Er Snæfellsjökull nafli veraldar?

- eða miðpunktur heimsins?


= Bölvun Faraós =

Hinn 30. apríl 1923 safnaðist lítill hópur fólks saman á Beaconhæð, sem ber hæst á hæðarhryggnum er liggur þvert yfir norðvestur Hampshire. Var fólkið þarna saman komið til að vera við greftrun George Edward Stanhope Molyneux Herbert, fimmta jarlsins af Carnarvon, em grafinn skyldi á þessum stað þar sem gott útsýni var yfir landareign hans. Sumum þótti sem dauða jarlsins hefði borið að með einkennilegum hætti. Um langt árabil hafði hann kostað uppgröft á Egyptalandi, sem aðeins fimm mánuðum fyrir dauða hans hafði leitt til fundar grafar Tutankhamuns og þar með allra þeirra djásna, er þar voru fólgin og skyldu tryggja velferð faraósins í framlífinu.


 

Aðdagandinn


Þar sem hinn óvænti dauði Carnavons varð svo skömmu eftir fund grafarinnar kviknuðu sögusagnir um óhuganlegan svartagaldur sem varað hefði um aldir – að hinn löngu liðni faraó hefði rétt hramminn út eftir grafarræningjunum, að bölvun Tutankhamuns hefði verið þarna að verki.
Afskipti Carnarvons af hinum konumglegu gröfum höfðu hafist 15 eða 20 árum fyrr. Árið 1901 lenti hann í bílslysi og varð fyrir slæmum áverkum á brjósti. Eftir það átti hann erfitt með öndun og ráðlagði læknir hans honum að dvelja í heitu og þurru loftslagi að vetrarlagi. Á þessum árum var Egyptaland eftirsótt ferðamannaland og Luxor nýtískulegur staður – þar voru fín hótel, merkilegar fornminjar og vinsælar skoðunarferðir til Dals konunganna, eða Dauðadalsins, voru í boði.
Vegna dvalar sinnar í Luxor fékk Carnarvon áhuga á Egyptalandsfræðum. Hann fór þangað aftur ár eftir ár og tók að leggja stund á fornleifafræði og standa fyrir uppgreftri. Þar kom að hann réði sér aðstoðarmann árið 1907 – hinn 33 ára gamla Harold Carter. Carter hafði komið til Egyptalands 17 ára að aldri og unnið fyrir ýmsa þekkta fornfræðinga, s.s. William Flinders, Petrie og Edouard Naville, en hafði síðar yfirumsjón með uppgreftri í Dal konunganna. Eftir að hafa átt í miklum deilum sagði hann því starfi hins vegar upp. Næstu fjögur árin hafði hann hins vegar ofan af fyrir sér með því að gerast leiðsögumaður ferðamanna um Dal konunganna og selja vatnslitamyndir af staðnum. Ætlun þeirra Carnarvons var að finna ósnortnar grafir sem myndu gefa af sér mikinn hagnað í dýrmætum safngripum.

Næstu fimmtán árin, jafnvel meðan fyrri heimsstyrjöldin stóð sem hæst, stóð Carter fyrir uppgreftri í nafni Carnarvons og fann öðru hverju áhugaverðar grafir, en varla nóg af safngripum til að mæta kostnaðinum – sem áður en lauk var orðinn rúmlega 40 þúsund ensk pund. Árið 1992 ákvað Carnarvon að hætta framkvæmdum. Carter gerði honum heimsókn til Highclare og gat fengið hann til að standa straum af einum uppgreftri í viðbót. Á leiðinni til Egyptalands keypti hann sér páfagauk, ef til vill í fagnaðarskyni yfir þessum málalokum.

Innsigluð gröf
– næturrannsókn

Er Carter kom aftur til Luxor í lok október sögðu hinir egypsku verkamenn hans honum að þessi guli syngjandi fugl myndi færa lukku. Hinn fyrsta október byrjuðu þeir að grafa á síðasta ósnortna svæðinu í Dal konunganna, þríhyrningi sem var um einn hektari að stærð. Hinn 4. október komu þeir niður á fornan stigagang og daginn eftir fundu þeir þess óræk merki að þarna var innsigluð gröf.
Carter sendi Carnarvon símskeyti og kom hann frá Englandi, ásamt dóttur sinni, Evelyn, hinn 26. nóvember. Eftir að hafa hreinsað vandlega frá grafarmunanum brutu þeir loks niður steindyrnar. Carter varð fyrstur manna til að skyggnast niður í gröfina eftir að henni var lokað fyrir þúsundum ára. Samkvæmt tilkynningu sem Carnarvon sendi til The Times í London kallaði hann til nærstaddra: "Það eru hinir dásamlegustu hlutir hér!"

