Ég vitja þín æska


HIMNABRÉFIÐ

Á himnabréfi þessu hafði Kristrún hina mestu trú. Lét hún jafnan lesa það á afmælisdegi Oddnýjar dóttur sinnar. Bréfið gaf hún mér og bað mig að skilja það aldrei við mig, og það hefi ég ekki gert. Kvað hún það mundu vernda mig gegn eldsvoða og hvers konar grandi.

"Himnabréfið, sem af himnum var opinberaá í Mikaelsborg á Þýzkalandi 1847.

Í Mikaelsborg á Þýzkalandi hangir eitt bréf, og veit enginn á hverju það hangir, með forgylltum bókstöfum skrifað, og er fyrir engilinn Mikael ofan sent. Hver sem vill eftir því skrifa, til þess beygir það sig og upp lætur, en hver, sem það vill taka, frá þeim hverfur það. Athugið það, góðir bræður, athugið þetta boð og befalningu; sem fyrir engilinn Mikael er út send og opinberuð og svo hljóðar:

Hver, sem á sunnudögum erfiðar, sá er bölvaður. Þar fyrir býð ég yður, að þér á sunnudaginn ekkert erfiðið fyrir peninga, heldur með alúðarfullri andvörpun gangið til kirkju Guðs orð að heyra. Þér skuluð ei prýða yður né krúsa yðar hár, ei greiða yður með dramblæti, þar með syndir að drýgja. Þér skuluð af ríkdómi yðar meðdeila þeim fátæku og trúa því, að þetta bréf er af minni eigin hendi út sent, Jesús Kristur, svo að þér gerið ei eins og þau villidýrin. Þér hafið sex daga til að erfiða, en sjöunda daginn skuluð þér heilagan halda, gangið til kirkju Guðs orð að heyra og meðtaka með andvörpunum. Biðjið fyrir yðar syndum, svo að þær verði yður fyrirgefnar. Girnist ekki gull né silfur. Fremjið ekkert illt í mínu nafni, hvorki með holdlegum girndum né gjörðum. Enginn baktali annan með sinni tungu. Fyrirfarið ei yðar góssi, svíkið ei þann fátæka eða munaðarlausa, berið ei falskan vitnisburð á móti yðar náunga, heldur sannleika. Hver, sem þessu bréfi ei trúir, er glatað(ur) og hefir hvorki lukku né blessun. Ég segi þetta, Jesús Kristur, sem þetta bréf hefi skrifað með minni eigin hendi. Hver, sem hér á móti segir, er glataður og skal aldrei fá hjálp af mér, og hver, sem þetta bréf hefir og vill ei opinbera, sá er bölvaður og af þeirri kristilegu trú og minni almættishendi yfirgefinn.

Þetta skal hver eftir annan skrifa láta. Þó að þér hafið svo margar syndir, sem sandurinn á sjónum, laufið á trjánum og stjörnurnar á himninum, ef þér þeirra iðrist, þá skulu þær verða yður fyrirgefnar. Hver, sem þessu bréfi ei trúir, skal deyja, og ungbörn skulu og svo deyja. Snúið yður, annars skuluð þér pínast eilíflega í Helvíti. Á þeim efsta degi mun ég spyrja yður, og þér munuð ei svara mér einu orði til þúsund vegna yðar synda.

Hver, sem þetta bréf hefir í húsum sínum eða á sér ber, hann skal hvorki eldur né reiðarþrumur niður slá, hann skal og verndaður verða fyrir eldi og vatni, og hver manneskja, sem það á sér ber, mun fá gleðilegan afgang og viðskilnað úr þessari veröldu. Haldið mitt boð, sem ég býð yður og með minni eigin hendi er skrifað, en fyrir engilinn Mikael er opinberað, er sá sannlegi Jesús Kristur. Amen." 1)

1) Um bréf þetta er getið í Ísl. annálum IV. 3., ble. 284-285. Ennfremur Þjóðsögum Jóns Árnasonar II, bls. 53-55.


Framhald . . .

Til baka