Örlagasaga og óskýrð fyrirbæri:

Blóm frá öðru tilverusviði

– efnisbirting og kærleiksrík lækning



 

Hinn hlutræni veruleiki er einhver augljósasta staðreynd daglegs lífs og reyndar alveg augljós – eða hvað? Vísindin hafa reyndar fyrir löngu sett samasem-merki milli efnis og orku, og kjarneðlisfræðin hefur sýnt framá að innri gerð efnis er næsta lausbeisluð og það sé að mestu leyti tómarúm. En allt um það er efnið jafn traust og varanlegt eins og það hefur alltaf verið. Sagt er að Jesú hafi breytt vatni í vín, og nokkrum brauðum og fiskum í máltíð fyrir fleiri hundruð manns. Sögur um hluti er birst hafa eða ummyndast, og ætlað er að eigi uppruna sinn á öðru tilverusviði, eru ótal margar, ekki síst í austurlöndum. Sai Baba, sem búsettur er á Indlandi og margir trúa að sé heilagur maður, er sagður hafa það á valdi sínu að efnisbirta hluti með þessum hætti. Íslenskur vísindamaður, Erlendur Haraldsson, gerði umfangsmiklar rannsóknir varðandi hæfileika Sai Baba, og virtist ekkert benda til að um svik eða sjónhverfingar væri að ræða. Um þessar rannsóknir má lesa í bók hans um rannsóknirnar, sem komið hefur út á fjölmörgum tungumálum.

Frásagnir af fyrirbærum sem þessum eru vissulega til hér á Íslandi og er hér gripið niður í eina, sem er merkileg fyrir margra hluta sakir – og þá ekki síst fyrir það, að fyrirbærin hjálpðu bágstöddum einstaklingi til að öðlast geðheilsu á ný.
Á Grýtubakka í Suður-Þingeyjarsýslu gerðust atburðir árið 1923 sem vöktu mikið umtal en aldrei hefur fengist fullnaðarskýring á. Kona, sem lent hafði miklum raunum og misst hafði vitið af þeim sökum, sagðist komast í samband við einhvers konar ljósverur í svefni – og það sem meira var, hún gat sýnt jurtir til sannindamerkis um samskipti sín við þessar framandi verur. Bóndinn á Grýtubakka, Bjarni Arason, segir svo frá í greinargerð, sem hann ritaði um málið og birtist í tímaritinu Morgni þetta sama ár. – Skömmu fyrir páska tók ég á heimili mitt hjón vestan úr Fljótum, Gunnlaug Sigurðsson og Maríu Jónsdóttur að nafni. Hjón þessi áttu laglegt bú þar vestra um nokkurra ára skeið, en svo urðu þau fyrir þeirri þungbæru reynslu að missa, fyrst nær því allan búpening sinn, svo að Gunnlaugur varð að leita sér atvinnu á sjónum – en þegar hann var kominn á skip, veiktust bæði börnin þeirra og dóu með fárra daga millibili. Þá voru veður svo hörð, að skip fórust, og missti þá María bróður sinn í sjóinn. Þá var og skip það, sem Gunnlaugur var á, talið frá um það leyti, sem börnin dóu. Faðir Maríu, sem hún unni mjög, hafi þá fyrir skömmu drukknað í tjörn skammt frá bæ hennar.

Þessar hörmungar fengu svo á hana, að hún tapaði vitinu – þó náði hún sér aftur að nokkru, en leið stöðugt illa, gat aldrei verið um kyrrt eða stöðvað sig við verk, og stundum setti að hanni gráthviður. Í þessu ástandi hafði hún verið tíu mánuði, er hún kom á heimili mitt. Allt var gert til að lina og létta þjáningar hennar, sem fólkinu hugkvæmdist, þar á meðal var henni stöðugt ráðlagt að biðja guð að hjálpa sér. Og að lokum virtist hún sjálf fá áhuga á því.

Draumurinn

Sunnudag 7. maí var hún með lakasta móti, var aldrei um kyrrt og heimtaði án afláts, að hún yrði flutt í átthaga sína. Næstu nótt dreymdi hana, að hún var stödd í mannfjölda, sem þó var inni í afar stórum skrúðgarði, en hún fyrir utan. Einn var þar, sem bar af öllum að fegurð og tíguleik, og þóttist hún aldrei hafa séð fegurri né tignarlegri mann. Þessi maður kemur til hennar og leggur höndina á höfuð henni og segir: „Þú ert þá komin hér, vesalingur." Hún kvaðst þá hafa beðið hann um hjálp, og sagt honum, hvað sig langaði óumræðilega mikið vestur í Fljót. Þá strauk hann blíðlega um vanga hennar og sagði, að það væri ekki betra fyrir hana í Fljótum en annars staðar, enda hefðu það verið sín ráð, að hún færi (hingað), og hann skyldi vera með henni, hvar sem hún yrði, þó því aðeins, að hún tryði sér. Síðan las hann henni sálmavers og lagði ríkt á, að hún gleymdi því ekki. Hún sagðist vera hrædd um, að hún myndi það ekki – það sagðist hann sjá um. Að því búnu gaf hann henni grænt blað af einhverri jurt, sem hann hafði í lófa sínum.