Síðar þetta sama kvöld fór fram leynileg rannsókn sem ekki varð kunn fyrr en um hálfri öld síðar er Thomas Hoving ritaði bók sína: "Tutankhamun – Hin ósagða saga". Eftir sólsetur í skjóli myrkurs fóru Carnarvon, ungfrú Evelyn, Carter og aðstoðarmaður hans, Arthur "Pecky" Callender, leynilega inn í gröfina og brutu sér leið inn í innri salinn, þar sem þau fundu hið gullna skíni sem umlukti gullkisturnar sem múmía Tutankhamuns hvíldi í. Síðar þegar munirnir voru færðir úr gröfinni stóð heimurinn á öndinni yfir líkani konungsins í fullri stærð – í gullnum klæðum með skrautlegum höfuðfaldi og hinni gullnu kórónu með ígreyptri mynd sem sýndi faraóinn og drottningu hans. Innri kistan var öll af gulli og svo þung að átta menn þurfti til að lyfta henni. Hin fágaða gullgríma sem var á múmíunni sjálfri hafði augu úr lapiz og fagurlega skreytt skegg – hún myndgerði hinn dauða faraó sem hinn milda Ósiris, konung hinna dauðu.

Áhyggjulegur fyrirboði


Carter og Carnarvon vissu nú nákvæmlega hvað þeir höfðu fundið – hina fornu gröf Tutankhamuns. Á næstu dögum settu þeir á svið opinbera opnun yrsta salarins og hófu undirbúning að því að flytja munina úr honum. En á meðan á þessum æsilegu framkvæmdum stóð þóttust egypsku verkamennirnir verða varir við áhyggjulegan fyrirboða. "Lukkufuglinn" – páfagaukurinn, sem skilinn hafði verið eftir í íbúðarhúsi Carters, hafði verið étinn af gleraugnaslöngu sem komist hafði í búr hans. Konungsgröf hafði verið opnuð og þeir vissu að hið egypska konungdæmi var verndað af gleraugnaslöngunni, gyðjunni Wadjet, – og líkan gleraugnaslöngunnar reisti sig upp úr hinum konunglega höfuðbúnaði. Þetta var fyrirboði um dauða, fullyrtu þeir.

Henry Rhind, sem staðið hafði þarna fyrir uppgreftri löngu fyrr, hefur lýst Dal konunganna þannig:
Langt uppi í fjöllunum opnast djúp dæld í eyðimörkina um þröngt gildrag er liggur í mörgum bugðum að hinu auðnarlega dalverpi umluktu skraufþurrum eyðimerkurhæðum. Dalur dauðans gæti ekki tekið á sig líkingarfyllri mynd. Strjál fótspor hýena og sjakala, sem þó eru til vitnis um líf, vekja aðeins hugrenningar um afurgöngur hinna dauðu."
En þetta var fljótt að breytast þegar fyrstu hundruðin af þúsundum ferðamanna tóku að flykkjast á staðinn til að horfa inn í grafarmunnann og nauða í finnendunum um að fá að fara inn í gröfina. Samkvæmt fréttum í Daily Telegraph varð vegurinn uppeftir fljótlega þéttsetinn af ökutækjum og allskyns áburðardýrum.
Carnarvon fór nú til Englands og var þar í nokkurn tíma til að gera ýmsar ráðstafnir, m.a. að selja The Times einkarétt á fréttaflutningi af framkvæmdunum við uppgröftinn. Um miðjan febrúar var hann kominn aftur til Luxor, lokið hafði verið við að hreinsa út út ytri salnum og nú voru þeir Carter tilbúnir að brjóta niður vegginn sem lokaði aðgangi innri salarins. Þeir buðu um 40 manns að vera viðstöddum er þeir framkvæmdu það að kvöldi 17. febrúar. Inngangur salarins var opnaður á nokkrum klukkustundum og Carnavon og Carter gátu smeygt sér inn – í þetta sinn opnberlega.

