, og blæjalogn. Ég þóttist hafa veður af því, að eitthvað sérstakt stæði til hjá gömlu mönnunum. Ég hafði séð þá ganga niður að naustum, óvenjulega gleiðstíga. "Þeir skyldu þó aldrei vera að hugsa um að fara í fiskiróður?" hugsaði ég, og hjartað í mér fór að slá tíðara en venja var, því að lengi hafði það verið óskadraumur minn að fá að fara í fiskiróður. Vitanlega þóttist ég fyrirfram viss um, að um slíkt myndi þýðingarlaust að biðja. Og þó. "Ætli Gísli sé búinn að gleyma loforðinu?"

Heitasta óskin

Ég labbaði niður að sjó, gekk nokkra hringi kringum nausthjallinn, eins og köttur í kringum heitt soð. En loks lét ég til skarar skríða og gekk til karlanna. Jú, það stóð heima, þeir voru að beita fiskilóð með nýjum selagörnum. Ég hafði heyrt, að það væri tálbeita fyrir ýsu. Eftir margar og erfiðar tilraunir, gat ég loks stunið upp þessari stuttu setningu: "Gísli, viltu lofa mér með?"

En Gísli tók því allt annað en líklega og bar ýmsu við, svo sem: "Þú verður sjóveikur. Þú ert hlífalaus. Þú hefir ekkert færi".

Þótt ég hefði haft einhver rök á móti þessu, myndi mér hafa verið ómögulegt að bera þau fram, því að hálsinn á mér var orðinn eitthvað svo þröngur, svo að ég varð sífellt að vera að kyngja munnvatni. Ég reikaði burtu, en sjónin var óskýr, því að augun fylltust af vatni. Máski skilja þeir þetta, sem hafa verið litlir drengir, og "átt sér von, sem gat ei ræzt". En mikið fannst mér þá heimurinn ljótur og mennirnir vondir.

Ég var kominn spölkorn frá naustunum, þegar ég heyrði einhvern kalla nafn mitt. Þetta var þá formaðurinn. Hann kom til mín, klappaði á kollinn á mér og sagði: "Skrepptu heim til þín, skinnið mitt, og náðu þér í vettlinga, og ef einhver kápugarmur er til utan yfir þig. Bita þarft þú engan, hann getur þú fengið hjá mér. Og flýttu þér nú, annars verður farið á undan þér".

Ég strauk vatnið úr augunum, og tók til fótanna heim. Þar setti ég heimilið á annan endann, í leit að kápu og skinnsokkum. En að naustunum komst ég nægilega snemma til að hjálpa til við setninguna. Síðan var lagt frá landi, sjóferðabænin höfð yfir af þeim sem kunnu, en formaður sagði mér að lesa faðirvorið, sem ég og gjörði, þó mér þætti illa viðeigandi að biðja Guð um brauð, og vera að fara í fiskiróður.

Á sjó

Mannskapurinn á bátnum, auk gömlu mannanna og mín, voru tvær konur, önnur þeirra Sigríður að nafni, gift kona frá Hreggstöðum, hin unglingsstúlka, 17 ára, Helga að nafni, dóttir Einars bónda á Hreggstðum, rösk og kát stelpa, sem ekki lét standa á svörum við spaugsyrðum gömlu mannanna. Allir voru í sólskinsskapi, þó erfiður væri róðurinn í logninu og hitanum. Ég sat í skut og hafðist ekki að, en virti fyrir mér fjöllin bak við bátinn, sem nú tóku á sig nýjar og nýjar myndir, eftir því sem báturinn fjarlægðist land. "Þarna sérðu nú nefið á honum Brynka gamla á Litlanesi", sagði formaðurinn við mig, og benti mér á Litlanes. "Og þarna er Skorarnefið". Hófst nú ráðagerð um, hvort hér skyldi reynt. En formaður tók af öll tvímæli með því að segja, að lóðin skyldi lögð í svonefndum "Hestskóál" (mið á Látrabjargi) og ekki mætti tefja sig hér, þar sem líka lítil líkindi væru til að fiskur fyndist svona snemma á tíð.

Eftir tveggja stunda róður úr landi var svo komið á áðurnefnt mið, og þar var lóðin lögð. Var það fljótgjört, því að hún var aðeins þriggja stokka löng, eða 300 önglar.

Meðan "legið var yfir", renndu þeir, sem færi höfðu, en fiskirí var sára tregt. Fannst mér nú sárt að vera veiðarfæralaus, enda fór nú Helga vinkona mín að smástríða mér með því, að líklega kæmi ég öngulsár að landi, aumingja strákurinn, eins og hún komst að orði. Hinir töldu, að varla mætti slíkt spásögn kallast, þar sem maðurinn væri færislaus. Ekki lagði formaður neitt til þessara mála.