Þegar María vaknar næsta morgun, man hún versið, sem er 4. vers 344. sálmi í salmabókinni, eftir Valdimar Briem. Hún hafði þá blaðið í lófa sínum. Það líktist mest fullvöxnu túnsóleyjarblaði. Þessu blaði var þó lítill gaumur gefinn – helst var ályktað, að hún mundi hafa tekið þurrkaða jurt úr einhverri bók. Hefði það svo vöknað í lofa hennar. Þegar leið á þennan dag (8. maí), fór aftur að bera á geðveiki hennar. Varð hún þá mjög uppnæm og heimtaði, að hún væri flutt vestur. Fór ég þá að telja um fyrir henni, og sagði henni, að þessi óþreyja byggi í henni sjálfri, og hún mundi ekki geta flúið sjálfa sig, þó að hún flytti vestur í Fljót. Þetta viðurkenndi hún, en kvaðst ekki geta stjórnað sér. Það væru vondir andar, sem rækju sig til að láta svona, en ekki hún sjálf.
Litlu síðar setti að henni gráthviðu. Var hún þá svo þjáð, að átakanlegt var að sjá. Konan mín fékk hana þá til að leggjast í rúmið, en Helga dóttir mín settist fyrir framan hana og söng úr sálmabókinni, það sem henni fannst helst til huggunar. María sofnaði við sönginn. En eftir litla stund sá Helga dóttir mín litla jurt í lófa hennar. Jurtin var fagurgræn og lifandi og með óútsprungnum blaðhnöppum.
Nú þrutu öll rök. Allt fólkið á heimilinu horfði undrandi á þessa ókunnu jurt, ólíka öllum jurtum í glugganum hérna. – Skrúðgarðurinn var líka alþakinn snjó þennan dag, enda hafði María ekkert farið út. Þá sagði hún, að sig hefði dreymt, að sami fallegi maðurinn kæmi til hennar og spyrði, hvað ylli gráti hennar. Hún kvaðst hafa sagt honum, að sér félli svo illa, að fólkið tryði því ekki, að hann hefði gefið sér blaðið. Gaf hann henni þá þessa jurt, og bað hana jafnframt að muna eftir versinu, sem hann hefði kennt henni.
Um kvöldið (sama dag) bað María Helgu að ráðleggja sér, hvers hún skyldi nú biðja, ef hún fyndi draumamann sinn í nótt. Helga sagði henni að biðja hann um jurt, sem enginn maður hefði séð. Einnig ráðlagði hún henni að biðja um guðsfrið í sál sína.
Snemma næsta morgun fór Helga að vitja Maríu. Var hún þá enn sofandi, en með jurt í lófanum, ekki ólíka hinni, að öðru en því, að þessi var öll þakin með logagyltum smáögnum. Inn við óútsprungnu blaðhnappana var líkt og örsmáar gullnálar stæðu út úr jurtinni og mynduðu eins og geislakórónu.

Nú vaknar María og saknar þegar jurtarinnar, og hélt sig hafa týnt henni á leiðinni. Segir hún þá draum sinn. Þykist hún nú enn vera stödd við þennan undurfagra skrúðgarð. Var hann svo víðáttumikill, að ekki sá yfir hann. Hann var alsettur viðum og blómum. Í öllum garðinum sá hún fólk við vinnu. Fólk þetta var allt í skínandi klæðum. Sumir voru að vökva blóm, ekki með vatni, heldur með einhverjum gyltum vökva. Ekki kvað hún vera unnt að lýsa fegurð blómanna eða trjánna, og allt var fólkið fallegt og broshýrt. Þarna þykist hún nú sitja utan girðingar, og gráta eymd sína, þegar draumamaður hennar kemur til hennar út úr garðinum. Kveðst hún þá hafa beðið eins og Helga lagði fyrir hana. Þá hefði hann fengið sér þessa gyltu plöntu. Að því búnu kenndi hann henni vers . . .

– – –

 

Framhald . . .

 

Samantekt þessa í heild er að finna í bókinni 'Ráðgátur'

 

Til baka