Voveiflegur dauðdagi


Nokkrum dögum síðar lokuðu þeir gröfinni aftur, og höfðu í hyggju að láta næsta áfanga brottflutningsins úr henni bíða þar til í lok ársins. Báðir voru þeir nú undir miklu álagi. Samband þeirra við egypsku stjórnina hafði versnað og var nú hart deilt um hver ætti fundinn og rétt til aðgöngu að gröfinni. Carter vann nótt og nýtan dag við mjög erfiðar kringumstæður við að skrá og koma í varðveislu þeim hlutum er þeir höfðu tekið upp úr gröf Tutankhamuns. Kvöld eitt er Carnarvon fór í heimsókn til Carters deildu þeir heiftarlega, og endaði með því að Carter rak Carnarvon á dyr. Þó Carnarvon skrifaði sáttabréf til hans skömmu síðar var þetta sennilega í síðasta sinn sem þeir töluðu saman.
Í febrúarlok var heilsu Carnarvons greinilega farið að hnigna. Hann var fölur og virtist alveg útkeyrður, tennurnar féllu úr munni hans og líkamshitinn var óreglulegur og var eins og hitasóttin kæmi og færi. Snemma í mars fluttist hann til Cairo og um nokkurn tíma var sem heilsa hans færi batnandi en versnaði svo aftur. Kona hans, frá Almina, lagði af stað frá Englandi og sonur hans, Porchester lávarður, frá Indlandi. Hinn 26. mars skrifaði einkaritari hans til Carters að Carnarvon hefði blóðeiturn. Carter lagði þegar af stað til Cairo. Hinn 4. apríl voru þau öll saman komin á Asvoy-hóteli í Cairo – en þá hafði Carnarvon fyrir löngu liðið inn í dá, og þau biðu þess sem verða vildi.
Rétt fyrir kl. 2 um nóttina kom hjúkrunarkonan og tilkynnti að Carnarvon væri látinn. Einmitt á þeirri stundu byrjuðu ljósin á hótelinu að blikka og dóu loks alveg út. Næstu fimm mínúturunar var Cairoborg almyrkvuð. Rafveita borgarinnar hafði alltaf verið stopul og það fékkst aldrei nein skýring á þessari tilteknu bilun. Á ættarsetri Carnarvons heima á Englandi byrjaði veiðihundur hans að spangóla á nákvæmlega sömu stundu en féll síðan dauður niður, húsverðinum í Highclare-kastala til mikillar skelfingar. Orðrómurinn um bölvun farósins skaut rótum í frjósömum jarðvegi.

"Hann skal lamast
og sýkjast"


Það leið ekki á löngu þar til dagblöðin tóku að birta frásagnir af egypskum táknrúnum sem áttu að vera á steininum yfir grafarmunnanum og hóta öllu illu: "Dauði skal koma yfir þann sem snertir gröfina." Sumir fullyrtu að frekari viðvaranir hefðu komið í ljós inni í gröfinni, þar á meðal þessi: "Dauðinn mun ljóstra þann vængjum sínum er rakskar grafarró faraósins." Það er rétt að sumar grafir sem fundist hafa eru verndaðar hótunum af þessu tagi. Ein hjóðar svo: "Hverjum sem níðist á helgi grafarinnar – honum skal Amon, konungur guðanna, fylgja eftir – hann skal hugra, hann skal þyrsta, hann skal lamast og sýkjast." Carter hélt því hins vegar fram að eingin hótun um bölvun af þessu tagi hafi fundist í gröf Tutankhamuns. Það sem mest nálgaðist að vera slík hótun var örsmár lampi með þessari áritun: "Ég hindra sandinn í að kækfa hinn leynda sal. Ég er til verndar hinum framliðna."

Veikindi og dauðsföll


En orðrómurinn um bölvunina færðist í aukana. Og þótt fáir tryðu því að töfrar hins löngu dauða faraós gætu raunverulega leitt dauða yfir menn á 20. öld, þá voru þeir margir sem ekki vildu hafna því fyrir fullt og fast að slík bölvun gæti verið fyrir hendi. Sonur Carnarvons hefur alltaf sagt sem svo að hann hvorki tryði á né hafnaði alfarið að bölvun þessi sé til staðar. Hann sagði Philipp Vandenberg, höfundi bókarinnar "Hinn gleymdi faraó", að skömmu eftir jarðarför föður hans hefði ókunnug kona komið til Highclare-kastala. Sagði hún að nafn sitt væri Wilma og væri hún í sambandi við hinn látna. Tók hún honum strangan vara á að koma nærri gröf föður síns – og það hefur hann aldrei gert.
Staðreyndin er að nokkur hópur fornleifafræðinga og ferðamanna, sem heimsóttu gröfina veiktust eða dóu skömmu síðar en á það ber að líta að þeir voru sumir hverjir aldraðir og sjálfsagt veikir fyrir. Hugsanlegt er að álagið af ströngu ferðalagi og hinn mikli hiti hafi riðið baggamuninn. Prófessor James Henry Breasted, einn þeirra sem urðu vitni að opnun innri salarins, varð heltekinn hitasóttarsjúkdómi sem gekk mjög nærri honum. Prófessor La Fleur heimsótti gröfina sama dag og hann kom til Luxor og lézt á hótelherbergi sínu um nóttina. Amerískur milljónamæringur, George Jay-Gould, dó fyrirvaralaust úr hitasótt sama daginn og hann heimsótti gröfina. A. C. Mace, einn af aðstoðarmönnum Carters, gafst upp á starfi sínu 1924 eftir að hafa fengið hitasóttarköst og lést árið 1928. Annar aðstoðarmaður, R. Bethell, dó úr kransæðastíflu 45 ára gamall.