Eftir hæfilega langa legu var lóðin dregin. Formaður dró, en Gestur goggaði fiskinn. Stúlkurnar andæfðu, en ég lá út á borðið. Brátt komu í ljós silfurlitir blettir niðri í djúpinu. Það reyndust vera stórýsur, feitar og fallegar. Ég fór að telja deplana í sjónum: 6, 7, 8, 9, þar til frændi skipaði mér að þegja, og lét mig vita, að það væri ósiður að telja fisk, áður en innbyrtur væri. Við þessa áminningu sljákkaði svo í mér, að ég hætti að telja, en í sama bili missti afabróðir minn fisk af goggnum. Í gremju sinni sló hann til mín með votum vettling, og sagði að ég hefði "talið fiskinn af goggnum hjá sér". Ég strauk vætuna framan úr mér og hugleiddi, hvort rök myndu finnast fyrir þessari staðhæfingu, en komst að þeirri niðurstöðu, að líklega væri þetta bara eitt af sérvizkunni hans afabróður, því að vitanlega, þar sem ég hafði talið hvern fisk löngu áður en innbyrtur var, hefðu þeir allir átt að fara sama veg.

Flyðran

Lóðin var "beitt út" jafnóðum og dregið var. Þegar því var lokið, sagði formaður, að bezt væri að fá sér bita að borða. Var gerður góður rómur að máli hans. Ég bað hann að lána mér færi, meðan hann mataðist og var það auðsótt. Eftir að hafa sýnt mér, hvernig ég ætti að keipa og taka grunnmál, sleppti hann við mig færinu, en áminnti mig um að setja nú ekki fast í botni. Ekki virtist þessi tilraun mín ætla að bera neinn jákvæðan árangur. Ég varð ekki var. En allt í einu var gripið svo fast í neðri endann, að ég hentist úr að borðstokk. "Nú ertu búinn að festa í botni strákur", kallaði Gísli byrstur og greip af mér færið.

En það reyndist ekki vera fast í botni, heldur í einhverjum stórdrætti. Afabróðir minn greip nú ífæruna, gjörði krossmark yfir henni, og bað nú Guð að styrkja á sér hendurnar, ef þetta skyldi nú reynast vera spraka. Lengi mátti ekki á milli sjá, hvernig þessari viðureign lyki, því ýmist dró Gísli dráttinn, eða hann "strikaði út" aftur. Allir bátsverjar voru hljóðir af eftirvæntingu, og meira að segja ég þorði varla að draga andann. Loks kom drátturinn innbyrðis, og það var stór flyðra.

Ekki kom mér til hugar að eigna mér þennan stóra fiskdrátt, enda hafði ég ekkert að honum starfað, nema halda í færisendann, þegar hann beit á öngulinn. En mikil var gleði mín og annarra innanborðs yfir þessum blessaða feng. Ég heyrði, að karlarnir voru að segja Helgu, að hann yrði líklega varasamur fyrir kvenfólkið, drengurinn, ef hann næði fullorðins aldri, þegar hann væri svona, barnið 11 ára!

Lóðin var nú dregin aftur, og bættist verulega við aflann, sem fyrir var. Síðan var haldið til lands.

"Hann Gvendur litli dró hana"

Konur og börn af bæjum þeim, er áttu mannskap á bátunum, stóðu í fjörunni, þegar lent var. Sprakan, sem lá ofan á í skutnum, var fyrst dregin á land, og laust þá upp miklu fagnaðarópi meðal áhorfendanna. "Hver dró þessa? Hver dró þessa?" hrópaði hver í kapp við annan. Afabróðir minn varð fyrir svörum og sagði: "Það drógu hana nú margir". En Gísli, sem var þar nærstaddur, svaraði höstuglega: "Hann Gvendur litli dró hana". Ekki treysti ég mér til að lýsa undrun minni og gleði yfir þessum úrskurði blessaða gamla mannsins. Það var hvorki í fyrsta né heldur síðasta skipti, sem hann hélt mínum hlut fram. Ekki vissi ég þá, hvers virði þessi úrskurður Gísla var mér, en nú skil ég það, að hann vakti mig til meðvitundar um það, að ég væri einn hlekkur - að vísu agnar smár og veikur - í þeirri keðju, sem nefnt er þjóðfélag, ég sem sagt var að verða maður.

Aflanum var skipt og sprökunni líka, en happdrættisbitana (vaðhornið og sporðinn) fékk ég af óskiptu, og auk þess heilan hlut af öllum öðrum afla. Svo fékk mamma hálfan bátshlutinn, því að faðir minn átti hálfan bátinn móti Gísla, svo að nú var nóg að sjóða. Seinna um kvöldið bað mamma mig að sækja kýrnar. Það myndi mér nú undir venjulegum kringumstæðum ekki hafa þótt mikil nærgætni, eftir svona erfiðan dag. En ég fór orðalaust, og aldrei hefir mér fundizt nokkurt kvöld fegurra en þetta kvöld, veröldin aldrei eins dásamleg og brosandi, og mennirnir góðir.

Frásögn Guðmundar J. Einarssonar - skrásett árið1954


Þeir sem vilja gera athugasemdir við efni síðunnar eða leggja orð í belg af einhverjum ástæðum mega gjarnan senda mér línu. Höfundur síðunnar

Heim aftur