Tilraunir til skýringa


Öll þessi dauðsföll er sjálfsagt hægt að skýra með því að benda á náttúrulegar orsakir. Talið er hugsanlegt að sýklar hafi leynst í tyki eða sveppagróðri grafarinnar. Réttarlæknirinn, Alfred Lucas, tók nokkur sýni daginn eftir að innri salurinn var opnaður en þó eitt þeirra reyndist neikvætt, fullyrti hann að bakterían væri hættulaus. Sumir telja að sveppirnir, sem huldu veggi grafarinnar, hafi átt sökina, og valdið ofnæmi af einhverju tagi. Að þeir hafi valdið sýkingu í öndunarfærum eins og Legionnarie-sjúkdómur og hafi þetta sérstaklega komið fram á þeim sem voru veikir fyrir, eins og vissulega var tilfellið með Carnarvon. Sú tilgáta hefur jafnvel komið fram að hinir fornu Egyptar hafi notað sérfræðiþekkingu sína á eiturefnum til að vernda grafarró höfðingja sinna, en ekkert haldbært hefur verið fært fram því til staðfestingar.
Þessar tilgátur skýra þó ekki alla þá ógæfuatburði sem orðrómurinn um bölvunina bendlaði við gröf Tutankhamuns. Árið 1926 dó til dæmis breska hjúkrunarkonan, sem hjúkraði Carnarvon og var hún þá 28 ára að aldri. Dauði hennar var umsvifalaust skrifaður á reikning faraósins. Ali Fahmy Bey prins, sem myrtur var af franskri eiginkonu sinni á hóteli í London, var þegar stimplaður sem fórnarlamb bölvunarinnar þótt ekkert hafi fundist því til staðfestingar að hann hafi heimsótt gröfina.
Einkennilegar tilviljanir hafa haldið þjóðsögunni lifandi. Dauði dr. Ezzedin Taha, prófessors við Cairo-háskóla árið 1962 er dæmi um þetta. Hann hafði komist að því að fornleifafræðingar þjást margir af gerlasýkingu í lungum og hélt því fram að þarna væri komin skýringin á veikindum þeirra er farið höfðu inn í hina nýopnuðu gröf. Skömmu síðar henti það á hinum breiða og beina vegi frá Cairo til Suez að bíll hans lenti á fullri ferð framan á bíl sem ók á móti. Krufning leiddi í ljós að dr. Taha hefði dáið úr kransæðastíflu nokkrum sekúntum fyrir áreksturinn.

Víðsjár á síðasta áratug


Fleiri sögusögnum um ill áhrif var hrundið af stað í sambandi við stóra sýningu á fornminjum úr gröf Tutankhamuns, sem sett var upp í London 1972 og síðar í Bandaríkjunum. Ein varðar dauða dr Gamal Ed-Din Mehrez, yfirmanns Fornminjadeildarinnar. Hann sagði Philipp Vandenberg að hann gæti alls ekki trúað á bölvunina, þó hann viðurkenndi að hin dularfullu dauðsföll hlytu að vekja til umhugsunar. "Líttu á mig," sagði hann, "allt mitt líf hef ég starfað í sambandi við grafir og múmíur. Ég er vissulega sönnun fyrir því að þetta voru ekki annað en tilviljanir." Aðeins fjórum vikum síðar varð hann bráðkvaddur, þá 52 ára að aldri.
Ýmsar sögur spunnust upp á vafasömum grundvelli. Flugvélstjóri herflugvélarinnar, sem flutti sýninguna til London, sparkaði af einhverjum ástæðum í kassann utan um dánargrímu Tutankhamuns. Tveimur árum síðar fótbrotnaði hann á sama fæti í slysi. Aðrir áhafnarmeðlimir eru sagðir hafa dáið óvænt eða fengið alvarlega sjúkdóma. Þá þótti ýmislegt víðsjávert gerast við gerð kvikmyndarinnar "Bölvun Tuts konungs" árið 1980. Fyrsta daginn sem tökur fóru fram í Egyptalandi fór flutningabíll fram af hæðarbrún og aðalstjarna myndarinnar, Ian McShane, fótbrotnaði á tíu stöðum . . .

 

 

 

Framhald . . .

 

 

 

 

Framhald . . .

 

 

Þýtt og endursagt: Bragi Óskarsson

Sjá einnig: Leyndardómar pýramidans mikla


Heim aftur